*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Leiðari
22. febrúar 2018 15:52

Óskrifað blað frá Valhöll

Eyþór Arnalds, sem stóð með pálmann í höndunum eftir stórsigur í leiðtogaprófkjöri flokksins, á erfitt verk fyrir höndum.

Haraldur Guðjónsson

Ákall um endurnýjun í stjórnmálum hefur farið hátt allt frá því að pottarnir þögnuðu á Austurvelli eftir hrunið. Nú virðist sem niðurinn hafi loks náð eyrum Valhallar, því allt útlit er fyrir að samanlögð reynsla sitjandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hlaupi á mánuðum eftir komandi borgarstjórnarkosningar. Oddvitanum Eyþóri Arnalds, sem vissulega hefur reynslu af því að reka álíka fjölmennt sveitarfélag og Mosfellsbæ, fylgja að öllum líkindum svo ferskir vindar að reyndustu menn í stjórnmálum kannast ekkert við þá. Reynsluboltar Sjálfstæðisflokksins í borginni, Áslaug María Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon, þurfa að taka pokann sinn og víkja fyrir fólki sem helst hefur það sér til frægðar unnið að vinna kosningar í háskólapólitíkinni.

Sigurvegarar leiðtogaprófkjörsins, að Eyþóri frátöldum, eru því Marta Guðjónsdóttir, sem hafði vit á að bíða og lýsa yfir stuðningi við nýkjörinn oddvita, og hverfafélögin sem hafa hægt og bítandi náð undirtökunum í borgarmálum flokksins. Gamalreyndum Sjálfstæðismönnum gæti því reynst erfitt að selja kjósendum þá hugmynd að flokkurinn sé það kjölfestuafl í stjórnmálum sem hann telur sig vera þegar nánast öllu byrjunarliði síðasta tímabils hefur verið skipt út.

Ýmislegt virðist þó ætla að vinna með Sjálfstæðisflokknum í borginni. Helmingur kjósenda telur samgöngumál verða hitamál kosninganna og kýs að líkindum út frá því, en íbúar austurhluta borgarinnar eru langþreyttir á að sitja í umferð til og frá vinnu en efri byggðir borgarinnar eru helstu vígi flokksins. Húsnæðisuppbygging í borginni hefur auk þess gengið hægar en vonir stóðu til en rúmur fjórðungur kjósenda telur að húsnæðismál verði aðalatriðið í komandi kosningum. Þennan veruleika þarf meirihlutinn að verja.

En annað gæti reynst Eyþóri og ungliðunum erfitt. Brotthvarf áratuga reynslu úr röðum borgarstjórnarhópsins gerir oddvitanum erfitt um vik að útfæra með sannfærandi hætti tiltekt í borgarkerfinu með reynslulausan borgarstjórnarflokk að baki sér. Þá er ljóst að þrátt fyrir brotthvarf Áslaugar, sem að mati harðkjarnasjálfstæðismanna er of mild í garð meirihlutans, verður listinn ekki einvörðungu skipaður hörðum andstæðingum Borgarlínu, byggðarþéttingu og stuðningsmönnum óbreytts ástands í Vatnsmýrinni.

Í því ástandi kemur Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, ríðandi á hvítum norðurljósahesti með gallharða afstöðu í báðum þessum málum. Eyþór þarf því að verjast sókn Miðflokksins í hans harðasta fylgi, en líklegt er að Miðflokkurinn muni að miklu leyti sækja fylgi sitt á sömu mið og Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að róa á. Harla ólíklegt verður nefnilega að teljast að kjósendur núverandi meirihluta taki u-beygju og kjósi flokk Sigmundar Davíðs.

Á vesturvígstöðvunum þarf Sjálfstæðisflokkurinn svo að kljást við Viðreisn, sem þrátt fyrir að hafa ekki stillt upp lista, útnefnt oddvita eða gefið með beinum hætti nokkuð upp um stefnumál sín í borginni, fékk rúmlega 6% fylgi í skoðanakönnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið í janúar. Þingmenn Viðreisnar hafa auk þess undanfarið verið í borgarpólitík á Alþingi, til dæmis með umræðu um leigubílaleyfi og mögulegur oddviti flokksins í borginni, Pawel Bartoszek, hefur látið til sín taka í opinberri umræðu um borgarmál að undanförnu.

Brotthvarf Áslaugar úr borgarstjórnarflokknum gæti gert Sjálfstæðisflokkinn útsettari til að missa fylgi til Viðreisnar. Sjálfstæðisflokkurinn er þannig á vissan hátt milli steins og sleggju. Keyri hann harðar gegn Borgarlínu og þéttingu byggðar er líklegt að hann missi fylgi til Viðreisnar en færi hann sig í átt að þeirri stefnu gæti fylgið tæst af honum til Miðflokksins. Eyþór, sem stóð með pálmann í höndunum eftir stórsigur í leiðtogaprófkjöri flokksins, á því erfitt verk fyrir höndum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.