Þeir voru ábúðarfullir í fréttum fyrir stuttu, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, það að sagt er flokks þeirra er aðhyllast frjáls viðskipti, sem og formaður atvinnuveganefndar Alþingis og formaður Bændasamtakanna.

Þar fóru þeir vandlega fram með rök fyrir því að ekki mætti mikið hrófla við nýgerðum búvörusamningi. Samningurinn, sem er aðeins til næstu tíu ára, kostar okkur skattgreiðendur milljarða á milljarða ofan en þarf reyndar að fá staðfestingu Alþingis – og það helst möglunarlaust.

MS-kerfið geirneglt og pikkfest í sessi. Hvort MarieAntoinette hafi hér á sínum tíma í raun spurt hvort pöpullinn gæti ekki satt sárasta hungrið með kökuáti eða ekki skiptir engu máli. En óneitanlega datt mér hún í hug þegar fregnir bárust af tilraunum útsendara bænda í atvinnuveganefnd Alþingis til að stagbæta samninginn, svona rétt til að slá á vaxandi gagnrýni.

Hugmyndin ku víst ganga út á það að heimila okkur aumum skattborgurunum, sem fjármögnum jú allt þetta bix, að fá örlítið meira af ekki jafn brjálæðislega ofurtolluðum innfluttum osti en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Allt er það nú gott og blessað og tær snilld.

Eða hvað? Hvernig má það vera, að annar samningsaðilinn, þ.e. bændaforystan, geti verið búin að fara með samninginn í atkvæðagreiðslu hjá öllum sínum félagsmönnum og komi svo til Alþingis og segi að svona verði þetta að vera? Og ef maldað er í móinn, þá er boðist til að henda nokkrum ostbitum í liðið til að róa það?

Þessi vinnubrögð standast auðvitað enga skoðun og eru þeim sem að þeim koma til minnkunar – og þá sér í lagi Alþingi ef það lætur bjóða sér vinnubrögð sem þessi. Vinir mínir í Andríki fjölluðu á svipuðum nótum um nýgerðan samning menntamálaráðherra við íþróttahreyfinguna og bentu réttilega á að Alþingi þarf auðvitað að kenna ráðherrum í eitt skipti fyrir öll að svona framkoma við fjárveitingarvaldið og skattgreiðendur verði ekki liðin.