Frægt varð þegar Jo Moore, einn af spunalæknum Tony Blair og Verkamannaflokksins breska, benti á það í tölvupósti 11. september 2001, að það væri góður dagur til þess að grafa vondar fréttir. Að nota þann brjálaða fréttadag sem sagt til þess að senda út fréttatilkynningar af „erfiðum málum“, sem ríkisstjórnin kærði sig ekki um að svara fyrir og enginn tæki eftir þann daginn.

Manni sýnist að Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins (RÚV), hafi reynt að leika sama leik síðastliðinn fimmtudag, þegar hún læddi út yfirlýsingu um Shanghæ-málið á vef RÚV. Þar var í löngu máli reynt að klína sökinni í málinu á verkalýðsfélagið Einingu Iðju, en í lokin klykkt úr með að auðvitað bæri „fréttastofan ein ábyrgð á fréttinni og framsetningu hennar“.

Það var og. En engin afsökunarbeiðni eða leiðrétting á fyrri fréttaflutningi. Eða svo vitnað sé í siðareglur fréttastofu:

Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra. Gildir þá einu hvort í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki, samtök, félög eða annað.

[…] Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er.

Með þessum vinnubrögðum er nánast verið að halla máli áfram og ekki verður betur séð en að Ríkisútvarpið sé að upplýsa um heimildir sínar í þokkabót.

Verkalýðsfélagið var frekar ósátt við þetta og svaraði fullum hálsi á vef sínum:

Að reyna að skjóta ábyrgðinni af fréttaflutningi RÚV að einhverju leyti yfir á Einingu-Iðju er Ríkisútvarpinu ekki samboðið. Fréttastofa þess þarf ein að axla ábyrgð af ófaglegum vinnubrögðum sínum.

***

Hver skyldi svo hafa birst í kvöldfréttum RÚV á þriðjudagskvöld nema Sunna Valgerðardóttir, sem hefur lítið sést á skjánum síðan hún flutti röngu fréttina um Sjanghæ á dögunum. Nú var hún komin með aðra frétt frá Akureyri um hve erfitt væri að sannreyna upplýsingar um að laun og önnur gjöld séu greidd og lítið að marka launaseðla sem sýndir eru verkalýðsfélögum?!

Nú er auðvitað erfitt að sannreyna nokkuð slíkt hjá Sjanghæ, því veitingahúsið hefur verið lokað síðan Sunna stóð þar síðast með mækinn.

Þessi ósvífni er engu lík. Staðurinn er rústir einar, en Sunnu og fréttastofunni er ljóslega skítsama og aðallega í mun að nota fréttatímann til þess að gefa til kynna að hún hafi þrátt fyrir allt haft rétt fyrir sér í einhverjum skilningi, sama hversu langsóttur hann er. Á meðan er fólk á Akureyri sem hugsanlega er að missa vinnuna út af þessu falsi og fúski fréttastofu Ríkisútvarpsins.

***

Það er af svo mörgu að taka þegar horft er til fjölmiðaumfjöllunar um æruþvottinn og stjórnarslitin undanfarna daga, að fylla mætti síðuna alla af athugasemdum um hana. Kannski það komi að því, en það verður látið eiga sig í bili, enda málið enn í deiglu.

Tvennt þó, sem snertir ekki efnislega umfjöllun nema að litlu leyti:

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 á þriðjudagsmorgun, þar sem rætt um hinn stjórnsýslulega þátt málsins. Eða það var tilefnið. Hún beindi tali sínu þó ekki síður að hinum pólitíska þætti málsins og frammistöðu dómsmálaráðherra, án þess þó að virðast sjálf með stjórnsýslulegan feril þeirra mála á hreinu.

Sem er auðvitað lakara fyrir fræðimannsheiður hennar. Meinið fyrir RÚV er hins vegar það, að Sigurbjörg hefur gefið sig að stjórnmálastörfum fyrir Samfylkinguna, en á það var ekki minnst í kynningu hennar. Það hefðu hlustendur þurft að vita.

Sumir miðlar gerðu mikið úr því að tilteknir erlendir fjölmiðlar hefðu sagt frá stjórnarslitunum og að þau tengdust barnaníðsmálum á einhvern hátt. Það er alveg rétt, sumar fréttastofur sögðu frá því og einnig ýmsir miðlar í helstu nágrannalöndum.

En það var ofmælt, ýkjur jafnvel, að segja að þær fregnir hefðu vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi. Það er auðvelt að sjá af tölfræði Google Trends um tíðni vefleitar að fréttum frá Íslandi. Þar var enginn kippur í vikunni, aðeins 2,3% aukning frá vikunni á undan. Sem er vel innan suðmarka.