Á næsta ári fá sveitarfélög landsins að minnsta kosti 1,3 milljarða króna í auknar skatttekjur af fyrirtækjum með þægilegum hætti. Sveitarfélögin kjósa einfaldlega að gera ekki neitt á meðan fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar duglega, enn eitt árið.

Á fimm árum hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 40%. Eingöngu tvö sveitarfélög þar, Kópavogur og Seltjarnarnes, hafa brugðizt við með lækkun á skattprósentunni.

Langflest sveitarfélög innheimta hæstu lögleyfðu fasteignagjöld, 1,32% af fasteignamati að viðbættu 25% álagi sem heimild er fyrir í lögunum um tekjustofna sveitarfélaga. Samtals gerir það 1,65%.

Fasteignagjald er í eðli sínu vondur skattur sem leggst á eigið fé fyrirtækja, burtséð frá afkomu þeirra. Hækkanir á fasteignaverði og þar með fasteignamati hafa ekkert um afkomu flestra fyrirtækja að segja, en stuðla að aukinni skattbyrði þeirra.

Í tvígang á árinu hefur Félag atvinnurekenda sent sveitarfélögum, þar sem aðildarfyrirtæki FA starfa, áskorun um að lækka álagningarprósentuna til að mæta gríðarlegum hækkunum á fasteignamatinu.

Við framlagningu fjárhagsáætlana kom í ljós að sveitarfélögin gerðu sum hver ráð fyrir lækkun skattprósentu á íbúðarhúsnæði, en fyrirtækin fá áfram að borga upp í topp.

Um miðjan nóvember sendi FA sömu sveitarfélögum, að Seltjarnarnesi undanskildu, bréf og fór fram á rökstuðning fyrir því að þau skuli beita heimildinni til að leggja 25% ofan á skattinn.

Jafnframt fór FA fram á að fá að vita hvaða kostnaðarútreikningar lægju að baki. Nú rúmum mánuði síðar hefur engu af bréfunum verið svarað.

Það er þægilegt fyrir sveitarstjórnarmenn þegar fleiri krónur klingja í kassanum án þess að þeir þurfi að lyfta fingri. Fyrir fyrirtækin er þessi 40% skattahækkun á fimm árum öllu óþægilegri veruleiki.

--------------

Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.