*

föstudagur, 22. september 2017
Gísli Freyr Valdórsson
5. júlí 2012 15:32

Óttinn við tollinn

Það er eitthvað svo bjagað við það að ríkisstarfsmenn skuli í alvöru leita að rafmagnstækjum og sígarettupökkum í töskunni þinni.

Ef þú kaupir þér iPad í útlöndum og er tekinn með hann í tollinum þarftu að greiða sekt til ríkisins.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eitt af því sem Íslendingar eru hvað hræddastir við að koma heim aftur eftir að hafa verið í útlöndum er að fara „í gegnum tollinn“ eins og það er kallað. Það er ekki af því að meginþorri Íslendinga sé að flytja inn vopn og eiturlyf, heldur hefur meginþorrinn gerst sekur við reglur stjórnvalda um að hafa keypt sér allt of mikið í útlöndum. 

Það er nefnilega þannig að á Íslandi árið 2012 máttu ekki kaupa þér raftæki, föt og annað í útlöndum án þess að greiða af því tolla. Á hverjum degi fer fjöldi Íslendinga „í gegnum tollinn“ nötrandi af ótta við að vera gripnir með nýja iPadinn eða myndavélina sem það keypti margfalt ódýrara í útlöndum.

Ef þú lendir í því að ríkisstarfsmenn stoppa þig við að koma heim með vörur án þess að tilkynna það til ríkisins og greiða viðeigandi gjöld til sama ríkis samkvæmt reglum ríkisins, getur ríkið tekið af þér vörur og lagt á þig sekt. Það er i sjálfu sér ekki við tollverðina að sakast, þeir eru bara að vinna vinnuna sína, en það er samt eitthvað svo bjagað við það að ríkisstarfsmenn skuli í alvöru leita að rafmagnstækjum og sígarettupökkum í töskunni þinni. 

Ein helsta leið stjórnmálamanna til að bæta hag heimilanna margfalt væri að afnema alla tolla og vörugjöld. Við búum á eyju lengst norður í hafi og það er nákvæmlega engin ástæða til að halda uppi tollum á fyrrnefndum vörum. Engin ástæða önnur en sú að stjórnmálamenn vilja fá peningana þína. 

Hvað er það sem stoppar stjórnmálamenn í að leggja niður tolla strax í dag? Það þarf ekkert inngöngu í ESB til þess. Af hverju einblína Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, Samtök verslunar og þjónustu, Alþýðusamband Íslands og fleiri hagsmunasamtök ekki á þetta frekar en að hamast við eins og rjúpa við staur við það að koma okkur inn í ESB? 

Það eru engin rök fyrir því að viðhalda tollum og vörugjöldum önnur en þau að ríkið vill hafa eitthvað um það að segja hvar og hvernig þú eyðir peningunum þínum og vill auðvitað fá sinn hluta líka. Á meðan þurfa íslenskir neytendur að greiða margfalt hærra verð fyrir nær allar vörur með sínum ónýta gjaldmiðli og í fangelsi gjaldeyrishafta. 

Frelsið er lúxus og einhvern veginn virðumst við bara sætta okkur við þetta. Við höldum áfram að svitna við það eitt að labba í gegnum tollinn í þeirri von að ríkið refsi okkur ekki ef það kemst upp að við keyptum okkur eitthvað skemmtilegt í útlöndum. 

 

Endahnútur – birtist í Viðskiptablaðinu 05.07.12.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.