*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
29. mars 2015 12:20

Pakkinn er öllum opinn

Óþarfi er að klára viðræður við Evrópusambandið til að vita hvað í "pakkanum" er að finna.

Krafan um að vilja sjá í pakkann er orðin svo nátengd umræðunni um Evrópusambandið að nánast er ástæða til að óttast að umræðan fari að hafa óbein áhrif á barnaafmæli í landinu. Það að vilja klára aðildarviðræður við Evrópusambandið til að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan þess eða utan væri eðlilegt ef um eiginlegar aðildarviðræður væri að ræða. Svo er reyndar ekki og við vitum, eða getum vitað ef vilji er til þess, hvað er í þessum ágæta pakka.

Í upplýsingabæklingi framkvæmdastjórnar ESB „Understanding Enlargement“ segir orðrétt: „Í fyrsta lagi er mikilvægt að taka fram að hugtakið „viðræður“ getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um það hvernig og hvenær aðildarríkið tekur upp, innleiðir og framkvæmir reglur ESB, sem eru alls um 90.000 blaðsíður. Um þessar reglur (sem einnig eru þekktar sem „acquis“ – sem á frönsku þýðir „það sem þegar hefur verið samþykkt“) er ekki hægt að semja. Fyrir umsóknarríki snýst þetta í rauninni um það hvernig og hvenær reglur ESB eru innleiddar og framkvæmdar. Fyrir ESB er mikilvægt að fá staðfestingu á því hversu vel og hvenær umsóknarríkið meðtekur reglurnar.“

Samkvæmt þessu þá er pakkinn opinn nú þegar og við getum vel séð hvað er í honum. Í pakkanum er regluverk ESB eins og það leggur sig. Að sjálfsögðu er svigrúm til staðar við innleiðingu reglna, en það svigrúm er takmarkað, og Ísland getur ekki, frekar en önnur umsóknarríki samið sig frá ákveðnum lagabálkum eða fengið verulegar undanþágur þar frá. Þessu var öðruvísi háttað áður fyrr, þegar ríki gátu fengið inngöngu í Evrópusambandið á sérkjörum, en það er einfaldlega ekki lengur í boði.

Það breytir því ekki að það hvernig ríkisstjórnin almennt og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sérstaklega stóðu að því að slíta aðildarviðræðunum er aðfinnsluvert. Mun betra hefði verið ef málið hefði farið í gegnum þingið og samþykkt hefði verið á þeim vettvangi að slíta viðræðunum formlega, jafnvel þó að aðferðin sem farin var sé fyllilega lögmæt að mati margra helstu lögspekinga. En í ljósi þess að gerð var tilraun til að fara með málið í gegnum þingið í fyrra má vel skilja þá sem ósáttir eru við að önnur leið var farin núna.

Helreiðin sem stjórnin gekk í gegnum þegar hún reyndi að fara með málið í gegnum þingið i fyrra skildi eftir óbragð í munni margra stjórnarliða og hafa þeir viljað forðast endurtekningu á því. Stjórnarandstaðan ætti því að líta svolítið í eigin barm. Hún kom í veg fyrir að greidd voru atkvæði um þingsályktun að slíta viðræðunum.

Hvað varðar aðild að Evrópusambandinu, þá hefur sú skoðun ítrekað komið fram á þessum síðum að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Hins vegar er hægt að skilja þá sem telja krónuna gallaðan gjaldmiðil og vilja horfa til upptöku annarra mynta, evrunnar þar á meðal. Svo virðist aftur á móti að margir þeir sem kjósa evruna eigi það til að horfa framhjá göllum hennar og veikum grunni hennar, sem m.a. birtast í auknu efnahagslegu ójafnvægi innan Evrópusambandsins og skuldavanda ríkja á borð við Grikkland.

Við erum í þeirri stöðu að við getum staldrað við á meðan í ljós kemur hver endanleg örlög evrunnar verða. Við yrðum engu upplýstari um stöðuna að loknum viðræðum um inngöngu í sambandið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim