Hugmyndir manna um fjölmiðla eru margvíslegar. Stundum virðast þær taka mið af óljósum (og oftast óraunhæfum) hugmyndum úr dægurmenningu, hvort heldur eru bandarískar bíómyndir eða innlendar afurðir. Þar er lífseig hugmyndin um blaðamanninn sem hundingja, til í að gera hvað sem er til þess að ná fréttinni.

Vissulega er eitt og annað í starfi blaðamanna, sem gerir þá minna upprifna en meðaljóninn yfir óvæntum atburðum og mannlegum breyskleika. Eins hefur það örugglega áhrif á menn að temja sér efahyggju um alla hluti, leita sífellt svara um stað- reyndir en leiða skoðanir hjá sér. Og það er örugglega rétt athugað að blaðamenn séu til í ganga langt til þess að ná fréttinni. En ekki hvað? Um það snýst starfið.

Á hinn bóginn er sú hugmynd, að blaðamenn geri „hvað sem er“ til þess að ná fréttinni, ljóslega röng. Blaðamenn fylgja margvíslegum vinnureglum, siðareglum og landslögum. Fyrir nú utan þetta mannlega, eins og sanngirni og nærgætni. Blaðamaður getur vissulega unnið sitt starf án þess að eiga það tvennt til í ríkum mæli, en þegar fram í sækir skilar það mun meiru en endalaus harkan sex. (Þó hún eigi auð- vitað oft við!)

***

Þetta er nefnt í tilefni fréttaflutnings af þingi Kennarasambands Íslands í vikunni, en þar voru sem kunnugt er nokkrar væringar vegna formannsins nýkjörna, Ragnars Þórs Péturssonar. Andstæðingar hans töldu ástæðu til þess að hann endurnýjaði umboð sitt á þinginu, en tillaga um það var naumlega felld. Nú má raunar finna að því að fjölmiðlar voru fæstir nógu duglegir við að útskýra bakgrunn þessarar deilu, sem virðist margslungin og um margt skiljanlegt að hart hafi verið tekist á.

Þessar deilur á þinginu vöktu vitaskuld athygli fjölmiðla. Eins og vera ber. Og af þeirri ástæðu sendu þeir ýmsir bæði ljósmyndara og fréttamenn á vettvang. Eins og vera ber. Þarna ræðir um forystudeilur í einu stærsta og mikilvægasta fagsambands landsins, sem varðar þúsundir aðildarfélaga þess með beinum hætti, hefur áhrif á mun fleiri og fréttagildi fyrir enn fleiri.

Ragnari Þór þótti hins vegar meira en nóg um áhuga fjölmiðla og beindi orðum sínum að þeim í ræðu sinni:

Þetta eru búnir að vera ofboðslega skrítnir tímar, þetta er í fyrsta sinn sem papparazzar ráðast á mig þegar ég labba einhversstaðar inn. […] Ég verð samt að skamma fjölmiðla. Menntun er undirstaða alls í samfélaginu og þið komið bara hlaupandi þegar það er drama.

Þessum orðum beindi formaðurinn að ljósmyndurum og kvikmyndatökumönnum við sviðið á þinginu og uppskar gríðarleg fagnaðarlæti þingfulltrúa fyrir. Þetta er nú allt frekar skrýtið. Nú má vel vera að Ragnar Þór hafi upplifað liðna daga sem einhvers konar umsátur, en það er fráleitt að ræða um „árásir papparazza“, þó að ljósmyndarar hafi þyrpst að honum á þinginu. Hið sama gerist á hvers kyns fundum og þingum af þessu tagi og þyki honum sviðsljósið óþægilegt hefði hann e.t.v. ekki átt að gefa sig að því.

Ekki síst er það þó þessi papparazza-einkunn, sem yðar einlægur staldrar við. Papparazzi er alþjóðlegt orð af ítölskum uppruna um slebbaljósmyndara, sem fylgja frægðarfólki eða myndar úr launsátri. Frægðarfólki og slebbunum þykir einatt nóg um atgangshörkuna og frægt er að það kann vel að hafa valdið mestu um dauða Díönu prinsessu af Wales hvernig hún og föruneyti hennar voru hundelt af papparazzi.

Ekkert af þessu á hins vegar við hér. Öll umfjöllun og myndbirting af íslenskum slebbum er mjög á þeirra forsendum og myndatökur í samkvæmislífi sömuleiðis. Það er nánast óþekkt að íslenskir fjölmiðlar flytji fréttir eða taki myndir úr launsátri, líkt og papparazzar ástunda.

Ljósmyndararnir voru aðeins að mynda formann Kennarasambandsins á þingi KÍ, sem er eins formlegur vettvangur og hugsast mátti, öll sviðsetningin beinlínis að forskrift sambandsins ef ekki formannsins sjálfs.

Ekkert varðandi þá myndatöku beindist sérstaklega að persónu Ragnars Þórs, umfram það sem formennskunni fylgir, og að engu leyti að einkalífi hans (þó svo segja mætti að ásakanir á hendur honum hafi verið á þeim nótum). Að því leytinu var þessi papparazza-athugasemd tilefnislaust gjamm.

Tilgangurinn hins vegar augljós, þarna voru handhæg fórnarlömb til þess að benda á sem sameiginlegan óvin og allir þingfulltrúar tóku undir, loks sameinaðir af formanninum umdeilda.

***

Gott og vel, það er ekki í fyrsta og varla síðasta sinn, sem fjölmiðlamenn þurfa að þola slíkt skrum og mælskubrögð. En þarna hékk fleira á spýtunni. Ragnar Þór mislíkaði nefnilega ekki aðeins þessi athygli sem forystuátökin fengu, heldur var hann að finna að því að fjölmiðlar segðu ekki alla daga frá því sem honum þykir merkilegast, svona um menntun almennt sem undirstöðu alls.

Þetta er ekki holl afstaða, allra síst hjá fólki í valdastöðum. Að fjölmiðlar séu alltaf að forvitnast um eitthvað sem þá varðar ekkert um, en segi ekki frá hinu sem valdhöfunum þykir mikilvægara að almenningur heyri.

Þar fyrir utan er þetta grundvallarmisskilningur á eðli fjölmiðla. Þeir eiga ekki að koma hlaupandi þegar ráðherrar eða verkalýðsforystan blístra. Nei, þeir koma til að sjá og segja frá, þegar eitthvað gerist sem ætla má að eigi erindi við almenning eða fólki leiki forvitni á að vita.

Nú er ekki ósennilegt að Ragnar Þór hafi upplifað sig umsetinn á þinginu. Og þá má líka vera með hann eins og aðra, sem tiltekin mál brenna á, að honum finnist aðrir — t.d. fjölmiðlar — ekki alltaf sýna þeim hugðarefnum tilhlýðilegan áhuga.

En það er ekki við þá að sakast um það. Fjölmiðlar bera ekki ábyrgð á menntastefnunni eða kjörum kennara, þeim ber ekki að vera málgögn hagsmunaaðila í þeim efnum og viðleitni þeirra til þess að segja fréttir af vettvangi Kennarasambandsins ber aðeins vott um að þar sé eitthvað fréttnæmt að gerast. Ekki að þar sé einhver óviðurkvæmilegur áhugi á persónu formannsins eða öfugsnúinn áhugi á málefnum sambandsins.

Þar á þinginu var nokkur æsingur, eins og orð formannsins bera með sér, en ekki af hálfu fjölmiðla. Þeir urðu hvorki æsingi né æsifréttamennsku að bráð.