*

föstudagur, 20. október 2017
Týr
14. júlí 2012 09:25

Peningar og stjórnmál

Helstu bankarisar Bandaríkjanna voru meðal 20 stærstu stuðningsaðila Obama. Stærsti stuðningsaðili McCain kæmist ekki á lista 20 stærstu stuðningsaðila Obama.

Eins og venjulega hefur Týr gaman af því að fylgjast með fréttum íslenskra fjölmiðla af bandarískum forsetakosningum, enda þurfa íslensku miðlarnir ekki að fela hlutdrægnina eins mikið þegar fjallað er um erlendar fréttir og þegar um innlendar fréttir er að ræða. Undir það síðasta hefur töluvert verið fjallað um þá gríðarlegu fjármuni sem frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra verja í kosningabaráttuna.

Var þess ekki lengi að bíða að íslenskir fréttamenn færu að apa það upp eftir stuðningsmönnum Baracks Obama að fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki væru mun liðlegri við frambjóðanda Repúblikanaflokksins þegar kemur að fjárstuðningi. Þetta er einföld fréttamennska og byggir á staðalímyndinni um repúblikanann sem hjartalaust verkfæri stórfyrirtækja og banka á meðan demókratinn er vinur litla mannsins. Í fréttum RÚV fyrir nokkrumvikum var haft eftir blaðamanni hinnar hálfopinberu útvarpsstofu NPR að framlög til Obama kæmu aðallega frá einstaklingum en stuðningur við Romney kæmi frá bönkum og auðjöfrum.

Þess vegna ákvað Týr að skoða tölur um fjárframlög frá kosningunum 2008, þegar Obama keppti við John McCain. Obama tókst að afla ríflega tvisvar sinnum meiri fjár en McCain, eða um 745 milljónum dala á móti 368 milljónum. Ekki nóg með það heldur voru bankarisarnir Goldman Sachs, JPMorgan Chase, Citigroup, UBS og Morgan Stanley meðal 20 stærstu stuðningsaðila Obama í kosningunum 2008. Sá stuðningsaðili McCain sem gaf mest (Merrill Lynch með 376.000 dali) kæmist ekki á lista yfir 20 stærstu stuðningsaðila Obama, þar sem sá lélegasti gaf aðeins um 503.000 dali. Stærsti stuðningsaðili Obama, University of California, gaf aftur á móti 1,6 milljónir dala.

Fyrir kosningarnar, sem fara fram í nóvember, hafði Obama lýst því yfir að hann ætlaði að slá öll met og safna einum milljarði dala. Hefur hann í raun lítið gert annað undanfarna mánuði en að hoppa á milli söfnunarsamkoma, en þrátt fyrir allt er orðið nokkuð ljóst að þessu markmiði mun hann aldrei ná. Ástæðan er í raun einföld. Stefna Obama í efnahags- og heilbrigðismálum er gríðarlega óvinsæl, þrátt fyrir að maðurinn sjálfur njótienn töluverðra vinsælda. Það verður æ líklegra að hann muni ekki halda forsetaembættinu eftir kosningarnar í nóvember. Þegar halla fer undan fæti hjá stjórnmálamönnum vestra er peningurinn fljótur að hverfa og það er staðan sem Obama er í núna.

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.