*

föstudagur, 20. október 2017
Týr
21. apríl 2012 08:55

Pólitísk kúvending

Hér má finna ágætan rökstuðning í tíu liðum gegn veiðigjaldi – höfundinn þekkja flestir.

Aðrir ljósmyndarar

Mikið er fjallað um sjávarútvegsmálin þessi dægrin enda tilefni til. Týr fylgist með öllu því sem ritað er, bæði rök með og á móti fyrirliggjandi frumvörpum Steingríms J. Sigfússonar um breytingar á veiðigjaldi og stjórn fiskveiða. Á meðal þess efnis sem Týr hefur lesið er þessi ágæti rökstuðningur í tíu liðum gegn veiðigjaldi:

***

1. Álagning veiðigjalds er einhvers konar brúttóskattur eða veltuskattur. Við höfum verið að hverfa frá því að leggja á veltuskatta.

***

2. Skatturinn er óréttlátur m.t.t. byggðanna í landinu. Þar sem útgerð vegur þungt kæmi þessi nýi skattur harkalega niður.

***

3. Í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar nýta með einhverjum eða öðrum hætti sameignir þjóðarinnar, án þess að því fylgi sérstök skattlagning, er útilokað að leggja þennan skatt á sjávarútveginn eingöngu.

***

4. Margir hafa gleymt því að sjávarútvegurinn er skuldugur. Ástæðan er sú að sjávarútvegurinn hefur þurft að fjárfesta, en á því sviði var hann orðinn mjög sveltur og er nærtækast að líta á aldur flotans í því samhengi.

***

5. Sjávarútvegurinn keppir við ríkisstyrkta grein í nálægum löndum.

***

6. Sjávarútvegurinn hefur mikla þörf fyrir að geta fjárfest á komandi árum. Það þarf að endurnýja flotann sem er orðinn alltof gamall.

***

7. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki með góða afkomu til fjárfestinga eru helsta, nánast eina, von landsbyggðarinnar. Þessi liður einn nægir mér til að vera algjörlega andvígur veiðigjaldi.

***

8. Veiðigjald myndi líklega leiða til samþjöppunar og fækkunar eininga; möguleikar smáfyrirtækja og einyrkja yrðu minni. Fjölbreytni myndi tapast.

***

9. Sjávarútvegurinn yrði síðri fjárfestingarkostur með veiðigjaldi. Það yrðu minni líkur á arði og það sem mestu máli skiptir hér eru fælingaráhrifin.

***

10. Það eru að mínu mati til margar miklu betri leiðir til þess að leysa þau vandamál sem stuðningsmenn veiðigjalds telja að eigi að leysa með veiðigjaldi. Því þá að fara út í þessi ósköp?

***

Þetta eru ágæt rök og eiga vel við í dag. Þau voru samt ekki skrifuð í dag. Þau voru sett á blað árið 1997 og birt, og höfundurinn er Steingrímur J. Sigfússon. 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.