*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
16. nóvember 2013 10:45

Pólitískt andleysi

Tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar ættu að koma í ljós næsta haust.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, þegar hann kynnti fjárlögin.
Haraldur Guðjónsson

Fyrstu viðbrögð við hagræðingartillögum ríkisstjórnarinnar voru vonbrigði yfir ákveðnu pólitísku andleysi. Þrátt fyrir að þarna hafi yfir hundrað tillögur verið soðnar saman sem hafa það að markmiði að auka framleiðni og skilvirkni í ríkisrekstri er enn skortur á hugmyndafræðilegri kjölfestu, sem gæti virkað sem góður leiðarvísir á erfiðri leið. Það vantar ákveðnar stefnuyfirlýsingar, útskýringar og aðferðafræði til að ná settum markmiðum. Ekki ólíkt því sem fólk fær á tilfinninguna þegar forsætisráðherra kynnir stefnu ríkisstjórnarinnar. Það virðist ekki vera sannfæring fyrir öðru en að lækka húsnæðisskuldir landsmanna og útfærslan á því er meira að segja enn óljós og á annarri leið en flestir héldu í upphafi.

En fyrstu viðbrögð þurfa hvorki að vera byggð á réttum né sanngjörnum forsendum. Viðskiptablaðið hefur talað fyrir því að tíminn sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa til að gera grundvallarbreytingar á umfangi stjórnkerfisins, efnahagsumgjörð og hvernig hlutverk ríkisvaldsins er skilgreint sé knappur. Þessi tími hefur verið illa nýttur og virðast sumir ráðherrar forðast að taka erfiðar ákvarðanir. Óvinsælu ákvarðanirnar þarf að taka á fyrri hluta kjörtímabilsins svo hægt sé að hrinda þeim tímanlega í framkvæmd og þær byrji að virka vel fyrir kosningar. Það er ávinningurinn við að fylgja sannfæringu sinni strax eftir.

Þótt margt í tillögum hagræðingarhópsins sé varfærnislega orðað er óþarfi að afskrifa þær strax. Það getur verið klókt að fara ekki fram með of miklum gassagangi í upphafi heldur vinna hlutina markvisst áfram í samráði við þá sem til þekkja. Þó aðeins þannig að þeir sem hagsmuni hafa viti að málinu verður fylgt eftir. Ráðning Ásmundar Einars Daðasonar sem tímabundins aðstoðarmanns forsætisráðherra gefur tilefni til að vera bjartsýnn á að það gangi eftir. Nokkur atriði styðja við þá tilgátu. Það að formaður hagræðingarhópsins hafi tímabundið verið ráðinn aðstoðarmaður forsætisráðherra sýnir að ríkisstjórnin er viljug til að fylgja tillögunum ákveðið eftir.

Ásmundur Einar er þingmaður og hefur því allt aðra stöðu en aðrir aðstoðarmenn og meiri vigt til að ýta málum áfram með umboð forsætisráðherra og kjósenda í hendi. Þá er þingmaðurinn ágætlega fylginn sér hafi hann sannfæringu fyrir hlutunum á annað borð. Það hlýtur að eiga við í þessu verkefni sem hann sjálfur var í forsvari fyrir.

Þessu til viðbótar mega svo þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna ekki hlaupast undan merkjum og reyna að skora einhverjar pólitískar keilur þegar einhver hagsmunahópurinn hefur upp raust sína. Þeir mega ekki einungis bregðast við áreiti heldur verða að kynna sér málin, mynda sér stefnu og tala fyrir henni. Það mun skila árangri til lengri tíma, auka trúverðugleika alþingismanna og hefja umræðuna á hærra plan. Það er of algengt að þingmenn séu ekki með á nótunum og hafi ekki nennt að kynna sér mál sem eru til umræðu.

Nú þegar er byrjað að vinna innan ráðuneyta að tillögum sem lagðar eru fram af hagræðingarhópnum. Fáar munu koma til framkvæmda áður en fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp verður samþykkt, enda er ekki lögð áhersla á beinar niðurskurðartillögur. Það er þá verkefni næsta árs og árangurinn á að koma í ljós næsta haust. Það er enginn tími fyrir pólitískt andleysi.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu 14. nóvember 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Leiðarar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim