Fjölmiðlarýnir nennir eiginlega ekki að fjalla um stjórnmálafréttir, þó af nógu sé að taka. Eitt mál fangaði auga fjölmiðlarýnis, sem vissulega hefur pólitískan vinkil, þó ekki ræði þar um neitt kosningamál. Það er ekki einu sinni nýtt af nálinni, en samt vel þess virði að velta fyrir sér.

Málið snýst um ljósmynd af Austurvelli, en á henni má sjá ljósmyndarann Spessa Hallbjörnsson og Birgittu Jónsdóttur, þingkonu Pírata, frekar skuggaleg við einhver mótmæli og rétta bæði fram löngutöng, ekki ýkja hress að sjá. Áður en lengra er haldið er rétt að nefna að undirritaður hefur unnið á fjölmiðlum með fyrirsætunum báðum.

Ýmsir hafa dreift þessari mynd, aðallega til þess að kasta rýrð á Birgittu sýnist manni, en Jakob Bjarnar skrifaði um það frétt, að ljósmyndarinn GeiriX (Ásgeir Ásgeirsson) hefði brugðist við af fullri hörku gagnvart liðlega 200 manns og sent þeim lögfræðikröfu fyrir brot á höfundarrétti og sæmdarréttarbrot.

Höfundarréttur ver fjárhagslegan rétt þess sem gerir hugverk, en sæmdarrétturinn varnar því að verkið sé afbakað, sett í rangt samhengi o.s.frv. (Sá réttur kemur ekki í veg fyrir sanngjarna birtingu, t.d. í fjölmiðlaumfjöllun um verkið eða ef dregið er dár að því.)

Geiri segir að hér sé ekki um fréttamynd að ræða, heldur uppstillta mynd, sem ekki megi birta í öðru samhengi en hinu upprunalega. Hann hafi beðið Birgittu og Spessa að rétta fram fingurinn og því lúti myndin ekki lögmálum frétta- eða heimildarmyndar.

* * *

Á þessu eru hins vegar ýmsir annmarkar. Birgitta er stjórnmálamaður og þó hún taki þátt í einhverri uppstillingu, þýðir það vart að myndin sé ósnertanleg eftir það. — Ef ljósmyndari biður páfa að rétta út úr sér tunguna og smellir af er það fín mynd. En ef páfi sér eftir öllu saman og ljósmyndarinn er góður kaþólikki, á það að breyta einhverju?

Stjórnmálamenn stilla iðulega upp myndatækifærum, sem stundum fara illa. Frægt er t.d. þegar beikonsamloka batt enda á stjórnmálaferil Ed Miliband. Hefði einhver ansað því ef hann eða ljósmyndarinn hefðu reynt að endurkalla myndina og hótað lögsókn í því skyni?

* * *

Nei, það er eitthvað skrýtið við þetta myndarbann, ekki síður þegar afstaða Pírata til höfundarréttarmála eru tekin með í reikninginn.

* * *

Það má nefna hliðstæður úr öðrum löndum. Í Bretlandi er þannig einstaklega hörð meiðyrðalöggjöf, margvísleg úrræði dómstóla til þess að þagga niður í umræðu og réttarvenjan er þannig að ríkisbubbar hvaðanæva úr heiminum koma til Lundúna á einkaþotum sínum til þess að höfða meiðyrðamálin sín þar.

(Spyrjið þið bara Hannes Hólmstein!)

Þrátt fyrir að löggjafinn þar í landi hafi hugleitt ýmsar leiðir til þess að tryggja tjáningarfrelsið gagnvart meiðyrðamálaiðnaðinum, þá hafa lögspekingar á þessu sviði sífellt verið skrefi á undan og vel það.

Fyrir um tveimur árum var t.d. breski þingmaðurinn Brooks Newmark veiddur í gildru blaðsins Sunday Mirror, en hann sendi því myndir af leyndarlimi sínum yfir netið í þeirri trú að hann væri að táldraga unga áhugakonu um stjórnmál. Newmark hrökklaðist úr þingmennsku og hefur ekki mikið haft sig í frammi síðan.

Hið sama má ekki segja um lögmenn hans, sem hafa sent fjölmiðlum margháttuð hótunarbréf, þar sem þeim er bannað að birta fyrrnefndar myndir á forsendu höfundarréttar, því hann hafi tekið myndirnar.

Newmark er ekki einsdæmi. Þannig muna e.t.v. einhverjir eftir ljósmyndum af David Cameron og félögum hans í Bullingdonklúbbnum á námsárum hans í Oxford, þar sem rík ungmenni stunduðu hóglífi og óknytti. Fjölmiðlar komust yfir þessar myndir, en skömmu síðar var hringt frá ljósmyndastofunni og blátt bann lagt við birtingu myndanna af höfundarréttarástæðum. Flestir ganga út frá því að þar hafi Íhaldsflokkurinn staðið að baki.

Verkamannaflokkurinn notaði sömu aðferð til þess að taka úr umferð myndir af vonarpeningnum Ed Balls í nazistabúningi á fylleríi í Oxford.

* * *

Skiptu þessar myndir einhverju máli? Pólitískt eða persónulega? Út frá prentfrelsinu?

Jú, það skiptir máli ef valdamikið og auðugt fólk getur eftir þörfum komið í veg fyrir að fólk fái að lesa skoðanir eða hræðilegan sannleik á síðum fjölmiðla. Og ekki er það skárra ef það getur líka komið í fyrir að við fáum að sjá sannleikann. Með lagaklækjum og yfirvarpi um höfundarrétt.