*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Huginn og muninn
30. júní 2018 10:39

Ráðherra í klípu

Umhverfisráðherra, sem stýrði áður Landvernd, þarf ekki að spyrja sérfræðinga að því hvort hann sé vanhæfur friðlýsingarmálinu.

Haraldur Guðjónsson

Tillaga Náttúrufræðistofnunar að friðlýsingu stórs svæðis við Drangajökul liggur nú á borði Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Þetta væri svo sem ekkert tiltökumál nema hvað verði þessi tillaga samþykkt á Alþingi þá má ekki reisa Hvalárvirkjun, en sú virkjun á meðal annars að tryggja orkuöryggi á Vestfjörðum.

Það gleymist stundum að það var einmitt Alþingi, sem samþykkti að setja Hvalárvirkjun í nýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013. Það voru ekki mjög hávær mótmæli fyrir utan þingið þegar það var gert. Reyndar engin mótmæli.

Umhverfisráðherra, sem Vinstri græn sóttu út fyrir þingflokkinn, er í klípu í þessu máli. Það var svo sem fyrirsjáanlegt að hann myndi komast í bobba í sínum málaflokki fyrr eða síðar því áður en hann var gerður að ráðherra starfaði hann sem framkvæmdastjóri Landverndar. Eitt meginhlutverk Landverndar er að „standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun“.

Það var merkilegt að hlusta á ráðherra ríkisstjórnarinnar ræða þessa tillögu Náttúrufræðistofnunar í fréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagðist vilja láta rammaáætlun standa. Áður en Hvalárvirkjun hefði verið sett í nýtingarflokk hefði hún farið í gegnum mat. Kannað hafi verið hvaða áhrif virkjunin hefði á náttúruminjar, umhverfi og samfélag. Sagði hún að ef það ætti að bakka með þetta allt núna væri verið að kollsteypa núverandi kerfi.

Landvernd hefur nú skorað á sinn fyrrverandi framkvæmdastjóra að friðlýsa svæðið. Þegar Guðmundur Ingi var spurður að því hvort hann væri vanhæfur í málinu sagðist hann hafa beðið sérfræðinga í ráðuneytinu að skoða þau mál. Hrafnarnir telja að það þurfi ekki að skoða mikið. Guðmundur Ingi talaði gegn Hvalárvirkjun þegar hann var hjá Landvernd og á því ekki að þurfa að spyrja neina sérfræðinga að því hvort hann sé vanhæfur. Hrafnarnir hafa smá áhyggjur af þessu öllu því minni mál en þetta hafa sprengt ríkisstjórnir.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.