*

mánudagur, 22. apríl 2019
Týr
27. júlí 2014 10:29

Reglur í sauðargæru

Í íslenska lagasafninu og reglugerðasafninu er að finna fjölda reglugerða sem hafa lítið annað hlutverk en að þvælast fyrir fólki.

Áhugamál Týs eru mörg og mismunandi og sumum deilir hann ekki með mörgum. Þar á meðal er áhugi hans á reglugerðum og regluverkinu almennt.

***

Við lestur reglugerðasafnsins á dögunum rakst Týr á stórskemmtilega reglugerð frá árinu 1986, sem enn er í gildi, um flokkun og mat á gærum. Þar kemur fram að allar gærur, sem til sölu verða, skuli flokkaðar við móttöku fjár í sláturhúsi. Flokkunin skuli framkvæmd af lögskipuðum gærumatsmönnum og lögð til grundvallar á verði gæranna til einstakra framleiðenda.

***

Í annarri grein er ítarleg útlistun á mismunandi flokkum á gærum, en þeir eru alls tíu fyrir utan sérstakan úrkastsflokk, sem í fara m.a. allar hrútagærur. Úrkast er svo flokkað, eftir sérstöku punktakerfi, í tíu flokka til viðbótar.

***

Ekki fær hver sem er að sinna þessu merkilega starfi, heldur eru þeir skipaðir af lögreglustjóra eftir tillögum yfirgærumatsmanna, sem eru fjórir talsins og eru skipaðir af landbúnaðarráðherra.

***

Þegar haft er í huga að reglugerðin er sett árið 1986 með stoð í lögum sem sett voru árið 1976 er e.t.v. hægt að skilja hvernig svona óskapnaður rataði í regluverkið, en Týr á erfitt með að skilja af hverju í ósköpunum þessu er við haldið.

***

Varla eru viðskipti með sauðagærur svo flókin að sérstaka eftirlitsmenn þurfi til að passa upp á að enginn sé hlunnfarinn? Ekki eru þetta afleiðuviðskipti með sértryggðar gærur eða hvað?

***

Málið er einfaldlega það að í íslenska lagasafninu og reglugerðasafninu er að finna fjölda reglugerða sem hafa lítið annað hlutverk en að þvælast fyrir fólki sem er að reyna að skapa sér, og þar af leiðandi samfélaginu öllu, auð. Undanfarið hefur ítrekað verið bent á þann fjölda leyfa sem ferðaþjónustuaðilar þurfa að afla sér áður en rekstur fyrirtækis getur hafist. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin, með Ragnheiði Elínu Árnadóttur, viðskiptaog iðnaðarráðherra, í broddi fylkingar, beitt sér fyrir einföldun á þessu kerfi, en enn á eftir að sjá afrakstur þeirrar vinnu. Það sama á við um virðisaukaskattkerfið, en það má að skaðlausu einfalda til muna.

***

Þeir sem endalaust kalla á eftir meira og strangara eftirliti mega hafa í huga að eftirlitsiðnaðurinn má ekki kæfa andlagið og á það jafnt við um sláturhús og fjármálafyrirtæki.

***

Það setur hins vegar punktinn yfir i-ið í sauðagærudæminu öllu að svo virðist sem enginn fylgi gömlu reglunum lengur. Það er náttúrlega ákveðin lausn að afgreiða úreltar reglur með þeim hætti, en eins og áður segir væri betra að afnema þær.

Stikkorð: Reglugerðir
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim