*

fimmtudagur, 13. desember 2018
Brynjar Örn Ólafsson
10. desember 2017 09:17

Skuldabréf og samdráttur í útflutningi

Það er ekki ljóst hvort verðtryggt eða óverðtryggt er yfirgnæfandi réttari staða miðað við samdrátt í útflutningi.

Skjáskot

Á bls. 26 í Fjármálastöðugleika, sem Seðlabankinn gaf út í október, gerir áfallssviðsmynd ráð fyrir að gengisvísitala krónunnar muni veikjast um 24,5% og verðbólga fara í 5,2% á einu ári í kjölfar 13% samdráttar í útflutningi. Sömuleiðis lækkar lánshæfiseinkunn Íslands og mun nokkurt fjármagnsútflæði eiga sér stað. Í öðru nýlegu riti Seðlabankans, Peningamálum, sem útgefið var í nóvember er önnur sviðsmynd metin með sama þjóðhagslíkani, QMM. Kemur fram á bls. 12-13 að ef hlutdeild Íslands í heimsvið­skiptum með þjónustu helst óbreytt á næstu árum verður vænt verð­bólga á næsta ári um 16 punktum (pkt.) lægri en í grunnspá eða 2,33% í stað 2,49%. Það gerist þrátt fyrir að nafngengi krónunnar veikist þar sem lægri vöxtur útflutnings dregur úr framleiðsluspennu. Undirritaður telur að með óbreyttri hlutdeild sé átt við um 2% árlegan vöxt. Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands var vöxtur þjónustuútflutnings um 19% árið 2016 og 16% árið áður.

Myndin sýnir áhrif af samdrætti í útflutningi á verðmæti verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa samkvæmt 5 ára skuldabréfavísitölum Kauphallar Íslands. Um er að ræða ársraunvöxt útflutnings hvern ársfjórðung fyrir tímabilið 1998 til 2017 þar sem árstíðasveifla milli samliggjandi fjórðunga getur skekkt samanburð. Aftur á móti er ávöxtun ríkisbréfa tvennskonar; annars vegar milli samliggjandi ársfjórðunga sem samsvarar nýjustu mælingu þjóð­ hagsreikninga hverju sinni og hins vegar ávöxtun mánaðar sem reikningarnir eru birtir. Ástæða síðarnefndrar mælingar er að þjóðhagsreikningar ársfjórðungs eru birtir með nærri tveggja mánaða töf og er vert að kanna viðbrögð í þeim mánuði – til dæmis verður þriðji fjórð­ungur þessa árs birtur á morgun 8. desember. Ávöxtunargildið er mismunur ávöxtunar verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa. Þannig að ef gildið er jákvætt var umfram­ ávöxtun af verðtryggðum ríkisbréfum.

Í 10 af þeim 18 tilfellum sem samdráttur var í útflutningi á þessum 20 árum var ársfjórðungsleg ávöxtun verðtryggðra ríkisbréfa lægri en af óverðtryggðum bréfum. Hlutfallið er 9 á móti 18 ef horft er til ávöxtunar innan útgáfumánaða þjóðhagsreikninga. Í báðum tilfellum er væntigildi umframávöxtunar liðlega núll en úrtakið svo smátt að ekki er hægt að fullyrða um réttari stöðutöku.

Sambandið er ekki einskorðað við útflutning. Gengi krónunnar ræðst af jöfnuði utanríkisviðskipta og þáttatekna. Að miðgildi helst gengisvísitala krónunnar í hverjum þessara fjórðunga nærri óbreytt þrátt fyrir að vöxtur innflutnings hafi verið jákvæður í 16 þeirra. Má til dæmis nefna 10% samdrátt útflutnings á fyrsta ársfjórðungi ársins 1998 sem minnir um margt á sviðsmynd Fjármálastöðugleika. Skýrðist hann mest af samdrætti í útfluttum sjávarafurðum til Asíu. Á sama tíma óx innflutningur um 38% milli ára og gengi krónunnar styrktist um nærri 1% enda fastgengi við lýði.

Höfundur er hagfræðingur.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.