Ódýrasta flugleiðin frá Tel Aviv til Chicago þessa dagana er í gegnum Ísland. Gyðingar flykkjast ekki hingað í jöklaferðir, heldur sækja þeir í þægilegt og hagkvæmt millilandaflug – og geta allt eins ferðast á stuttermabolnum.

Farþegaflutningar með flugi stóðu undir 36% útflutningstekna í ferðaþjónustu í fyrra. Spá um aðeins 2,6% vöxt ferðamanna á þessu ári vakti athygli, en minna fór fyrir umræðu um vænta fjölgun skiptifarþega um 37%. Vænan hluta af útflutningsverðmæti má því vænta vegna ferðamanna sem aldrei stíga út úr Leifsstöð. Eins og fram kom í aðsendri grein hér fyrir tveimur vikum eru örfá lönd í heiminum sem sækja jafnmikið útflutningsverðmæti til flugreksturs og við. Flugrekstur hefur vissulega reynst erfiður sögulega, og hlutafjáreign í flugfélögum á alþjóðavísu ekki reynst fjárfestum vel, en það þýðir ekki að rekstrargrundvöllur Keflavíkurflugvallar sé slæmur. Með auknum ferðamannastraumi á heimsvísu mun eftirspurn eftir flugi halda áfram að aukast, og eru flugvellir á norðurslóðum einkar vel settir til að sinna slíkri eftirspurn. Viðskiptalíkön sem byggja á „net-áhrifum“ (e. network effect) leiða til þess að vöxtur getur af sér áframhaldandi vöxt. Þegar flugleiðir hafa náð krítískum massa á tengiflugvöllum læsir völlurinn inn ákveðna eftirspurn. Ef flugfélag sem sinnir mikilvægri leið á slíkum flugvelli lendir í erfiðleikum er líklegt að annað félag nýti sér net- áhrifin. Rekstraraf koma einstaks félags mun ekki hafa úrslitaáhrif á vel staðsetta flugstöð. Og færa má rök fyrir því að ef einhvers staðar sé svigrúm til að byggja undir aukið útflutningsverðmæti í ferðaþjónustu hérlendis sé það einmitt á Keflavíkurflugvelli.

Í fyrsta lagi ættum við að sækjast eftir tækifærum þar sem fólksfæðin vinnur síður á móti okkur. Af þeim 32 þúsund launþegum sem hafa bæst við vinnumarkaðinn frá 2009 má rekja um helming til ferðaþjónustu. Ljóst er að greinin gegndi mikilvægi hlutverki árin eftir hrun. Nú erum við hins vegar á öðrum stað. Atvinnuleysi hefur verið í lágmarki síðastliðin ár, og við orðin háð erlendu vinnuafli, auk þess sem vilji er fyrir því að auka fjölbreytileika atvinnulífs með því að dreifa störfum á aðrar atvinnugreinar. Um 36% af útflutningsverðmæti ferðaþjónustu mátti rekja til flugreksturs í fyrra, með um 6.500 launþega að baki. Ferðalög, eða hin 64%, virðast mun vinnuaflsfrekari, með um 23 þúsund launþega.

Bent hefur verið á að hér sé nóg pláss til að dreifa ferðamönnum. Ferðaþjónustan er þó, eins og nafnið gefur að skilja, þjónustugrein og krefst vinnuafls. Um 6,5 ferðamenn voru hér á landi á hvern íbúa í fyrra. Örfá lönd í heiminum eru með fleiri ferðamenn á íbúa og eru það allt örríki, eyjar í Karíbahafinu. Á Bresku jómfrúareyjum, Turks og Caicos, Arúba og Cayman-eyjum búa innan við 100 þúsund manns, með 7-14 faldan fjölda ferðamanna á íbúa. Óbeint framlag ferðaþjónustunnar er um 90% á þremur þessara eyja samkvæmt WTTC. Mikinn meirihluta starfa má óbeint rekja til ferðaþjónustunnar á ofangreindum stöðum, sem og útflutningstekjur. Þetta eru ferðamannaeyjur í orðsins fyllstu merkingu. Stóra spurningin er hvort eftirsóknarvert sé að færast frekar í þessa átt.

Í öðru lagi viljum við vaxa þar sem vöxturinn vinnur með okkur. Fjöldaferðamennska hefur áhrif á upplifun ferðamanna. Bæði er erfitt að sinna miklum fjölda vel, en eins sækja ferðamenn gagngert til Íslands í fámennið. Væntingar tengifarþega eru öfugar. Fjölgun flugleiða og farþega um flugvöll eykur gæði þjónustunnar þar sem auðveldara er að finna flugtengingu við hæfi, með sem fæstum skiptingum, á góðu verði og á sem skemmstum tíma. Þessi undirgrein ferðaþjónustunnar er því í andstöðu við innlenda ferðaþjónustu. Hún krefst minna vinnuafls á farþega en ferðamann sem stígur út úr Leifsstöð, og þrífst á margmenni, auk þess sem afleiddu áhrifin eru takmörkuð við flugvallarsvæðið. Vissulega eyða þessir einstaklingar minna hér á landi, en á móti keyra þeir ekki um á íslenskum vegum og sækja ekki í innlenda heilbrigðisþjónustu né gistirými á uppspenntum húsnæðismarkaði.

Kvartað hefur verið yfir skorti á stefnu í ferðaþjónustunni. Ef litið er til þróunar síðustu ára má þó segja að ein stefna hafi verið skýr, og árangur í takt við væntingar. Það er fjölgun flugfarþega. „Masterplan“ spá Isavia frá 2016, heimfærð á daginn í dag, gerir ráð fyrir að á næstu 8 árum fjölgi beinum launþegum í flugi um 4.300, í tæplega 11 þúsund. Miðað við mannfjöldaspá Hagstofunnar, og atvinnuþátttöku, gæti þetta orðið 40% af fjölgun launþega næstu 8 árin (m.v. óbreytt atvinnuleysi). Flugtengd störf ein og sér munu því hafa mikil áhrif á efnahagslífið ef spáin gengur eftir, þó svo að hægi verulega á fjölgun ferðamanna sem inn í landið koma. Tækifærin í ferðaþjónustunni felast í flugvellinum. Og þar erum við, eins og sakir standa, á réttri braut.

Höfundur er aðalhagfræðingur Kviku.