*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Leiðari
13. apríl 2017 09:30

Ríkið á hliðarlínunni

Samþykki fyrir gerð Vaðlaheiðarganga og tæplega níu milljarða króna lánveitingu ríkisins var veitt á þeim forsendum að verkið stæði undir sér.

Skapti Hallgrímsson

Kostnaður við gerð Vaðlaheiðarganga er kominn 44% fram úr upphaflegri áætlun og hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita 4,7 milljarða króna aukalán til að ljúka verkefninu.

Þetta á ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með framkvæmdum við göngin. Þannig hefur mikill straumur af heitu vatni gert gangagröftinn erfiðari en ella. Haustið 2015 lýsti Heiðar Guðjónsson fjárfestir göngunum sem „stærsta gufubaði á Íslandi“.

Frá upphafi var ljóst að rekstraráætlanir ganganna væru hæpnar, svo ekki sé meira sagt. Gengið var út frá því að 90% umferðar um Víkurskarð myndi flytjast yfir í göngin og að hægt yrði að endurfjármagna lánið frá ríkinu á um 3,7% vöxtum.

Á þeim tíma þótti þetta bjartsýnt mjög og vaxtastigið í landinu nú kallar á enn meiri bjartsýni eigi þetta að ganga upp. Ríkisábyrgðarsjóður sagði að réttara væri að miða við lánakjör upp á um 7% vexti, en í skýrslu IFS Greiningar sagði að væri ávöxtunarkrafa á langtímaláninu yfir 5,3% væru 100% líkur á greiðslufalli.

Áætlanirnar voru því aldrei líklegar til að standast. Við fréttirnar núna stukku fram á ritvöllinn nokkrir menn sem eru sérlega áhugasamir um lagningu ganganna og hafa verið alla tíð.

Línan í málsvörn þeirra var á þá leið að aldrei hefði verið reiknuð út arðsemi Reykjanesbrautar, Norðfjarðarganga, Vestfjarðaganga, Héðinsfjarðarganga, Suðurlandsvegar eða Vesturlandsvegar. Þetta væru allt stofnæðar sem fjármagnaðar hefðu verið af ríkinu og væru frjálsar til notkunar án gjaldtöku.

Þarna er hins vegar verið að bera saman tvo aðskilda hluti. Samþykki fyrir gerð Vaðlaheiðarganga og tæplega níu milljarða króna lánveitingu ríkisins var veitt á þeim forsendum að verkið stæði undir sér. Að göngin myndu reka sig sjálf og að kostnaður ríkisins yrði því minni en ella.

Hugsanlega hafa aðstandendur ganganna alla tíð vitað að rekstrarforsendurnar væru hæpnar, en ef markmiðið var aldrei að gera sjálfbær jarðgöng, heldur aðeins að fá fyrirgreiðslu hjá ríkinu fyrir lagningu þeirra, þá skiptir arðsemin þá í raun engu máli.

Takmarkinu var náð þegar fyrsta lánveitingin var samþykkt, enda gerist það ekki að opinberri framkvæmd sé hætt þegar hún er á annað borð hafin.

Það styrkir þessa söguskoðun að eigendur ganganna, sem eru að stærstum hluta Akureyrarbær, KEA og Útgerðarfélag Akureyringa, vildu ekki leggja fram aukið eigið fé til félagsins, heldur vildu fremur að ríkið hlypi undir bagga.

Ef þú ert sannfærður um að fyrirtæki sé ekki rekstrarhæft þá viltu að sjálfsögðu ekki leggja aukið fé í reksturinn. Sérstaklega ekki ef ríkið stendur reiðubúið á hliðarlínunni með fé skattgreiðenda.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim