Ég horfði nýlega á heimildamyndina Sonicsgate, um það hvernig NBA-liðið Seattle Supersonics varð að Oklahoma Thunders. Í sinni einföldustu mynd kom þar að ríkur maður frá Oklahoma, keypti liðið og flutti til heimaborgar sinnar. Áhangendur í Seattle mótmæltu harðlega en allt kom fyrir ekki. Heimildamyndin er gerð að frumkvæði aðdáendanna sem misstu körfuboltaliðið sitt til annarrar borgar.

Seattle Supersonics
Seattle Supersonics
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Núverandi eigandi liðsins hefur aldrei viðurkennt að það hafi staðið til frá upphafi að flytja liðið. Þegar liðið var í Seattle stóðu yfir deilur milli eiganda og borgaryfirvalda um aðkomu þeirra síðarnefndu að fjármögnun á nýjum leikvangi. Höllin sem hýsti liðið þótti langtum verri en aðrar hallir NBA liða. Því áttu borgaryfirvöld að koma að málum og greiða meirihluta kostnaðar. Ekki náðist sátt um málið og var það meginröksemd Oklahoma-auðkýfingsins fyrir flutningunum.

Í mars síðastliðnum birtist grein á síðunni Freakonomics.com, sem er haldið úti af þeim sömu og skrifuðu bókina, um aðkomu borgaryfirvalda í Sacramento að byggingu nýs vallar fyrir Sacramento Kings. Niðurstaðan var öfug á við það sem varð í Seattle. Þar með er ljóst að Kings, sem hefur átt misjöfnu gengi að fagna, verður áfram í Sacramento.

Í íslenskri þýðingu heitir greinin “Hvernig NBA tekur peninga af fólki sem hefur ekki áhuga á körfubolta”. Borgin leggur til 255,5 milljónir dala (rúmlega ein Harpa) af alls 391 milljónar kostnaði. Tveir af níu í borgarráði bentu á að efnahagsleg úthrif slíkra framkvæmda séu lítil. Þessir tveir spurðu einnig hvers vegna borgin á að fjármagna rekstur einkaaðila.

Togast er á um hversu jákvæð áhrifin af byggingu og tilvist nýs vallar eru fyrir Sacramento. Í greininni er vitnað til orða hagfræðingsins Mankiw sem sagði að 85% hagfræðinga séu á einu máli um að opinberir aðilar eigi ekki að leggja fé til atvinnuíþrótta. Aðeins fimm önnur deiluefni njóta slíks sammælis innan hagfræðistéttarinnar.

Þjóðarleikvangurinn í Varsjá
Þjóðarleikvangurinn í Varsjá
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um kostnað Póllands og Úkraínu við byggingu nýrra knattspyrnuvalla vegna EM, og að þeir sem eru í opinberri eigu muni ólíklega standa undir sér að móti loknu. Ótrúlega margir elska körfubolta og NBA, deild hinna bestu. Enn fleiri elska knattspyrnu, vinsælustu íþrótt heims. En eiga hinir, sem ekki hafa áhuga á þessum íþróttum, samt sem áður að borga fyrir þær? Spurningin á ávallt rétt á sér, sérstaklega þegar einkaaðilar velta milljörðum við rekstur íþróttanna.

Þess má geta að borgarstjóri Sacramento er Kevin Johnson, fyrrum stjörnuleikmaður í NBA.

Pistillinn birtist þann 24. maí 2012 á þemasíðunni Sport og peningar í Viðskiptablaðinu.