*

sunnudagur, 27. maí 2018
Óðinn
11. desember 2017 11:04

Ritskoðun í boði Evrópusambandsins

Vandinn sem tæknifyrirtæki standa frammi fyrir er hvort þau eigi að bregðast við hatursáróðri.

Aðsend mynd

Óþarfi er að lýsa í löngu máli fyrir lesendum hversu miklum breytingum miðlun upplýsinga hefur tekið síðustu ár og áratugi eftir tilkomu internetsins og er alls ómögulegt að sjá fyrir hvernig þessi þróun mun halda áfram á komandi árum. Samfélagsmiðlar svokallaðir, einkum Facebook, Twitter og Youtube, hafa í raun gerbreytt lífi milljarða manna. Breytingarnar hafa verið margar til hins betra. Möguleikar fólks til að tjá sig í ræðu og riti hafa margfaldast og það sem áður hefði kallað á töluverða fjárfestingu, t.d. bókaútgáfa eða útsending útvarps- eða sjónvarpsefnis, er nú hægt að gera nær kostnaðarlaust. Aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið meira.

                                *** 

En þessi þróun hefur líka haft sínar skuggahliðar. Því miður hafa glæpa- og hryðjuverkamenn og boðberar haturs og fordóma einnig nýtt sér þessa nýju miðla til að koma sínum boðskap áleiðis. Hryðjuverkasamtökin ISIS eru nýlegt dæmi um hryðjuverkahóp sem nýtir sér internetið og samfélagsmiðla til að draga til sín nýja liðsmenn úr röðum óharðnaðra ungmenna og nær sannað má telja að rússnesk yfirvöld hafi nýtt sér mátt Facebook til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra. Þetta eru aðeins tvö dæmi af ótalmörgum.

                                *** 

Á að banna?

Vandinn sem tæknifyrirtæki á borð við Apple, Google, Microsoft, Facebook og Twitter standa frammi fyrir er hvort þau eigi að bregðast við þessum hatursáróðri og þá með hvaða hætti. Mörgum þykir eflaust augljóst að banna eigi einfaldlega allt hatur á internetinu, en það er hægara sagt en gert og getur búið til alvarlegri vanda en þann sem leysa á. Í grunninn snýst þetta um tjáningarfrelsið og hvaða mörk eigi að setja því frelsi.

                                *** 

Flest stærstu internetfyrirtæki heims og eigendur samfélagsmiðla hafa verið bandarísk. Það hefur þýtt að bandarískur lagaskilningur á tjáningarfrelsinu og mikilvægi þess hefur verið ráðandi hjá þessum fyrirtækjum. Hér ber að taka fram að þessari staðreynd hafa fylgt ókostir – einkum tengdir gegndarlausri löngun bandarískra stjórnvalda og leyniþjónustustofnana til að nýta gögn frá fyrirtækjunum til að fylgjast með fólki. Það er hins vegar umræða sem verður að bíða í bili.

                                *** 

Danielle Keats Citron, lögfræðiprófessor við University of Maryland, bendir í nýlegri grein á vefsíðu Cato-stofnunarinnar á það hver viðbrögð Youtube voru við kröfu stjórnmálamanna um ritskoðun á samfélagsmiðlinum fyrir um áratug síðan.

                                *** 

Bandarískt og evrópskt tjáningarfrelsi 

Joseph Lieberman, sem þá var öldungadeildarþingmaður í bandaríska þinginu, gagnrýndi samfélagsmiðilinn harðlega fyrir að hafa ekki fjarlægt af síðunni þjálfunarmyndbönd hryðjuverkahópa. Youtube mat það sem svo að tjáningarfrelsi notenda samfélagsmiðilsins væri mikilvægari en vinsældir fyrirtækisins meðal stjórnmálamanna í Washington. Einnig gerðu stjórnendur fyrirtækisins sér grein fyrir því að stjórnarskrá Bandaríkjanna væri tjáningarfrelsinu svo sterk vörn að ekki væri hægt að setja lög á fyrirtækið.

                                *** 

Fleiri tæknifyrirtæki voru á sömu línu og almennt má segja að svokallaðir notendaskilmálar (e. Terms of Service, TOS) hafi tekið mið af þessu. Skilmálarnir vernduðu rétt notenda til að tjá óvinsælar skoðanir, en lögðu bann við árásum á einstaklinga.

                                *** 

Á síðustu árum hefur breyting orðið þar á og fyrirtækin hafa ekki verið jafn viljug til að taka upp hanskann fyrir notendur sína og rétt þeirra til tjáningar. Blóraböggulinn er ekki að finna í Washington, heldur í Brussel.

                                *** 

Þrátt fyrir fögur orð í Mannréttindasáttmála Evrópu og hinum ýmsu stjórnarskrám ríkja álfunnar hefur tjáningarfrelsið aldrei notið þeirrar skilyrðislausu verndar í Evrópu og það hefur vestanhafs.

                                *** 

Ætti hér að nægja að vísa til orðalags íslensku stjórnarskrárinnar, sem heimilar það að tjáningarfrelsi séu settar skorður með lögum, „í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heils eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum“. Öllum má vera ljóst að hér eru margar glufur sem nýta má til að skerða tjáningarfrelsið.

                                *** 

Í bandarísku stjórnarskránni er sambærilegt ákvæði hins vegar svohljóðandi í lauslegri þýðingu: „Þingið skal engin lög setja um stofnun trúfélags né til að koma í veg fyrir frjálsa iðkun trúarbragða; né heldur til skerðingar málfrelsi eða prentfrelsi; né réttindum fólks til friðsamlegra mannfunda eða að senda stjórninni bænaskrá um leiðréttingu kvörtunarefna.“ Hér er engar glufur að finna, þótt vissulega hafi framkvæmdin ekki verið fullkomin.

                                *** 

Tilboð sem ekki var hægt að hafna

Rekja má breytinguna á TOS skilmálum tæknifyrirtækjanna til ársins 2015, þegar gerðar voru nokkrar skelfilegar hryðjuverkaárásir í Frakklandi og Belgíu. Embættis- og stjórnmálamenn í Evrópu gagnrýndu tæknifyrirtækin harðlega fyrir að hafa auðveldað hryðjuverkahópum til að breiða út áróður sinn og ná til sín nýjum liðsmönnum. Voru tæknifyrirtækin vöruð við því að ef þau hétu því ekki að fjarlægja samstundis öfgakennda og hatursfulla umræðu af sínum samfélagsmiðlum gætu þau átt von á sektum eða jafnvel refsingum.

                                *** 

Eins og áður segir gátu tæknifyrirtækin ekki verið jafnviss um lagalega stöðu sína í Evrópu og þau höfðu verið í Bandaríkjunum. Í kjölfarið skrifuðu Facebook, Microsoft, Twitter og YouTube undir samkomulag við framkvæmdastjórn ESB um að banna dreifingu á orðræðu sem fæli í sér hvatningu til ofbeldis eða haturs. Fyrirtækin lofuðu því að fjarlægja hatursáróður innan 24 stunda frá birtingu og gáfu ESB vald til að framfylgja samkomulaginu og fylgjast með framganginum.

                                *** 

Í desember 2016 gagnrýndi framkvæmdastjórnin fyrirtækin harðlega fyrir slælega framgöngu í baráttunni við hatursorðræðu og fyrirtækin lýstu því yfir að þau ætluðu að taka upp sérstakan gagnabanka um efni sem banna ætti á miðlum þeirra. Í stuttu máli gengur verkefnið út á að merkja mynd og útvarpsefni sem þykir brjóta gegn nýju TOS-skilmálunum og gefa öðrum fyrirtækjum aðgang að þessum gagnabanka svo þau geti líka fjarlægt þetta efni.

                                *** 

Framkvæmdastjórnin fagnaði þessu skrefi og sagði það næsta rökrétta skrefið í þessari samvinnu opinberra aðila og einkafyrirtækja.

                                *** 

En hvaða samvinnu er þarna verið að ræða um? Fyrirtækin taka þessar ákvarðanir eingöngu vegna þess að yfir þeim vomir hótunin um lagasetningu, sektir og refsingar. Þetta er ekki samvinna, heldur kúgun. Eins og Citron bendir á þá sjá stjórnmálamenn aldrei neinn endapunkt í þessu ferli. Í hvert sinn sem tæknifyrirtækin gefa eftir og minnka tjáningarfrelsi notenda sinna þá kemur önnur krafa um enn frekari skerðingu.

                                *** 

Þetta er ekki evrópskt vandamál. TOS skilmálar fyrirtækjanna sem um ræðir ná út fyrir öll landamæri. Breytingarnar á skilmálum YouTube ná jafnt yfir notendur miðilsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Þær ná einnig yfir íslenska notendur.

                                *** 

Ákveðið í Evrópu

Mörk tjáningarfrelsis okkar Íslendinga á samfélagsmiðlum eru nú ákveðin af evrópskum embættis- og stjórnmálamönnum þegar þeir snúa upp á hendurnar á bandarískum fyrirtækjum.

                                *** 

Maður þarf að vera einstaklega bláeygur og saklaus til að sjá ekki fyrir sér að stjórnmálamenn muni vilja teygja hugtök eins og „hatursorðræða“, „áróður“ og „falskar fréttir“ til að ná utan um tjáningu sem þeim þykir óþægileg. Spænsk stjórnvöld vildu eflaust geta sett blátt bann við málflutningi aðskilnaðarsinna í Katalóníu, svo dæmi sé tekið.

                                *** 

Þá hefur krafan um að efni sé fjarlægt innan 24 klukkustunda óhjákvæmilega gert það að verkum að starfsfólk tæknifyrirtækjanna getur ekki kynnt sér málin almennilega áður en ákvörðun er tekin um að fjarlægja efnið. Raunveruleikinn er því sá að oftast nægir að kvarta undan efni á samfélagsmiðlunum nógu oft til að fá það fjarlægt. Þetta vita margir og hafa nýtt sér til að fjarlægja efni sem alls ekki telst hatursfullt, heldur er einfaldlega óþægilegt. Óðinn minnist þess að í síðustu kosningabaráttu var fólk hvatt til að „reporta“ Facebook-síðuna Kosningar 2017 til að þagga niður í henni.

                                *** 

Óðinn vill ekki taka upp hanskann fyrir hryðjuverkamenn, kynþáttahatara eða aðrar rottur í mannslíki, en rökin sem notuð eru til að fjarlægja þeirra málflutning má auðveldlega nota til að fjarlægja málflutning annarra – sérstaklega þegar fordæmin hafa verið sköpuð.

                                *** 

 

Það er í raun sorglega lítið sem við Íslendingar getum gert í þessum málum, annað en að líta í eigin barm og reyna að hemja sig næst þegar eitthvað pirrar okkur á netinu. Fyrstu viðbrögðin eiga ekki að vera þau að banna það sem veldur pirringnum, heldur taka umræðuna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.