*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Týr
18. september 2017 13:45

Röð og regla

Lögum um útlendinga var breytt til þess að gæta þess að þeir gangi örugglega fyrir, sem mest þurfa á að halda og hafa til þess rétt, í stað þess að geðþóttinn ráði.

Haraldur Guðjónsson

Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um tvær erlendar telpur og fjölskyldur þeirra, sem vilja búa á Íslandi. Fjallað hefur verið um margháttaða þrautagöngu þeirra í lífinu og bágindi, sem enn muni aukast við það að vera send frá Íslandi. Týr skal fyrir sína parta ekki efast um að þeim myndi líða vel á Íslandi og hann dregur ekki heldur í efa að frekari hrakningar myndu ekki gera þeim gott.

                      ***

Það er hins vegar erfitt að taka mark á málflutningi, sem byggir á því að það sé á einhvern hátt hættulegt fyrir fólk í þessari stöðu að vera sent til Þýskalands. Það er ekki eins og þar bíði þeirra fangabúðir eða verra. Þvert á móti er Þýskaland forysturíki Evrópusambandsins, með djúpstæða virðingu fyrir mannréttindum, eitt auðugasta ríki heims og um leið eitt hið örlátasta. Menn mega deila um skynsemi þess þegar Angela Merkel Þýskalandskanslari opnaði landið fyrir flóttamönnum, en um hjartalagið verður ekki deilt. Eða aðbúnað flóttamanna þar í landi.

                      ***

Hitt blasir við að hróp um að dómsmálaráðherra eða ríkisstjórnin öll stýrist af mannhatri eða skeytingarleysi í garð bágstaddra eru ekki aðeins ólíkleg til þess að bæta hlut fólksins, heldur ósæmileg. Auðvitað gengur þeim gott eitt til, en stjórnvöld verða að fara að lögum. Lögum um útlendinga var breytt fyrir ekki löngu, gagngert til þess að taka valdið í þessum málum úr höndum ráðherra og tryggja faglega og óumdeilda afgreiðslu mála af þessu tagi. Til þess að á þeim væri röð og regla.

                      ***

Það var ekki aðeins gert til þess að fullnægja metnaði möppudýra, heldur til þess að gæta þess að þeir gangi örugglega fyrir, sem mest þurfa á að halda og hafa til þess rétt, samkvæmt mannréttindasáttmálum og alþjóðasamþykktum um hælisleitendur.

                      ***

Undanfarna daga hefur fjölmargt fólk, vafalaust góðhjartað að upplagi, hins vegar krafist þess að ráðherrann grípi inn í, að geðþóttinn ráði. Það er ekki gott í lýðræðis- og réttarríki. En enn frekar verða menn að minnast þess að í hvert sinn sem einhver er tekinn fram fyrir röðina, þá er annar sem þarf að bíða lengur. Varla er það það sem menn vilja?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.