Samkeppniseftirlitið úrskurðaði á dögunum að Samkaup, sem rekur fimmtíu verslanir um land allt, mætti ekki festa kaup á einni verslun Iceland í Keflavík. Ástæðan var að eftirlitið taldi að kaupin hefðu „raskað verulega samkeppni“ á Suðurnesjum.

Þessi úrskurður felur í sér ákveðna sýn á kauphegðun Suðurnesjamanna: Það er að segja að þeir versli eingöngu á Suðurnesjum og að þar ríki svo viðkvæmt jafnvægi á samkeppnismarkaði með dagvöru að viðskipti með eina verslun geti hæglega bundið Suðurnesjamenn í klafa fákeppni eða jafnvel einokunarverslunar. Ég er hræddur um að Samkeppniseftirlitið sé á villigötum í þessu máli. Svo háttar að tvær af stærstu verslunarkeðjum landsins – Bónus og Krónan – reka verslanir í Keflavík í harðri samkeppni við Samkaup og aðra. Það er því fjarskalega ósennilegt að kaup Samkaupa á þessari einu Iceland -verslun í Keflavík hafi fært félaginu öll völd til verðlagningar á dagvöru suður með sjó.

Samkeppniseftirlitið tekur heldur ekki tillit til þeirrar staðreyndar að þrátt fyrir alþekkta staðfestu eru Suðurnesjamenn ótrúlega hreyfanlegir þegar svo ber undir og fordæmi munu vera fyrir því að þeir versli jafnvel annars staðar en í heimabyggð. Það er reyndar frekar algengt. Ég er fæddur og uppalinn í Keflavík en bý í Hafnarfirði. Þegar ég vil hitta aðra Keflvíkinga um helgar þá fer ég í Fjarðarkaup. Og við förum ekki aðeins á milli sókna í leit að öðru vöruúrvali og betra verði.

Allir Keflavíkingar fara í verslunarferðir til annaðhvort Boston eða Orlando á hverju hausti. Í raun og veru er afar ólíklegt að reka nefið inn á veitingastaðakeðjuna Cheesecake Factory á vesturströnd Bandaríkjanna án þess að hitta þar Keflvíking. Og á leiðinni heim fara Keflvíkingar gegnum ríkisrekna verslun sem keppir við ofangreindar verslanir. Ætlar Samkeppniseftirlitið ekkert að gera í því?