Strax eftir að útlendingarnir sem ég hitti komast að því að ég er frá Íslandi spyrja þeir: „Hvernig er ástandið á Íslandi. Er allt farið fjandans til?“

Svarið mitt er einfalt. Ísland hefur það fínt en á þó við ímyndar-, en þó fyrst og fremst, hugarfarsvanda að etja. Hagkerfið er í grundvallaratriðum í miklu betri stöðu en flest önnur til að spyrna við fótum og ná flugi að nýju. Vandamál Íslands er ekki hagkerfið heldur hugarfar Íslendinganna sjálfra.

Í muna huga kristallast mynd útlendinga af hinu íslenska efnahagshruni í umfjöllun um landið í upphafi Óskarsverðlaunamyndarinnar „Inside Job“. Eitt af dramatískustu atriðunum í upphafi er umfjöllun um þreföldun atvinnuleysis á Íslandi mánuðina sex eftir hrun. Það sem ekki kemur fram er að upphafspunkturinn er ríflega 1% atvinnuleysi - sem í mínum kokkabókum þýðir í raun ekkert atvinnuleysi. Höfundur myndarinnar hefði í raun alveg getað sagt að atvinnuleysi hafi áttfaldast, það hefði líklega vakið grunsemdir um að grunnpunkturinn hafi verið afskaplega lágur og frekar vakið spurningar en hryllingshughrifin sem leitast var eftir.

Ísland á sér langa sögu af slæmri markaðssetningu og röngu hugarfari. Við höfum frá upphafi vega málað hlutina dekkri litum en ástæða er til. Nafnið á landinu gefur meira að segja til kynna að Ísland sé mesta veðravíti í víðri veröld og að sama skapi gefur umfjöllun um efnahagskrísu Íslendinga til kynna að landið sé ein rjúkandi rúst. Við megum hvorki gleyma því að landið er fagurt og frítt né að hagsældarhorfur eru með eindæmum.

Þó að útlendingar „muni“ að hér hafi allir bankar farið í þrot, eldar verið kveiktir á götum úti og atvinnuleysi hafi þrefaldast á skömmum tíma megum við ekki gleyma því að Ísland er fyrst og fremsti í krísu eigin hugarfars.

Ísland hefur allar forsendur til að byggja upp og ná vopnum sínum á meðan fjölmörg önnur lönd eiga enn eftir að takast á við miklu stærri vandamál en við þurfum nokkurn tímann að glíma við. Við erum ekki að glíma við hátt atvinnuleysi, aldurssamsetning er í fínu lagi, atvinnuþátttaka kvenna er með hæsta móti, menntunarstig er hátt, auðlindir eru nánast óþrjótandi, stríðshrjáð erum við ekki og almennt eru forsendur til langtíma hagvaxtar góðar.

Ísland er pínulítið, vel menntað og sveigjanlegt hagkerfi, vel í stakk búið til að takast á við áskoranir næsta áratugar. Við þurfum einfaldlega vilja til að takast á við áskoranirnar, breyta, bæta og byggja upp.

Stjórnmálamenn þurfa að einbeita sér að lausnum á stóru málunum og komast úr höftum hugarfars heiftar og eftiráspeki. Þeir þurfa að átta sig á að núverandi peningamálastefna er örugg leið til ánauðar og henni þarf að breyta. Þeir vita vel að þessu er hægt að breyta og þar skal forgangurinn vera. Fyrirtækin þurfa svo að vera í forgrunni annarra lausna, því án forsendna til arðsams rekstrar mun hagur þegnanna ekki vænkast. Ekki má gleyma því að það er gott ef fyrirtækin og fjárfestarnir græða því annars byggir enginn upp eða endurfjárfestir. Einfalda þarf umhverfið til eflingar nýsköpunar, hagvaxtar og uppbyggingar. Auðvitað veitir ýmsu í stjórnkerfinu ekki af yfirhalningu en í grundvallaratriðum blasir björt framtíð við þeirri ríku og vel menntuðu þjóð sem landið byggir – ef á kjarna vandans er tekið.

Allt ofantalið er mikilvægt en mikilvægast af öllu er að breyta hugarfarinu, hafa trú á framtíðinni og standa saman. Það getur vel verið að sumir Íslendingar hafi verið öðrum heimskari á bóluárunum en það verður bara að hafa það. Við breytum því ekki úr þessu. Það sem við getum hins vegar gert er að gera betur í framtíðinni og læra af mistökunum. Ef eina sem við gerum er að níða skóinn af náunganum þá gerist ekki neitt – að minnsta kosti ekki neitt gott. Ástandið hefur vissulega verið betra og það er hundfúlt að upplifa sig sem fórnarlamb hruns án þess að hafa nokkuð til sakar unnið, en ef Íslendingar hætta ekki þessu væli þá mun ástandið ekki batna. Það er löngu orðið tímabært að horfa fram á við af fullum krafti. Það er erfitt að keyra áfram ef bara er horft í baksýnisspegilinn alveg sama hversu stór eða skýr hann er.

Ísland þarf að takast á við vandamálin sem til staðar eru og vinna úr þeim. Við græðum ekkert á því að berjast í hlekkjum hugarfars sem gengur út á að róta öllu upp en rækta ekkert.