Margir ókyrrast þegar hugað er að sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það er út af fyrir sig eðlilegt þegar ekki er lengra liðið frá alþjóðlegri bankakreppu og hruni íslensku bankanna. Bankakreppa ræðst ekki af eignarhaldi á fjármálafyrirtækjunum. Því þurfum við að velta upp kostum og göllum þess að ríkið eigi bankana alfarið.

Kostir og gallar
Almennt er svo í frjálsum lýðræðisríkjum að ríkið hefur ekki yfirráð yfir fjármálamarkaði eða öðrum samkeppnisrekstri. Slíkt er til þess fallið að raska samkeppni og skapar aðstæður sem leiða til stöðnunar. Þegar ríkissjóður yfirtók Íslandsbanka með framsali Glitnis á eignarhaldinu var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að 65-70% af innlánastarfsemi í landinu yrði undir yfirráðum ríkisins auk þess sem Íslandsbanki og Landsbanki hefðu saman mjög sterka stöðu á fleiri undirmörkuðum í fjármálaþjónustu. Sameiginleg yfirráð af þessu tagi séu að öllu jöfnu til þess fallin að raska samkeppni með alvarlegum hætti. Í hinu sameiginlega eignarhaldi felist þannig hætta á því að starfsemi bankanna verði samræmd, beint og óbeint, með skaðlegum hætti fyrir viðskiptavini og samfélagið. Þótt Samkeppniseftirlitið leggi ekki sérstaka áherslu á að ríkið selji allan hlut sinn í bönkunum telur það mikilvægt að eignarhald sé ekki einsleitt. Slíkt hamli jákvæðri þróun, s.s. krafta sem stuðla að hagræðingu, nýjunga og annarra þátta sem leiða til virkrar samkeppni.

Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið kemur fram að ríkissjóður er með yfir 300 milljarða bundna í eignarhlutum í bankakerfinu. Til viðbótar er ríkið með umtalsverða áhættu í opinberum sjóðum. Áhætta ríkisins á svo umfangsmiklu eignarhaldi í bönkunum er því veruleg. Vægi þessara eigna í efnahag ríkissjóðs vegur þungt og eignarhlutir ríkissjóðs í bankakerfinu eru margfalt á við það sem þekkist meðal annarra vestrænna ríkja. Stefna ríkisins samkvæmt hvítbókinni er að eignarhald þess í bönkunum jafngildi um 3% af vergri landframleiðslu sem næmi 34% eignarhlut í Landsbankanum.

Segja má einnig að ríkissjóður beri ákveðinn fórnarkostnað af svona umfangsmiklum eignarhlut í bönkunum. Hægt væri að nýta þessa fjármuni með skynsamlegri hætti, hvort sem er til lækkunar skulda eða innviðauppbyggingar á sviði samgöngumála. Að margra mati er það skynsamlegri meðferð fjármuna skattgreiðenda en að binda þá í áhætturekstri.

Sumir benda á að almennt sé ríkið talið traustur eigandi og ætla megi að ríkið sé í sterkari stöðu til að styðja við banka í sinni eigu þegar kreppir að. Á móti kemur að það getur haft áhrif á lánshæfismat ríkisins til hins verra að vera ráðandi eigandi banka ef þeir lenda í vandræðum. Einnig má ætla að tjón skattgreiðenda verði enn meiri, komi til hliðstæðrar alþjóðlegrar bankakreppu aftur, ef eignarhald ríkisins verður áfram með sama hætti.

Gömlu ríkisbankarnir
Fyrir síðustu aldamót átti ríkið flesta stærstu bankana. Þeir bankar voru veikburða og gátu illa mætt þörfum atvinnulífsins. Íslenskt samfélag var í fullkominni efnahagslegri stöðnun frá lokum viðreisnaráranna 1970 og alveg fram á miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Vegna eignarhalds ríkisins var þrýstingur á hvers kyns óhagkvæmar og óskynsamar ákvarðanir. Margir virðast hafa gleymt því að Útvegsbankinn og gamli Landsbankinn þurftu mikinn stuðning úr ríkissjóði með tilheyrandi tjóni. Jafnframt voru opinberir sjóðir misnotaðir til þess að styðja við einstaka fyrirtæki þannig að þau gætu staðið í skilum við lánveitingar ríkisbankanna. Kerfið bauð upp á ógagnsæi og spillingu. Enginn gömlu ríkisbankanna hefði þolað bankakreppuna 2008 og ábyrgð skattgreiðenda á þeim var miklu meiri en á einkareknum bönkum.

Heilbrigt eignarhald til framtíðar
Almenningur ber lítið traust til bankakerfisins. Eðlilega ber á tortryggni þegar talað er um sölu á eignarhluta ríkisins innan við 10 árum eftir bankahrunið. Heilbrigt eignarhald er hins vegar forsenda þess að hér verði traust bankakerfi til lengri tíma. Lykilatriði í heilbrigðu eignarhaldi er að það sé ekki einsleitt. Fjölbreytt eignarhald dreifir áhættu og æskilegt er að eigandahópur bankanna sé mismunandi þannig að þeir séu ekki útsettir fyrir sömu áhættuþáttum. Svo þarf eignarhald að vera gagnsætt og eigendur kerfislega mikilvægra banka hafi burði til að standa á bak við bankann á erfiðum tímum. Eigendur þurfa einnig að hafa langtíma hagsmuni að leiðarljósi og njóta trausts sem byggir á reynslu þeirra, þekkingu og heiðarleika í viðskiptum.

Fyrirsjáanlegar breytingar á fjármálaþjónustu
Ekkert er að vanbúnaði að hefja sölu nú á eignarhlut ríkisins ef marka má yfirlýsingar stjórnenda þeirra. Með því að selja bankana nú eru líkur á því að ríkisjóður hagnist verulega á því að hafa tekið yfir bankana í kjölfar hrunsins. Í nánustu framtíð stefnir í talsverðar breytingar í fjármálaþjónustu. Með bankanna í eigu andlitslauss ríkisvalds eru ekki miklar líkur á nauðsynlegu hagræði, drifkrafti og nýsköpun. Að vera með 16% af eignum ríkisins í slíkum áhætturekstri er ekki forsvaranlegt.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 2. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.