Þegar við kaupum íbúð hér á landi, af hverju þurfum við að borga helmingi meira eða aukalega 1-2 íbúðir vegna hærri vaxta, en fólk í löndunum í kringum okkur og húsaleiga er einnig mjög há vegna hárra vaxta. Af hverju er þetta einskonar ólæknandi efnahagslegur sjúkdómur sem engum tekst að leysa? Þessum spurningum hefur verið varpað fram án þess að nokkur svör fegnust, sem er tilefni þessarar greinar.

Samkeppnishæfar grunnstoðir – fjármálaþjónusta

Alþjóðlegir bankar, s.s. EBRD (systurstofnun Alþjóðabankans) þar sem ég hef starfað, sem vinna að uppbyggingu hagkerfa í mörgum löndum, leggja mikla áherslu á uppbyggingu alþjóðlegra samkeppnishæfra grunn-atvinnugreina eins og fjármálamarkaða þar sem fjarmagnskostnaður hefur keðjuverkun á allt hagkerfið. Hvað fjármálamarkaðinn varðar hér á landi er staðan í raun sú að aldrei hefur tekist í sögu þjóðarinnar að byggja upp alþjóðlega samkeppnishæfan fjármálamarkað og þá komum við að spurningunum hér í upphafi.

Hver er vandinn?

Áður en hægt er að taka á vandanum/sjúkdómnum, verður í fyrsta lagi að greina hann, gera sýnilegan og ræða rétta meðferð. Ein af ástæðum fjármálahrunsins var að tölur um skuldavafninga voru ekki sýnilegar í efnahagsreikningum alþjóðlegra banka, voru „off the books“ og umræðan sömuleiðis. Þess vegna m.a. varð hrunið miklu verra en ella, þar sem staðan var verri en almennt var álitið. Sumir segja að svipað ástand hafi ríkt og ríki enn um mikinn vaxtakostnað og kostnað peningastefnunnar á Íslandi. Hann er ekki sýnilegur, ekki ræddur og falinn undir teppinu, sem um leið veldur miklum óþarfa kostnaði og áhættu sem fer vaxandi. Fólk skynjar hinsvegar þennan vanda í miklum vaxtagreiðslum um hver mánaðamót og háu verðlagi og þess vegna m.a. er ungt fólk að flytja erlendis þar sem vextir eru lægri, engin verðtrygging og kaupmáttur meiri.

Til að meta kostnað hárra vaxta og gera hann sýnilegan, má gera það m.a. út frá mun á raunvöxtum útlána hér á landi og erlendis, en þeir eru 4%-6% hærri hér skv. mati Alþjóðabankans. Ef einungis er miðað við 3% raunvaxtamun og skuldir viðkomandi hópa, þýðir þetta árlega aukakostnað lántaka heimilanna upp á 57 milljarða (ma.) kr., atvinnulífsins 75 ma. kr. ríkisins 40 ma. kr. og sveitarfélaga (A hluta) 8 ma. kr. eða samtals 180 ma. kr. sem er 2,3 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu á hverju ári, sem er þó ekki allur kostnaðurinn. Til samanburðarkostar rekstur Landspítalans árlega um 50 milljarða, nýbygging Landspítalans um 70 ma. kr. framlög til samgöngumála í fjárlögum 2016 eru um 28 ma. kr. og ekki eru til peningar fyrir brýnum verkefnum.

Hver er lausnin?

Í læknisfræði byggist árangur á réttri greiningu sjúkdómsins og síðan er beitt viðeigandi meðferð. Sama á við um orsakir hárra vaxta. Ástæður þessa miklu vaxtakostnaðar og gjaldmiðlaáhættu á Íslandi (gjaldeyrishöft) má m.a. rekja rekja til efnahagslegs óstöðugleika, peningastefnunnar, smæðar banka á Íslandi og smæðar gjaldmiðilsins. Einungis með réttum aðgerðum sem virka á ÖLL þessi vandamál, má búast við varanlegri lækningu. Það er því athyglisvert að í kosningaumræðunni er afar lítið fjallað um þennan mikla vanda. Tillaga Viðreisnar um myntráð er þó afar athyglisverð og líkleg til að skila mun meiri árangri í lækkun vaxta en núverandi peningastefna, á meðan við höfum krónuna sem gjaldmiðil.

Höfundur er fyrrverandi aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá EBRD.