Enn eitt árið er liðið í aldanna skaut. Því miður hefur það einkennst að mörgu leyti af pólitískri óvissu, þrjár mismunandi ríkisstjórnir stýrðu landinu með ólíkum áherslum og sýn. Mikilvæg samstarfsverkefni stjórnvalda og ferðaþjónustunnar liðu fyrir stöðuna, mörgum verkefnum miðaði hægt og önnur komust ekki á dagskrá.

Eitt mál var þó fyrirferðarmeira en önnur og mjög umdeilt enda illa ígrundað og hefði haft veruleg neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar, hefði það náð í gegn. Hér er ekki verið að tala um samstarfsverkefni, heldur einhliða áform stjórnvalda, þess tíma, um hækkun VSK á ferðaþjónustuna um 118% og þannig að færa greinina úr lægra þrepi VSK-kerfisins í það efra sem er reyndar án fordæma í samkeppnislöndum okkar sem búa við svipað kerfi. Í því samhengi er rétt að minna á að ferðaþjónustan er útflutningsatvinnugrein, salan fer fram erlendis, þar sem hún er í samkeppni við aðra áfangastaði þó svo að afhending þjónustunnar fari fram á Íslandi. Það er því sérstakt fagnaðarefni að ný ríkisstjórn hefur þegar horfið frá áformum þeirrar fyrri um ætlaða hækkun. Horft til baka er sorglegt að þurfa að hugsa til alls þess tíma og orku sem fór, á liðnu ári, í að vinda ofan af ætluðum VSK hækkunum á sama tíma og önnur mikilvæg og uppbyggileg mál sátu á hakanum. Þrátt fyrir að ekki hafi orðið af þessum skattahækkunum olli umræðan ein og sér fyrirtækjum búsifjum.

Leggja þarf aukna áherslu á að tryggja stöðu ferðaþjónustunnar til framtíðar. Ef umræðan á aðeins að snúast um frekari gjaldheimtu af greininni af öllum stærðum og gerðum, hingað og þangað, út og suður, eins og síðustu ár, í stað uppbyggingar er voðinn vís. Gleymum því ekki að það eru verðmæti útflutningsatvinnugreinanna, og samkeppnishæfni þeirra, sem gera það að verkum að hægt er að efla aðra inniviði hér á landi eins og heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Í því samhengi er rétt að nefna að áætlað er að um 50% af hagvexti síðustu ára megi rekja beint og óbeint til ferðaþjónustunnar og að greinin hafi skilað um 54 milljörðum, nettó, beint í sjóði ríkis og sveitarfélaga á árinu 2016. Það þarf því að hlúa að mjólkurkúnni.

Blikur eru á lofti og bregðast þarf við. Staða fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur almennt veikst síðustu misseri. Það er nefnilega ekki línulegt samband milli fjölgunar ferðamanna og afkomu greinarinnar eins og margir kynnu að ætla. Fyrirtækin hafa fjárfest mikið í innviðum eða fyrir um 108 milljarða árið 2016 og 80 milljarða árið 2015, miklar launahækkanir hafa tekið í og styrking ISK og þar af leiðandi breytt neyslumynstur ferðamannsins hefur haft áhrif á rekstur fyrirtækjanna til verri vegar. Stöðugt rekstrarumhverfi, skilvirkt regluverk, uppbygging og skýr sýn eru lykilforsendur jákvæðrar þróunar.

Það er rétt að fjölgun ferðamanna, ein og sér, hefur verið mikil og hröð. Slíkum vexti fylgja vaxtaverkir og reynir á samfélagið. Ég vil meina að greinin sjálf og þjóðin öll hafi almennt tekist á við þennan hraða vöxt og breytt samfélagsmynstur með eindæmum vel. Við eigum og getum verið stolt af því hvernig til hefur tekist, ferðamenn sem hingað koma eru almennt ánægðir með dvöl sína, þ.e. við stöndumst væntingar þeirra og þeir hafa skilað okkur efnahagsbata svo um munar. Til að svo megi verða til framtíðar verður að tryggja sjálfbærni greinarinnar. Hér er ég að tala um sjálfbærni náttúru en ekki síður félagslega sjálfbærni og efnahagslega. Áherslan þarf og á að vera á þessa þætti. Hér þurfa allir að taka höndum saman, stjórnvöld, greinin sjálf sem og almenningur í landinu.

Menn eru í auknum mæli að átta sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt samfélag um allt land, sérkennum og áskorunum sem og nauðsyn virks samstarfs og samtals við greinina við úrlausn mála. Í lok síðasta árs tók ný ríkisstjórn til starfa. Ég óska henni velfarnaðar og vonast til þess að eiga við hana gott samstarf um hagsmunamál greinarinnar næstu fjögur árin. Ég hef miklar væntingar og stjórnarsáttmálinn lítur vel út. Ég vil trúa því að orðum hans fylgi efndir, enda liggur fyrir að hefja þarf stórsókn þegar kemur að uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar sem og að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi hennar og sjálfbærni til framtíðar. Þannig er samkeppnishæfni greinarinnar best tryggð sem skilar sér í aukinni hagsæld okkar allra til langrar framtíðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar .

Skoðunargreinin birtist í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .