*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Leiðari
15. mars 2015 12:15

Samkeppnisstaðan skekkt

Alls munu ívilnanir ríkisins til Matorku nema 721 milljón króna, eða um 59% af heildarfjárfestingarkostnaði.

Haraldur Guðjónsson

Lög um ívilnanir til nýfjárfestinga voru sett árið 2010 sem eins konar rammi utan um það hvernig hægt væri að gera fjárfestingu á Íslandi meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Lögin runnu út í árslok 2013 og síðan þá hefur þurft að setja sérstök lög utan um hvern einasta ívilnunarsamning sem gerður hefur verið.

Þeir eru fimm talsins, ef tekinn er með samningur vegna fiskeldis Matorku við Grindavík, en hann hefur ekki verið samþykktur af Alþingi. Samningarnir fela í sér alls kyns afslætti af opinberum gjöldum, t.a.m. er kveðið á um lægri tekjuskatt fyrir Matorku auk þess sem fyrirtækið fær 50% afslátt af tryggingagjaldi og afslátt af fasteignaskatti.

Í samningnum kemur fram að þessi ríkisaðstoð sé metin á 426 milljónir króna, sem er um 35% af fjárfestingarkostnaði verkefnisins. Ofan á þetta bætist svo að í samningnum er gert ráð fyrir því að ríkissjóður veiti fyrirtækinu þjálfunaraðstoð sem nemur tveimur milljónum evra, eða 295 milljónum króna. Alls mun styrkur til Matorku nema 721 milljón króna, eða um 59% af heildarfjárfestingarkostnaði. Þetta eru háar fjárhæðir og láir engum eigendum Matorku að ganga að samningnum. Hins vegar verður ekki hjá því komist að spyrja hvort þarna sé vel farið með opinbert fé. Ekki er hægt að segja að Íslendingar séu nýgræðingar þegar kemur að fiskeldi og þarna er eitt fyrirtæki í geiranum að fá aðstoð langt umfram það sem keppinautar þeirra geta vonast eftir.

Hér á þessum síðum hefur gerð slíkra samninga áður verið gagnrýnd, enda geta þeir skekkt samkeppnisstöðu í landinu og eru stundum ónauðsynlegir, þ.e. verið er að veita ívilnanir vegna verkefna sem hvort eð er hefðu orðið að veruleika. Dæmi um slíkt erlendis frá eru ótalmörg. Eðlilegast er að haga skattaumhverfinu og regluverkinu þannig að ekki þurfi ívilnunarsamninga til að laða að hingað fjármagn. Óþarfi er að gera samninga sem fela í sér svo miklar ívilnanir af hálfu hins opinbera.

Þá er líka áhugavert að skoða nánar þá fimm ívilnunarsamninga sem gerðir hafa verið eftir að lögin runnu út árið 2013. Þeir voru við Algalíf, vegna örþörungaverksmiðju í Reykjanesbæ, United Silicon vegna kísilmálmverksmiðju í Reykjanesbæ, Thorsil, sem sömuleiðis hyggst reisa kísilmálmverksmiðju í Reykjanesbæ og Silicor Materials á Grundartanga. Eins og áður segir verður fiskeldi Matorku í Grindavík.

Af þessum fimm samningum eru því fjórir þeirra á sama landsvæði, Reykjanesi, sem er einnig kjördæmi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem sér um gerð samninganna. Enginn efast um að Reykjanes þarf nauðsynlega á því að halda að atvinnulíf þar komist aftur af stað, enda hefur ástandið þar lengi verið erfitt. Eins eru aðstæður þar um margt heppilegar fyrir starfsemi sem þá sem gerðir hafa verið ívilnunarsamningar um.

Ómögulegt er hins vegar annað en að staldra við þá staðreynd að allir ívilnunarsamningar sem ríkið gerir um nýfjárfestingar eru gerðir vegna verkefna í heimakjördæmi ráðherra. Það lítur ekki vel út fyrir ráðherrann eða ríkisstjórnina.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim