Þorkell Sigurlaugsson, talsmaður dr. Ásgeirs Jónssonar, fer mikinn í níðgrein um Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og reynir líka að kasta rýrð á mig persónulega, sem ég hirði ekki um að svara.

Í síðustu greinum mínum hef ég einvörðungu reynt að fá svör við tveimur einföldum spurningum um málefni SH, sem höfð eru beint eftir nefndum Ásgeiri. Hann hefur hvorugri spurningunni svarað, en Þorkell, málpípa hans, hefur í löngu máli og mörgum greinum reynt að drepa málinu á dreif.

Loks í síðustu grein sinni fer hann með hrein ósannindi.

Þorkell segir orðrétt: „Varðandi hitt atriðið, þ.e. seinni spurningu Jóns, þá sagði Ásgeir aldrei að SH hafi ekki átt rekstrarerindi eftir árið 1990. Það er í besta falli misskilningur hjá Jóni."

Í viðtalinu við Ásgeir í Viðskiptablaðinu 18. mars sl. er haft eftir honum orðrétt og innan gæsalappa: „Þetta fyrirtæki hafði ekki rekstrarerindi á Íslandi eftir að utanríkisverslun varð frjáls eftir árið 1990."

Það væri skynsamlegt af Ásgeiri að biðjast afsökunar á sögufölsun sagnaritara síns og láta hann hætta störfum.

Höfundur er fyrrverandi stjórnarformaður SH.