*

laugardagur, 25. maí 2019
Óðinn
16. nóvember 2018 15:01

Seðlabankinn, Svörtuloft og svartir sauðir

Kostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans á árabilinu 2010 til 2016 nam að lágmarki 1.400 milljónum.

Haraldur Guðjónsson

Hæstiréttur Íslands staðfesti á dögunum dóm í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands. Vægt er til orða tekið að segja Seðlabankinn hafi gjörtapað málinu, bæði á lægra og hærra dómstigi.

                                                             ***

Viðbrögð Seðlabankans við dómnum, sem komu fram í yfirlýsingu á vef hans, eru óskiljanleg og óverjandi. Þar segir Seðlabankinn að jafnræðissjónarmið hafi ráðið ferð þegar ákveðið var að sekta Samherja, eftir að saksóknari hafði hafnað málatilbúnaði bankans. Ekki er hægt að skilja Seðlabankann á annan hátt en að þrátt fyrir að ekki hafi verið grundvöllur fyrir sektum þá hafi bankinn samt sem áður sektað vegna þess að hann hafði gert það í öðrum sambærilegum málum. Hefði ekki heldur átt að endurskoða þær sektir, sem lagðar höfðu verið á aðra, og gæta þannig jafnræðis? Vont er þeirra ranglæti og svo framvegis.

                                                             ***

Sorgarsaga gjaldeyriseftirlitsins

Saga gjaldeyriseftirlits Seðlabankans eftir árið 2008 er samfelld sorgarsaga. Þar var yfirmaðurinn fyrrverandi lögfræðingur Straums. Vegna þeirra upplýsinga sem hún, yfirmaðurinn, hafði úr fyrra starfi, ákvað Seðlabankastjórinn að saksækja fyrrverandi samstarfsmenn yfirmannsins. Þeir höfðu þó hagað sér að fullu í samræmi við ráðleggingar yfirmannsins.

                                                             ***

Þetta mál nefndist Aserta-málið. Þar voru fjórir menn ákærðir fyrir stórfelld brot á gjaldeyrislögum að undangengnum fordæmalausum blaðamannafundi, þar sem fulltrúar ákæruvaldsins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans fullyrtu að þar færu skelfilegir glæpamenn. Þeir voru allir sýknaðir. Má segja að með þessu máli hafi lögfræðingurinn og yfirmaður gjaldeyriseftirlitins opinberast sem svartir sauðir í huga margra. Fyrir ekki ýkja löngu kom upp annað mál þar sem plastbarkar, læknadeild Háskólans, Landsspítalinn og Sahlgrenska sjúkrahúsið í Svíþjóð komu við sögu, að ógleymdum áhættulækninum Macchiarini. Eftir það gáfu gárungarnir bróður yfirmanns gjaldeyriseftirlitsins viðurnefnið Plastbarka-Tómas, eins og ósanngjarnt og það nú er. Þeir sögðu einnig að þar með væru svörtu sauðirnir í fjölskyldunni orðnir tveir.

                                                             ***

Kostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans á árabilinu 2010 til 2016 nam að lágmarki 1.400 milljónum, samkvæmt svari forsætisráðherra við fyrirspurn á Alþingi sem var gerð árið 2017. Þar er þó aðeins um að ræða launakostnað, þ.e. laun og launatengd gjöld vegna starfsmanna við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. „Ekki er reiknað með kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu, enda ekki sundurgreint í kostnaðarbókhaldi bankans fyrir öll þessi ár með þeim hætti að hægt sé með góðu móti að telja með,“ eins og segir í svari ráðherrans. Raunkostnaður var því mun hærri, en svarið vekur enn frekari spurningar um getu Seðlabankans til þess að færa og lesa gott bókhald.

                                                             ***

Þarf Seðlabankastjóri að vera lögfræðingur?

En hverju hafa nú þessi fjárútlát skilað íslenskum almenningi? Seðlabankinn samdi sjálfur reglurnar um höftin og framfylgdi þeim sömuleiðis. Reyndar tókst honum ekki betur upp en svo, að í fyrstu tilraun gleymdist að fá samþykki ráðherra fyrir reglunum og reyndust þær því ekki gildar réttarheimildir. Látum það mál þó liggja milli hluta, þótt það segi meira en margt um lögfræðihæfileikana í Svörtuloftum. Það er kannski af slíkum ástæðum sem margir af helstu Seðlabankastjórum heims eru lögfræðingar, þvert á söguskýringar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

                                                             ***

Samherjamálið í hnotskurn

En snúum okkur aftur að Samherjamálinu. Seðlabankinn rak málið í samstarfi við Ríkisútvarpið. Fulltrúar ríkisstofnananna ruddust inn í skrifstofur Samherja í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins í mars 2012 og framkvæmdu þar húsleit. Málið var fyrst sagt snúast um vísvitandi ranga verðlagningu í viðskiptum með fisk innan Samherjasamsteypunnar og sagði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri mjög drjúgur með sig, að meint brot fyrirtækisins og stjórnenda þess á gjaldeyrislögum hlypu á tugum milljarða króna.

                                                             ***

Fréttatilkynning á ensku

Seðlabankanum fannst sér þó ekki nægja að vera í samstarfi við Ríkisútvarpið heldur sendi út fréttatilkynningu á ensku. Hvers vegna í ósköpunum? Til þess að auka frægð sína á alþjóðavettvangi meðal áhugamanna um fisksölu í Norðurhöfum? Eða aðeins til þess að stórskaða hagsmuni stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins, sem reyndar hefur helminginn af tekjum sínum frá erlendri starfssemi sinni? Og það á einhverjum myrkustu dögum íslensks efnahagslífs, þegar öll íslensk fyrirtæki og stofnanir reru lífróður til þess að reisa orðspor sitt á ný eftir áfall bankahrunsins? Minna má á að vegna ámóta meingerðar gegn íslenskum útflutningsfyrirtækjum á óvissutímum hefur verið gefin út ákæra um landráð. Auðvitað dettur engum að bera Seðlabankastjóra slíkt á brýn nú, en honum og öðrum er hollt að gera sér grein fyrir því að þetta var ábyrgðarhlutur og hann á að bera ábyrgð.

                                                             ***

Fljótt kom í ljós að málaflutningur

Seðlabankans fyrir héraðsdómi við öflun heimilda til húsleitar og haldlagningar gagna var afar veikur, eins og sjá má í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. maí 2012, sem staðfestur var af Hæstarétti. Þar gerðu dómarar m.a. alvarlegar athugasemdir við útreikninga Seðlabankans á fiskverði, en það er vissulega áhyggjuefni ef reikningskunnáttu Seðlabankamanna er áfátt.

                                                             ***

Seðlabankinn var gerður afturreka með kærur til sérstaks saksóknara, ekki einu sinni heldur tvisvar, en í stað þess að láta segjast og hætta þessari vanhugsuðu aðför, töldu stjórnendur Seðlabankans meira máli skipta að halda andlitinu með einhverjum hætti. Það var gert nú í sumar þegar stjórnendum Samherja var gefinn kostur á að ljúka málinu með sátt og greiðslu 8,5 milljóna króna í sekt. Því hafnaði Samherji og var þá sektin ákvörðuð 15 milljónir króna. Hvers vegna hækkaði sektin eftir að sáttarboði var hafnað? Hvað segir það um réttláta málsmeðferð stjórnvaldsins eða málefnalega umfjöllun stjórnenda hans?

                                                             ***

Stjórnsýsla í molum Seðlabankinn ber það sem fyrr segir fyrir sig að hafa haldið áfram með Samherjamálið upp í Hæstarétt vegna jafnræðissjónarmiða. Stjórnsýsla bankans í málum, sem varða framkvæmd og eftirlit með gjaldeyrislögunum, hefur að vonum sætt mikilli gagnrýni, en þar þarf miklu meira til. Borgararnir hafa enga möguleika á að kanna hvort bankinn fari að lögum eða að jafnræðis sé gætt við stjórnsýsluákvarðanir hans. Bankinn birtir ekki ákvarðanir sínar, líkt og til dæmis yfirskattanefnd, sem hreinsar úrskurði sína af persónum og leikendum, en úrskurðir hennar liggja þá fyrir, öðrum til leiðbeiningar og athugunar. Ekki er hægt að styðjast við niðurstöður dóma nema að litlu leyti, enda lögin nýleg og fordæmin fá.

                                                             ***

Nú hefur Óðinn minnst hér að framan á tvö mál sem klúðrust í meðförum Seðlabankans og er þá mildilega tekið til orða. Þá er rétt að minnast á hið þriðja.

                                                             ***

Ásökunum aldrei var svarað

Heiðar Guðjónsson fór fyrir hópi fjárfesta, sem áttu hæsta tilboðið í hlutabréf tryggingarfélagsins Sjóvá, en það var í eigu Eignarsafns Seðlabanka Íslands hf. Heiðar lýsti samskiptum sínum við yfirmenn Seðlabankans í aðsendri grein í Morgunblaðinu sumarið 2014.

                                                             ***

„Þegar frá öllu hafði verið gengið og aðeins átti eftir að undirrita fyrirliggjandi samninga hófst furðuleg atburðarás. Seðlabankastjóri upplýsti í síma og tölvupósti að ekki væri unnt að ganga frá viðskiptunum á meðan fyrirtæki mitt væri í hópi kaupenda þar sem það væri til rannsóknar hjá gjaldeyriseftirliti bankans, en bankastjórinn er einmitt æðsti yfirmaður eftirlitsins. Á fundi í kjölfarið með Seðlabankastjóra, sem var stjórnarformaður ESÍ, og aðallögfræðingi bankans, sem sat líka í stjórn ESÍ, var ítrekað að ekki væri unnt að ganga frá viðskiptunum á meðan staða málsins væri þessi. Lögfræðingar mínir fullyrtu á fundinum að tilfærsla á íslenskum krónum á milli reikninga á Íslandi gæti ómögulega talist brot á gjaldeyrislögum og að aðgerðir bankans væru ólögmætar. Seðlabankanum varð hins vegar ekki haggað og úti var um kaup hópsins á Sjóvá með fyrirtæki mitt innanborðs, enda var ég með um fjórðungshlut í kaupunum og átti að stýra uppbyggingu fyrirtækisins. Seðlabankinn kærði fyrirtæki mitt til lögreglu, en kæra bankans var síðar felld niður, fyrst af sérstökum saksóknara og síðar af ríkissaksóknara eftir að Seðlabankinn hafði kært ákvörðun sérstaks saksóknara. Ljóst er af þeirri meðferð mála að rannsóknir bankans voru án réttmæts tilefnis og andstæðar stjórnarskrárvörðum rétti mínum.“ Í þessari lýsingu fólust alvarlegar ásakanir sem Seðlabankinn svaraði aldrei.

                                                             ***

Óstjórnin og valdníðslan í Seðlabankanum, einhverri voldugustu stofnun lýðveldisins, eru óþolandi. Bankinn verður að gæta góðrar stjórnsýslu og fara að lögum, en núverandi stjórnendur hans eru hægt og bítandi að gera út af við trúverðugleika bankans.

                                                             ***

Þeim mun meiri voru vonbrigði Óðins með viðbrögð forsætisráðherra og fjármálaráðherra í kjölfar dóms Hæstaréttar í Samherjamálinu. Ætlar þetta ágæta fólk ekkert að aðhafast þegar ein æðsta stofnun ríkisins beitir borgarana hvað eftir annað órétti og ofríki, líkt og Seðlabankinn hefur gert í fleiri en einu máli, og fleiri en tveimur?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim