Forsvarsmenn fimm einkarekinna ljósvakamiðla, Símans, 365 miðla, Hringbrautar, ÍNN og Útvarps Sögu, skrifuðu í vikunni grein í Fréttablaðið þar sem þeir hvetja ráðherra og Alþingi til að gera lagabreytingar til að styrkja samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla. Týr getur tekið undir sumt af því sem í greininni kemur fram. Það að ríkisstyrktur fjölmiðill sjúgi til sín bróðurpartinn af auglýsingatekjum er gríðarlega ósanngjarnt og grefur undanrekstrargrundvelli einkareknu miðlanna.

***

Eins er hægt að hafa samúð með íslenskum fjölmiðlum sem standa höllum fæti í keppni við erlendar efnisveitur sem ekki greiða skatt hér á landi.

***

Þá er sjálfsagt að taka undir með greinarhöfundum um að sömu reglur eigi að gilda um innlendar og erlendar efnisveitur, hvað varðar framleiðslu á myndefni og dreifingu og meðferð á slíku efni.

***

Samúðin þverr hins vegar þegar kemur að því sem snýr að hlutverki ríkisins – og ríkissjóðs – í breyttu ímynduðu landslagi greinar höfunda. Til að mæta tekjutapi RÚV vegna auglýsingamissisins leggja þeir einfaldlega til að útvarpsgjald verði hækkað sem því nemur. Þarna fer ekki mikið fyrir samkennd með almenna skattborgaranum. Hvers vegna í ósköpunum á venjuleg manneskja, sem nú þegar greiðir meira en hún vill til RÚV, að greiða enn þá meira til þess eins að Stöð 2 geti fengið hærri auglýsingatekjur? Af hverju ekki að gera þá eðlilegu kröfu að RÚV sníði sér stakk eftir vexti og að hlutverk þess verði einfaldlega að lagað að minnkandi tekjum?

***

Eins er ekki hægt að taka undir þá hugmynd að fjölmiðlar losni hreinlega við að greiða virðisaukaskatt. Vissulega myndi það henta Tý sjálfum ágætlega, en hann er á þeirri skoðun að undantekningum og sérreglum í skattkerfinu eigi að halda í algeru lágmarki. Sérstakur stuðningur við eina atvinnugrein ,hvort sem það er landbúnaður eða fjölmiðlun, er ekki heppilegur til lengri tíma er litið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .