*

föstudagur, 19. apríl 2019
Óðinn
24. janúar 2017 10:26

Síbylja Oxfam

Óðinn sér margt gagnrýnisvert við nýlega skýrslu Oxfam, bæði varðandi aðferðafræði og þær ályktanir sem dregnar eru af gögnunum.

european pressphoto agency

Það er ekki hægt að halda því fram að bresku góðgerðasamtökin Oxfam séu ófyrirsjáanleg í baráttuaðferðum sínum. Á sama tíma og ríkasta fólk heims kemur saman í Davos í Sviss til að barma sér yfir vandamálum heimsins á með- an kampavín, gæsalifrarkæfa og kavíar renna ljúflega ofan í hálsa þeirra, birtir Oxfam sömu skýrsluna um misskiptingu auðs í heiminum ár eftir ár. Þetta er fjórða skýrslan, uppfærð að vísu, af þessari tegund sem samtökin taka saman og líkt og í fyrri skiptin hefur hún vakið mikla athygli og farið víða. Ekki er að undra, því fyrir önnum kafna blaðamenn er skýrslan gulls ígildi. Hún er full af fyrirsögnum og sjokkerandi fullyrðingum sem gefið er að veki athygli lesenda.

***

Fyrirsagnarpunkturinn þetta árið, sem íslenskir sem erlendir fjölmiðlar tóku og birtu athugasemdalaust, var sú að aðeins átta einstaklingar (allt karlmenn) ættu nú jafnmikið og fátækari helmingur jarðarbúa. Ríkasta 1% jarðarbúa á meira en hin 99% samanlagt. Fleiri punktar voru kynntir: Laun forstjóra eins af 100 stærstu skráðu fyrirtækjunum í Bretlandi eru hærri en laun 10.000 verksmiðjustarfsmanna í Bangladess og í Víetnam eru dagstekjur ríkasta einstaklingsins hærri en tekjur fátækasta Víetnamans á tíu ára tímabili.

***

Endurtekning á móti endurtekningu

Þetta eru harkalegar fullyrð- ingar og eru notaðar, bæði í skýrslu Oxfam og þeirra sem skrifað hafa um hana, til að réttlæta ýmiss konar inngrip hins opinbera til að minnka þessa misskiptingu, enda er fullyrt að hún hljóti alltaf og í öllum tilvikum að vera slæm.

***

Sem betur fer eru ekki allir sem láta glepjast af fyrirsagnarfullyrðingum Oxfam, enda er í skýrslunni að finna margt gagnrýnisvert, bæði varðandi aðferðafræði sem og þær ályktanir sem dregnar eru af gögnunum. Óðinn hefur áður fjallað um skýrslur Oxfam, en hann lítur svo á að fyrst góðgerðasamtökin sjá ekkert athugavert við það að birta í raun sömu skýrsluna ár eftir ár og láta eins og í henni sé að finna fréttir hljóti Óðinn sjálfur að geta gert slíkt hið sama.

***

Fyrst ber að nefna hið augljósa, sem af undarlegum ástæðum er samt nánast syndsamlegt að minnast á. Oxfam hefur sjálft gríðarlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. „Vald er að safnast á hendur örfárra Vesturlandabúa. Jafnið leikinn með því að gefa Oxfam peninga!“ Það er engin tilviljun að skýrslan er alltaf gefin út á sama tíma og ráðstefnan í Davos stendur yfir. Með því móti er mjög auðvelt að fá vinsamlega fjölmiðla til að búa til forsíðufréttir úr gömlu efni og þjóna hagsmunum Oxfam.

***

En jafnvel þótt horft sé framhjá augljósum hagsmunum samtakanna er margt við aðferðafræði skýrslunnar að athuga. Tölfræðigaldurinn er tiltölulega einfaldur, en áhrifaríkur. Í skýrslu Oxfam er aðeins horft á hreina eign – nettóeign – en ekki verga eignastöðu. Það þýðir að ekki er að finna neinn Kínverja í fátækasta tíundarhluta heimsbyggðarinnar, en fjöldi Bandaríkjamanna er þar hins vegar. Það er vegna þess að fjöldi Bandaríkjamanna, ungt fólk og námsmenn til dæmis, hafa tekið lán en hafa ekki náð að mynda eignir á móti. Möguleikinn til að skuldsetja sig er ekki merki um sára fátækt, heldur þvert á móti merki um að efnahagslegar horfur viðkomandi eru jákvæðar. Annars myndi engin lánastofnun veita viðkomandi lán. Kínverskur kotbóndi er ekki með sömu skuldabyrðina og námsmaður í Kalíforníu, en aðeins í hugum starfsmanna Oxfam er sá fyrrnefndi betur staddur en sá síðarnefndi.

***

Í fyrra benti Óðinn á að fjárglæframaður með neikvæða hreina eignastöðu upp á tugmilljarða króna er, samkvæmt skilgreiningu Oxfam, mun fátækari en íbúi þriðjaheimsríkis sem þarf að draga fram lífið á innan við tveimur dölum á dag. Glæframaðurinn gengur samt eflaust um í jakkafötum, keyrir um á fínum bíl og á að minnsta kosti eina fasteign.

***

Þá er eðlilegt að benda á að þeir átta einstaklingar, sem Oxfam gerir svo mikið úr í skýrslunni, hafa allir skapað sinn auð sjálfir með því að bjóða almenningi vöru og eða þjónustu sem gerir líf fólks betra. Einstaklingarnir umræddu eru þeir Bill Gates, Amancio Ortega, Warren Buffett, Carlos Slim Helu, Jeff Bezos, Mark Zuckerberg, Larry Ellison og Michael Bloomberg. Enginn þeirra hefur efnast á því að taka með valdi fé af öðrum, allir hafa þeir gefið gríðarlegar fjárhæðir til góð- gerðamála og sumir hafa lýst því yfir að meginpartur auðs þeirra muni renna til góðgerðamála að þeim látnum. Hvernig er hægt að halda því fram að velgengni þeirra hafi verið öðrum til ills?

***

Góðar fréttir eða slæmar?

Í inngangi skýrslunnar er bent – án efa réttilega – á að auður hinna efnamestu hefur aukist meira og hraðar á síðustu 25 árum en auður hinna fátækari. En ályktunin sem dregin er af þessu gæti ekki verið rangari. „En í stað þess að leka niður eru tekjur og auður að sogast upp með skelfilegum hraða.“ Þarna er beinlínis fullyrt að auðsöfnun hinna efnamestu sé á kostnað annarra og að eftir því sem hinir ríku verða ríkari þá skerðist hlutur hinna efnaminni.

***

Það er því kaldhæðnislegt að lesa aðeins nokkrum málsgreinum ofar að hundruðum milljóna hafi verið lyft upp úr fátækt á síðustu áratugum, afrek sem heimurinn eigi að vera stoltur af. Aðeins önnur fullyrðingin getur staðist og vonar Óðinn að það komi lesendum ekki á óvart að það er sú síðari sem á meira skylt við raunveruleikann.

***

Aldrei nokkurn tímann í veraldarsögunni hefur fátæku fólki í heiminum fækkað jafnhratt og einmitt nú og er það frjálsum viðskiptum og markaðshagkerfinu að þakka. Jöfnuður í heiminum öllum er sífellt að aukast. Ben Southwood, yfirmaður greiningardeildar Adam Smith Intitute, bendir á að hlutfall þeirra sem þurfa að lifa á tveimur Bandaríkjadölum eða minna á dag féll úr 69,6% árið 1981 í 43% árið 2008 og er enn lægra í dag. Svo notaður sé annar mælikvarði þá voru 44% jarðarbúa með minna en 1,9 dali í tekjur á dag, en árið 2015 var þetta hlutfall komið í 10%. Þetta er stórkostlegur árangur.

***

Hann bendir einnig á það hversu fáránlegt það er af Oxfam að taka Víetnam sem dæmi um vandamál tekjujöfnuðar. Meðaltekjur á mann í Víetnam voru um 100 dalir árið 1986, en voru um 2.000 dalir á mann í fyrra.

***

Lausn Oxfam, eins og við er að búast, er að hækka skatta á efnafólk og tekjuháa. En hverju myndi það raunverulega skila í baráttunni við fátækt? Sean O’Grady bendir á það í grein í breska blaðinu Independent að ef allur auður þeirra allra ríkustu yrði gerð- ur upptækur og honum dreift á alla jarðarbúa fengi hver manneskja aðeins nokkur þúsund krónur í sinn hlut og það yrði eingreiðsla. Óðinn vill ekki gera lítið úr því að nokkur þúsund krónur er há fjárhæð fyrir þá allra fátækustu, en það er ekki fjárhæð sem endist lengi. O’Grady bendir einnig á það að þegar jaðarskattar á hæstu tekjurnar voru hvað hæstir í Bretlandi á árunum 1974-1979 jókst ójöfnuður í stað þess að dragast saman, þvert á það sem Oxfam vill ná fram.

***

Allt mælt í dollurum

Þá er áhugavert að skoða áhrif gengissveiflna á auðsöfnun í mismunandi löndum. Í fyrra gerði Oxfam mikið úr því að auður fátækari helmings jarðarbúa hefði minnkað verulega árið 2015. Þetta leit vissulega illa út, en myndin varð skýrari þegar þróunin er skoðuð í samhengi við þróun á gengi Bandaríkjadals. Þær tölur sem Oxfam notar byggja nefnilega á markaðsgengi viðkomandi gjaldmiðla, fært yfir í Bandaríkjadali, en ekki hefur verið leiðrétt fyrir kaupmætti. Það þýðir að þar sem gjaldmiðlar hafa fallið mest í verði miðað við Bandaríkjadal mælist minnkun auðs mest. Fyrir árið 2015 þýddi það að auður heimila í Rússlandi og Úkraínu minnkaði um 40% frá árinu 2014, en það skýrðist nær alfarið af algeru hruni viðkomandi gjaldmiðla gagnvart dalnum.

***

Í ár er nákvæmlega sömu sögu að segja. Auður á hvern fullorðinn Japana jókst um 19,4% á milli áranna 2015 og 2016, en á sama tíma styrktist japanska jenið um 19,3%. Af þeim fimm löndum þar sem auður á hvern einstakling jókst mest í fyrra voru fjögur þar sem viðkomandi mynt styrktist mest gagnvart dalnum. Dæmið virkar í báðar áttir og er nóg að nefna það að auður á mann í Argentínu dróst saman um 28,2% samkvæmt gögnunum sem Oxfam byggir á, en þarlend mynt veiktist um 39,2% gagnvart dalnum á sama tímabili.

***

Nóg komið af svartagalli


Markmiðið með skýrslu Oxfam er að draga upp eins svarta mynd af efnahagsástandi heimsins og mögulegt er. Það getur ekki verið annað en einbeittur brotavilji sem liggur að baki því að algerlega er horft framhjá þeirri mjög svo jákvæðu staðreynd að fátækt í heiminum hefur snarminnkað síðustu áratugi og almenn velmegun hefur aukist. Þetta er frjálsum viðskiptum að þakka. Það má vel vera að ákveðinn hópur einstaklinga hafi efnast meira en gerist og gengur, en það breytir því ekki að hagur mikils meirihluta jarðarbúa hefur breyst til hins betra. Þessu ber að fagna og reyna að gera betur í stað þess að reyna að rífa niður eina hagstjórnarkerfið sem raunverulegum árangri hefur skilað í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 19 . janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: skýrsla Oxfam gagnrýni Misskipting
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim