*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Huginn og muninn
2. september 2017 11:09

Sigmundur Davíð í borgina?

Hvíslað er um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kunni að vera kallaður til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Margir haga rýnt í skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær, enda má lesa úr henni margvísleg örlög á hinu pólitíska sviði í borginni. Þar geta prósentutölur þó e.t.v. vafist fyrir mönnum, því fyrirhugað er að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23.

Miðað við það þarf ekki nema 4,3% atkvæða til þess að ná inn manni og í rauninni minna en það, því ævinlega falla einhver atkvæði dauð. Það kann því að reynast fullkomlega ótímabært að kasta rekunum yfir Framsóknarflokkinn í Reykjavík, þó að hann hafi aðeins fengið 3,6% í þessari könnun. Hann gæti vel lukkast til þess að ná inn manni á því fylgi.

Nú er það raunar svo að hvíslað er um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kunni að vera kallaður til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík, en það gæti bæði lægt deilur innan Reykjavíkurdeildar flokksins og á landsvísu. Gárungarnir segja að mikilmenni eins og Sigmundur Davíð fari létt með að ná 12% fylgi og þremur sætum í borgarstjórn.

Vandinn sé sá að hann muni sjálfur sitja í þeim öllum. Án alls gríns mun klofningurinn í Framsókn þó örugglega flækja málið, en Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir eru báðir harðir stuðningsmenn hans. Áhugamenn um stjórnmál og samtímasögu hlakka til þess að þær stöllur eyði haustinu í óvægin innanflokksátök, en setjist svo saman á lista með SDG eftir jól.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.