*

fimmtudagur, 22. nóvember 2018
Huginn og muninn
3. desember 2017 11:17

Sigmundur Davíð mættur í vinnuna

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar verða sennilega engir því formaður Miðflokksins er kominn í gírinn.

Haraldur Guðjónsson

Ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum. Framsóknarflokkurinn er búinn að vera í algjörri lykilstöðu eftir kosningar, eins og oft áður í íslenskri stjórnmálasögu. Hann skilgreinir sig auðvitað sem brúna á milli vinstri og hægri. Flokkinn sem sættir sjónarmið og þessi stefna hefur reynst honum ákaflega vel síðustu áratugi. Að þessu sögðu þá er engin tilviljun að Sigmundur Davíð hafi nefnt sinn flokk Miðflokkinn, það er nákvæmlega til þess að komast í þessa stöðu sem Framsókn hefur verið í. Og Sigmundur Davíð er svo sannarlega mættur í vinnuna núna.

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar sem allt bendir til að fundi í fyrsta skipti á morgun verða sennilega engir. Sigmundur Davíð er nefnilega í stjórnarandstöðu. Stjórnin er ekki fyrr byrjuð að drekka freyðivín en Sigmundur, með sína snilligáfu í að hrifsa til sín sviðsljósið, segir hana setja met í pólitískri óákveðni þegar stjórnarandstöðunni var falið að velja hvort endurvinna eigi um tveggja mánaða gamalt fjárlagafrumvarp eða setjast niður og skrifa nýtt. Vinstri-hægri-snú-stjórnin eins og hann uppnefnir hana ætli greinilega ekki að vera afgerandi. Skömmu síðar benti hann á að sáttaboð um formennsku í þremur þingnefndum nefndum væri sjónarspil. Stjórnarandstaðan eigi nefnilega þegar heimtingu á formennsku í þremur nefndum. Ljóst er að formenn flokkanna, sem af fréttum undanfarinna daga að dæma virðast aðallega sammála um að breyta sem minnstu, þurfa því ekki bara að smala sínum eigin köttum heldur sitja á meðan undir markvissum og háðskum loftárásum riddarans á hvíta hestinum.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.