Það er sanngjarnt að þeir sem njóti ákveðinna gæða greiði fyrir. Því er réttlætanlegt að taka upp gjaldtöku á fjölsóttum ferðamannastöðum. Ávinningurinn af slíku fyrirkomulagi er að þeir sem sækja þessa staði greiða fyrir eftirlit, uppbyggingu og öryggisráðstafanir á svæðinu en ekki allir hinir. Þetta er líka leið til að takmarka aðgengi, byggja upp göngustíga og vernda viðkvæma náttúru fyrir auknum ferðamannastraum. Allir náttúruunnendur ættu að vera sammála því markmiði.

Þegar hafa fyrstu skrefin verið stigin í þessa átt og í kjölfarið hafa fleiri lýst yfir áhuga á að hefja gjaldtöku fljótlega. Landeigendur við Kerið í Grímsnesi tilkynntu nýlega um hóflega gjaldtöku til að standa undir uppbyggingu á svæðinu. Í raun er stórundarlegt að ekki hafi enn verið hafin gjaldtaka við Geysi af sömu ástæðu enda einfalt að stýra aðgengi að hverasvæðinu. Þar hefur uppbygging verið í lágmarki og öryggi gesta jafnvel teflt í hættu. Þeir vaða drullu á rigningardögum vegna lélegra göngustíga og upplýsingaspjöld eru fá og lítilfjörleg.

Ákveðin hugarfarsbreyting er að eiga sér stað. Á Þingvöllum er sérstakt gjald greitt fyrir það að fara á salernið, sem er sjálfsagt mál. Eins er greitt fyrir að kafa í Þingvallavatni, sem er vaxandi þjónusta einkaaðila við ferðamenn. Þar þarf að stíga næsta skref og rukka fyrir aðgang að þjóðgarðinum. Þá hafa landeigendur í Reykjahlíð við Mývatnssveit ákveðið að taka upp náttúruverndargjald á næsta ári. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til bænda og annarra landeigenda sem eiga eftirsótt landsvæði að þeir eyði milljónum árlega í að viðhalda svæðum til að ágangurinn bitni ekki á landsgæðum. Eðlilegra er að þeir sem heimsæki svæðin greiði fyrir það.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem fer með ferðamálin í ríkisstjórninni, hefur talað ákveðið fyrir gjaldtöku í samtali við Viðskiptablaðið. Og fleiri hafa tekið undir það. Vandamálið hefur falist í því að finna aðferðafræðina. Í sjálfu sér er ekki sanngjarnt að leggja náttúrugjald á ferðamenn sem koma til landsins til að sækja fundi og sjá aldrei neitt annað en malbikið í Reykjavík.

Talað hefur verið um að það þurfi að samræma aðgerðir við gjaldtöku. Af hverju? Það er í lagi að eigendur landsvæða ákveði sjálfir fyrirkomulag gjaldtökunnar þar sem því verður komið við í stað þess að ríkið skattleggi alla ferðamenn, setji peningana í sjóð og deili síðan út til þeirra sem eru að byggja upp ferðamannastaði. Þetta á að vera sjálfsprottið skipulag þótt eðlilegt sé að hagsmunaaðilar tali saman, miðli af reynslu sinni og leggi á ráðin um hvernig best verður að málum staðið.

Í þeim tilvikum þar sem um ríkisjarðir er að ræða, þjóðgarða og hálendi, eru svokallaðir náttúrupassar ein leið sem virðist vera einföld í framkvæmd. Þessi svæði væru þá kynnt öllum ferðamönnum á leið til landsins; á flugvöllum, upplýsingamiðstöðvum og hjá ferðaþjónustuaðilum. Þeir sem ætli sér að heimsækja ferðamannastaðina greiða þá ákveðið gjald fyrir gegn því að fá passa sem þeir sýna ef um þá er spurt af landvörðum. Viðurlög við því að kaupa ekki passa væri hófleg sektargreiðsla.

Þrátt fyrir viðleitni í átt að aukinni gjaldtöku gætu ferðamenn eftir sem áður ferðast víðast hvar um landið án þess að greiða sérstaklega fyrir. Það má samt ekki gleyma því að flestir telja sjálfsagt að greiða fyrir það sem þeir njóta.