*

sunnudagur, 19. maí 2019
Leiðari
8. mars 2019 12:51

Sjálfvirkni og vesældómur

Sumir hafa áhyggjur af því að sjálfvirknivæðingin muni leiða til þess að fólk missi vinnuna og þar með sitt lífsviðurværi.

epa

Miðað við alla þá umræðu sem verið hefur um fjórðu iðnbyltinguna er merkilegt til þess að hugsa að ekki eru nema þrjú ár síðan hugtakið „fjórða iðnbyltingin“ komst á flug. Það gerðist þegar Klaus Schwab, stjórnarformaður Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum), gaf út bókina The Fourth Industrial Revolution. Fundur Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos árið 2016 var tileinkaður hugtakinu og allar götur síðan hefur það verið í umræðunni.

Ýmsir eiga erfitt með að skilgreina hvað fólgið er í hugtakinu og er það ekki skrítið því í raun má segja að fjórða iðnbyltingin nái yfir allar þær tækniframfarir sem íbúar heimsins eru að upplifa í dag. Í því samhengi er enn fremur fullyrt að mannkynið standi nú á þröskuldi mestu tæknibreytinga sögunnar. Slíkar fullyrðingar eru í eðli sínu afstæðar – líklega breytti hjólið ansi miklu, sem og vélvæðingin, rafmagnið, pappírinn og pensilínið, svo eitthvað sé nefnt.

Hjá því verður samt ekki litið að snertifletir fjórðu iðnbyltingarinnar, sem í grunninn byggir á gervigreind og róbótatækni, eru ótrúlega margir. Tölvutæknin er komin á áður óþekkt stig. Nú hefur mannfólkið ekki bara samskipti með snjalltækjum heldur hafa tækin samskipti sín á milli með hjálp netsins. Þessi angi af byltingunni hefur verið kallaður internet hlutanna eða Internet of Things.

Einn merkilegasti þáttur fjórðu iðnbyltingarinnar er sjálfvirknivæðingin, sem er að breyta framleiðsluháttum og vinnumarkaði. Í framleiðslu mun sjálfvirknivæðingin að stórum hluta sjá um störf sem áður voru hættuleg, sóðaleg og leiðinleg. Á ensku er talað um d-in þrjú, dull, dirty og dangerous. Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um þennan anga fjórðu iðnbyltingarinnar og þá í samhengi við skýrsluna Ísland og fjórða iðnbyltingin, sem nefnd á vegum forsætisráðuneytisins skilaði fyrir fáeinum dögum.

Skýrsluhöfundarnir styðjast meðal annars við rannsókn OECD, sem birt var snemma á síðasta ári. Sú rannsókn náði til 32 landa og samkvæmt niðurstöðum hennar eru um 70% líkur á að 14% starfa í þessum löndum verði sjálfvirknivædd. Um 32% starfa teljast í meðallagi líkleg til að breytast, með metnar 50- 70% líkur á sjálfvirknivæðingu.

Í íslensku skýrslunni er þetta síðan heimfært á íslenskan vinnumarkað. Niðurstaðan er sú að í alþjóðlegum samanburði er íslenskur vinnumarkaður ónæmari fyrir sjálfvirknivæðingunni. En á Íslandi eru 28% starfa talin mjög líkleg til að vera sjálfvirknivædd (50% líkur eða meira) en meðaltalið í könnun OECD er 46%.

Hvort þetta sé jákvætt eða neikvætt er vafalaust matsatriði. Sumir hafa áhyggjur af því að sjálfvirknivæðingin muni leiða til þess að fólk missi vinnuna og þar með sitt lífsviðurværi á meðan aðrir eru bjartsýnni og benda á að þetta sé óhjákvæmileg þróun og hugsanlega muni borgaralaun leysa vandann í framtíðinni. Tæknin, eða kannski öllu heldur tækin, muni skapa verðmætin en fólkið fái greitt. Kannski verður framtíðin þannig að þeir best settu muni eiga sinn róbót og senda hann í vinnu þar sem launin eru hæst. Þá má hafa áhyggjur af því að mannkynið muni veslast upp í leiðindum og vesældóm en ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það að mannkynið er ansi þrautseigt við að finna lausnir á hinum ýmsu vandamálum. Forfeður okkar hafa glímt við erfiðari vandamál en sjálfvirknivæðinguna.

Við teljum okkur kannski vita hvar við stöndum og hvert við stefnum en við höfum í raun enga hugmynd um það hvert þessi bylting mun leiða okkur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim