*

laugardagur, 20. október 2018
Brynjar Örn Ólafsson
27. desember 2017 11:39

Sjóðstjórinn og breyskleiki Reykjavíkur

Slakann í opinberum fjármálum má rekja til fjárfestingahreyfinga Reykjavíkurborgar umfram áætlanir.

Handbært fé A-hluta Reykjavíkur í árslok - leiðrétt fyrir lántöku samkvæmt sjóðstreymi.
Skjáskot

Á vaxtaákvörðunarfundi 15. desember síðastliðinn tiltók Seðlabankastjóri meiri slaka í opinberum fjármálum sem röksemd fyrir óbreyttum vöxtum. Átti hann hvoru tveggja við samneysluútgjöld og opinbera fjárfestingu á fyrstu þremur fjórðungum ársins sem og væntan slaka næstu ár.

Fræknum sjóðstjóra fannst nóg komið. Hann vissi að umræddan slaka mátti rekja að miklu leyti til aukningar á útgjaldahlið Reykjavíkurborgar umfram áætlanir. Til að mynda kom fram í uppgjöri Reykjavíkur sem birt var 30. nóvember síðastliðinn að fjárfestingahreyfingar A-hluta í varanlegum rekstrarfjármunum hafi verið 8,7 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Fimm dögum síðar samþykkti borgarstjórn fjárhagsáætlun þar sem í útkomuspá fyrir árið 2017 eru fjárfestingahreyfingarnar ríflega tvöfalt hærri eða 18,5 milljarðar króna. Greidd gatnagerðagjöld og seldir rekstrarfjármunir hækka mun minna eða um 2 milljarða.

Þannig ætlar borgarstjórn sér skyndilega að örva hagkerfið með liðlega átta milljörðum króna á síðasta fjórðungi ársins. Þar af hefur hún varið 2,5 milljörðum í kaup á 73 íbúðum samkvæmt frétt Morgunblaðsins 25. nóvember síðastliðinn.

Sjóðstjórinn hefur undanfarin ár fylgst vel með stöðu handbærs fjár borgarinnar leiðrétt fyrir lántökum. Er sú stærð vísbending um hversu mikið borgarstjórn þarf að fjármagna útgjaldaáætlanir sínar með lántöku fremur en lausafé. Fyrir um ári gerði fjárhagsáætlun borgarstjórnar ráð fyrir að handbært fé fyrir lántökur yrði 3,8 milljarðar króna í árslok 2017. Í nýbirtri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir mun verri niðurstöðu og að hún verði neikvæð um 5,8 milljarða. Velta má fyrir sér réttmæti þátttöku í skuldabréfaútboðum borgarinnar á líðandi ári þegar um slíkan forsendubrest er að ræða.

Lýsir myndin hvers má búast af Reykjavíkurborg miðað við fordæmi fjárhagsáætlana, útkomuspáa og ársreikninga frá árinu 2012? Svo virðist vera að borgin hafi staðið við áætlanir sínar um handbært fé fyrstu fimm árin. Súlan fyrir útkomuspá ársins 2017 gefur hins vegar til kynna stefnubreytingu enda spáin nokkuð frá því að vera í samræmi við fjárhagsáætlun ársins. Þá virðist staðan ætla að fara áfram versnandi miðað við fjárhagsáætlun ársins 2018. Mögulega tengist það sveitarstjórnarkosningum á komandi vormánuðum.

Skuldabréfamiðlari Kviku banka hafði nýlega haft samband við sjóð- stjórann og kannaði hvort hann hefði áhuga á nýjum verðtryggðum 15 ára flokki (RVK 32 1) sem borgin ætlaði með í lokað útboð. Af hverju ættu sjóðstjórar að halda áfram fjármögnun útgefanda sem virðist áhugalaus um að tryggja lausafjárstöðu sína?

Höfundur er hagfræðingur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.