Ekkert verður til úr engu. Þetta vitum við, hvort sem við rekum meðalstórt heimili, meðalstóra ríkisstofnun eða meðalstórt fyrirtæki. Ef þakrennurnar brotna undan snjóþunga þarf að ganga á sjóðinn sem var hugsaður fyrir Spánarferðina næsta haust – eða biðja um yfirdrátt. Þegar verkefnum stofnunar fjölgar þarf fjármagn að fylgja. Og þegar opinbert regluverk felur í sér kostnaðarauka hjá fyrirtækjum þarf að draga úr kostnaði eða auka tekjur ellegar missa stjórn á rekstrinum. Heimilisbókhaldið og fjármál hins opinbera læt ég kyrrt liggja að sinni en langar að draga fram stöðu fyrirtækjanna.

Hagur íslenskra fyrirtækja hefur vænkast undanfarin ár eftir mögur ár þar á undan en nú er útlit fyrir að verulega sé að hægja á. Við það bætist óvissa vegna kjarasamninga, krónuflökts og annarra ófyrirséðra sviptinga. Þrátt fyrir það virðist víða lítill skilningur á að ekki er takmarkalaust hægt að leggja nýjar byrðar á fyrirtækin.

Jafnmikið og ríkið setur í loftslagsmál

Í könnun sem Viðskiptaráð gerði vegna nýrra persónuverndarlaga kom í ljós að þau 80 fyrirtæki sem svöruðu vörðu um 44.000 vinnustundum í innleiðingu laganna. Ef þessar niðurstöður eru teygðar yfir á íslenskt atvinnulíf í heild má gera ráð fyrir að íslensk fyrirtæki hafi varið 160.000 vinnustundum í verkið. Þessi tími, sem jafnast á við áratuga starfsævi, fór því ekki í að þjónusta viðskiptavini, fá hugmyndir að nýjum vörum eða í að undirbúa árshátíðina heldur eingöngu í að aðlaga fyrirtækið nýrri löggjöf.

Þegar sagt var frá niðurstöðum könnunarinnar í Viðskiptablaðinu fyrir skömmu sagði forstjóri Persónuverndar að það að líta á kostnaðinn sem hlýst af nýjum persónuverndarlögum væri „skammsýni á alvarleika málsins“ og að lagasetningin væri hluti af vegferð í átt að betra samfélagi og betri rekstri. Kostnaður íslensks atvinnulífs vegna laganna verður, miðað við niðurstöður sömu könnunar, um það bil 1,3 milljarðar á hverju ári. Til að setja það í samhengi er þetta svipuð fjárhæð og ríkisstjórnin ætlar að verja í loftslagsmál hvert ár næstu fimm árin. Með þessum athugasemdum er Viðskiptaráð í engu að mæla gegn mikilvægi persónuverndar. En tilgangurinn helgar ekki meðalið möglunarlaust.

Óábyrgt að horfa ekki á kostnað

Því er miður að haldið sé fram að í því að horfa á kostnað felist skammsýni. Öðru nær er þannig horft til allra þeirra áhrifa sem lögin hafa um alla framtíð á stóran hluta fyrirtækja landsins í formi aukins kostnaðar á tímum þegar útlit er fyrir kólnun í hagkerfinu. Viðskiptaráð gerir þannig ekki athugasemdir við lögin, aðrar en þær sem þegar hafa komið fram, heldur sérstaklega við kostnaðinn sem fyrirtæki bera vegna þeirra. Í ljósi þess hve mikilvæg þessi löggjöf er fyrir vegferðina að betra samfélagi ætti ríkið þannig að koma til móts við fyrirtækin, sem þurfa að bera kostnaðinn af þessari vegferð, og lækka skatta. Þessi kostnaður kemur því sem hrein viðbót við nýlega aukinn kostnað við mótframlag í lífeyrissjóð, fasteignaskatta og dregur enn úr getu fyrirtækja til að mæta háværum kröfum um hærri laun. Þessi kostnaðarblinda ríkisins einskorðast ekki við ný lög um persónuvernd. Viðskiptaráð gerði til að mynda, ásamt sjö stórum fyrirtækjum í alþjóðageiranum, athugasemdir við nýlegar breytingar á lögum um ársreikninga. Með lögunum var stigið eitt rétt skref og annað kolrangt, þar sem fyrirtæki sem þess þurfa mega nú semja ársreikning á ensku (rétt skref) en þurfa að skila íslenskri þýðingu á honum til ársreikningaskrár (kolrangt skref). Þetta varð niðurstaðan, þrátt fyrir ábendingar um að í kröfu um þýðingu ársreikning fælist villuhætta. Í stað þess ætti að feta meðalveginn með því að heimila fyrirtækjum að skila útdrætti ársreiknings á íslensku. Með kröfu um þýðingu eru gerðar meiri kröfur til íslenskra fyrirtækja en keppinauta þeirra, meðal annars í Danmörku, Hollandi og Noregi. Þessu til viðbótar þurfa fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni að eyða fjármunum að óþörfu í þýðingu á skjali sem þeir sem skilja á íslensku skilja líka á ensku. Skammsýnin felst því ekki að horfa á kostnaðinn, heldur að horfa viljandi framhjá honum.

Höfundur er lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.