*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Týr
22. janúar 2018 11:21

Skattaglaði Bjarni

Ef Sjálfstæðisflokkurinn boðar ekki lækkun skatta gerir það enginn nema kannski að Miðflokkurinn nýti sér tækifærið.

Haraldur Guðjónsson

Týr var að vona að Sjálfstæðisflokkurinn myndi beita sér gegn hækkun skatta í ríkisstjórnarsamstarfi við VG. Svo virðist þó sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi selt stefnu sína í skattamálum frekar ódýrt. Nú þegar hefur verið boðuð hækkun fjármagnstekjuskatts og það fór um Tý þegar hann hlustaði á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, ávarpa gesti á skattadegi Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og Deloitte á þriðjudagsmorgun.

                                                         ***

Nú hefur Týr skilning á því að Bjarni er í ríkisstjórn með sósíalistum og hendur hans til að láta til sín taka í skattamálum eru bundnar. En miðað við ávarp hans á skattadeginum hefur Týr ekki trú á því að hann hafi áhuga á því yfir höfuð.

                                                         ***

Á fundinum sagði Bjarni að lækkun skatta væri ekki brýnasta málið í dag þar sem það væri efnahagsuppsveifla í landinu! Þá sagði Bjarni einnig að þó hann væri almennt hlynntur því að halda sköttum í lágmarki þyrfti að tímasetja þær aðgerðir vel.

                                                         ***

Eitt fyrsta verk stjórnmálamanna í kreppu er að hækka skatta, þannig að Týr hefði gaman að því að heyra hvenær rétti tíminn sé fyrir skattalækkanir að mati Bjarna. Þarna lét Bjarni frá sér renna tækifæri til að lýsa framtíðarsýn sinni í skattamálum en kaus þess í stað að tala eins og embættismaður. Nú snúast skattalækkanir aðeins um tæknilegar útfærslur sem þurfa að fara saman við óteljandi aðrar aðstæður, m.a. kjarasamninga.

                                                         ***

Lækkun skatta var eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar sl. haust. Miðað við orð formannsins var lítið að marka þá stefnu. Týr vill leggja til eftirfarandi slagorð fyrir næstu kosningar sem flokkurinn gæti nýtt sér; „Við ætlum að lækka skatta, ef embættismennirnir í fjármálaráðuneytinu telja það ráðlegt og aðeins ef það telst heppilegt með tilliti til vinnumarkaðar og annarra tæknilegra þátta.“

                                                         ***

Lækkun skatta er pólitískt mál sem krefst pólitískrar forystu. Ef Sjálfstæðisflokkurinn boðar ekki lækkun skatta gerir það enginn. Nema kannski að Miðflokkurinn nýti sér tækifærið. Það er ástæða fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn missti fylgi til Miðflokksins í síðustu kosningum. Það fylgi kemur ekki til baka á meðan embættismenn í fjármálaráðuneytinu leggja formanni Sjálfstæðisflokksins línurnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim