Eftir tvö ár fara Ólympíuleikarnir fram í Tokyo og á mánudaginn var greint frá því að árin 2024 og 2028 haldi þeir til Parísar og Los Angeles. Það er óvenjulegt að greint sé frá áfangastað Ólympíueldsins ríflega áratug fram í tímann, en ástæðan er einföld. Það fékkst enginn annar til að hýsa leikana.

Íbúar þriggja annarra borga, sem allar höfðu sótt um formlega, knúðu fulltrúa sína til að draga óskirnar til baka eftir að talsverðum fjárhæðum hafði þegar verið varið í umsóknarferlið. Svipaða sögu er að segja af Vetrarleikunum 2022, fjórar borgir drógu til baka umsóknir sínar og að lokum stóð valið einungis á milli tveggja.

Einnota byggingar fyrir milljarða

Almenningur lætur ekki bjóða sér þessa vitleysu lengur. Uppgjör leikanna í London og Sochi, neikvæð umræða um Ríó og hneykslismál FIFA hafa að undanförnu vakið athygli fjölmiðla og þar með almennings á fjármálahliðum stórmóta í íþróttum.

Upplýstur almenningur getur nú loks lagt mat á ávinning og kostnað þess að hýsa slíka viðburði og niðurstaðan er augljós. Stjórnmálamenn í lýðræðisríkjum komast ekki lengur upp með að halda risaveislu á kostnað skattborgara og halda því fram að allt komi þetta til með að borga sig upp með aukinni ferðamennsku.

Að sjálfsögðu er ekkert vit í því að milljörðum sé varið í byggingar sem vitað er að verða einungis notaðar í örfáa daga. Það þarf ekki að koma á óvart að 20.000 sæta hokkívöllurinn í Aþenu hefur ekkert verið notaður síðasta áratuginn frekar en 2 milljarða króna kajaklaugin.

Pólitíski kostnaðurinn er orðinn of mikill

Fjármálaóreiða í tengslum við Ólympíuleika er ekkert nýtt. Í ríflega hálfa öld hefur aldrei tekist að halda leikum innan fjárhagsáætlunar og hefur framúrkeyrslan að meðaltali verið yfir 150%. Bókhaldi umsóknar Nagano vegna vetrarleikanna 1998 var hent á bálið til að fela um 3 milljarða króna kostnað sem að stórum hluta rann til meðlima Alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar (IOC).

Svona mætti lengi telja upp hneykslismálin en svo virðist sem nú sé mælirinn loks fullur og andstaða almennings orðin næg til að kostnaðurinn sé ekki eingöngu skattgreiðenda heldur einnig pólitískur og það hefur áhrif. Raunar hefur 700 milljarða króna framúrkeyrsla leikanna í Tokyo vakið mikla reiði meðal íbúa borgarinnar og gripu skipuleggjendur til þess ráðs að láta endurhanna Ólympíuleikvanginn til að freista þess að temja sívaxandi útgjöldin.

Betur verður farið með skattfé

Við megum búast við að leikarnir í París og Los Angeles verði með öðru sniði en undanfarin ár, í það minnsta bak við tjöldin. Stærstur hluti nauðsynlegra innviðanna er þegar til staðar og þar sem IOC hafði ekki úr fleiri borgum að velja er komin upp óvenjuleg staða sem ekki hefur sést síðan Los Angeles hélt leikana síðast árið 1984, með góðum fjárhagslegum árangri.

Þar sem óþarft er að keppa við aðrar borgir með loforðum um íburð og galin fjárútlát er samningsstaðan gagnvart IOC þokkaleg í þetta skiptið. Borgaryfirvöld geta krafist þess að útgjöldum verði haldið í lágmarki og slakað verði á kröfum um aðstöðu og aðbúnað.

Skynsamlegast gæti þó verið að stíga hagræðingarskrefið til fulls og finna leikunum varanlegt heimili. Grikkir gætu látið renna aftur í kajaklaugina og tekið við leikjunum að nýju eftir 1.600 ára hlé. Betur yrði farið með fjármuni almennings og Ólympíuleikarnir væru komnir heim. Rómantíkin gerist nú varla meiri en það.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka