Þjóðfélagið ætlast til þess að menn leggi fyrir eða spari. Er það talið nauðsynlegt ef maður vill eignast þak yfir höfuðið eða geta mætt skyndilegum áföllum. Hægt er að spara með ýmsum hætti. Til dæmis má leggja peninga í banka til ávöxtunar. Regluleg innlögn í banka er ef til vill frumstæðasta form sparnaðar sem völ er á. Þá er auðvelt að reikna út hvaða skatt ber að greiða af ávinningnum. Gallinn er hins vegar sá að vextirnir af innstæðunni eru oftar en ekki neikvæðir þannig að skattlagningin virkar í raun sem refsing. Kaup á ríkisskuldabréfum eru örlítið flóknara sparnaðarform. Ávinningurinn er þó aðeins meiri og þar sem ekki þarf að borga skatta af honum fyrr en við innlausn þegar heildarfjárhæðin er til ráðstöfunar fær maður á tilfinninguna að raunverulegur gróði sé af viðskiptunum.

Hlutabréfakaup o.fl.

Eftir því sem reynslan af sparnaðinum vex og auraráðin verða meiri er eðlilegt að maður reyni fyrir sér á öðrum sviðum og kaupi sér t.d. hlutabréf. Hlutabréf geta gefið af sér tvenns konar tekjur, annars vegar arð sem skattleggst sem brúttótekjur og hins vegar hagnað sem gerður er upp með því að draga kaupverð frá söluverði. Aðeins nettótekjurnar koma því til skatts þegar svo stendur á. Nokkur áhætta fylgir kaupum á hlutabréfum og er því vissara að fara varlega. Hlutabréf eru almennt frekar dýr og því hafa ekki allir efni á þeim. Til að koma til móts við slíka aðila hafa því verið þróaðar aðrar fjármálaafurðir og eru afleiður ef til vill hvað kunnastar þeirra.

Við kaup á afleiðu öðlast maður rétt á að eignast eða láta af hendi ákveðið undirliggjandi verðmæti á fyrirfram umsömdu verði eftir ákveðinn lágmarks tíma og getur það út af fyrir sig verið hvers konar eign sem er. Maður þarf jafnvel ekki – og í því felst kostur þessa fjármálatækis – að leysa til sín eða afhenda eignina heldur getur krafist uppgjörs eða mismunargreiðslu á því sem maður greiddi upphaflega fyrir afleiðuna og hinu umsamda kaupverði.

Reynir helst á þetta ef verð hins undirliggjandi verðmætis nemur hærri fjárhæð en maður var reiðubúinn að borga. Sé fjárhæðin lægri borgar sig hins vegar að láta kyrrt liggja eða draga í land þar sem kaupin auka aðeins á fjárhagslegt tap manns. Verslun með hlutabréf hefur verið stunduð hér á landi frá því skömmu eftir aldamótin 1900 meðan viðskipti með afleiður byrjuðu ekki fyrr en um 2000.

Staða fagfjárfesta

Skattlagning fjármagnstekna hér á landi er að ýmsu leyti frumstæð. Þeir sem eru duglegastir að spara eru þannig á vissan hátt neyddir til að stofna fyrirtæki um fjárfestingar sínar. Að vísu er ekki svo mikill munur á skatthæð vaxta og hagnaðar af sölu hlutabréfa hjá mönnum og fyrirtækjum. Hins vegar er skattlagningin í mörgum tilvikum ólík. Fari hlutafélag á hausinn geta fyrirtæki t.d. dregið kaupverð hlutabréfa sinna í því frá tekjum sem rekstrarkostnað öfugt við einstaklinga sem í flestum tilvikum sitja uppi með sitt tap óbætt.

Til að nýta tapið grípa margir til þess ráðs að selja hlutabréfin rétt áður en félag er lýst gjaldþrota t.d. fyrir 1 kr. og jafna tapinu svo á móti hagnaði af sölu annarra hlutabréfa sem oft þarf að selja til að afla fjár til greiðslu lána sem tekin voru til að fjármagna fyrrnefndu kaupin. Mörg dæmi eru hins vegar um að slíkum frádrætti hafi verið synjað þar sem litið er á söluna sem málamyndagerning. Sumum ríkjum er þetta ljóst og til að koma til móts við menn þegar svo stendur á hafa verið sett lög sem kveða svo á um að verði hlutafélag gjaldþrota teljast hlutabréfin í því við skattlagningu hafa verið seld fyrir 0 kr. Að mínu mati stuðlar ákvæði eins og þetta að meira réttlæti við skattlagningu.

Viðskipti með afleiður

Á síðasta ári komu upp nokkur mál þar sem refsingar var krafist yfir mönnum fyrir að telja ranglega fram tekjur af afleiðum. Nánar tiltekið fólst brot þeirra í því að í stað brúttótekna af viðskiptunum höfðu þeir talið fram nettótekjur með því að jafna saman hagnaði og tapi tveggja eða fleiri afleiðusamninga. Þegar viðskipti með afleiður byrjuðu á Norðurlöndunum í kringum 1985-1990 var ekkert fjallað um skattlagninguna í lögum. Eðlilega veltu menn því auðvitað fyrir sér hvers konar tekjur afraksturinn væri.

Í Danmörku var t.d. litið á tekjurnar fyrst í stað sem vinning eða verðlaun sem gerði að verkum að menn þurftu að greiða launatekjuskatt af gróðanum. Eftir ítarlega skoðun komust menn þó um síðir að því að tekjurnar væru ekki reglulega áfallandi heldur einstaklega tilfallandi og í framhaldinu voru því hvarvetna sett lög sem kváðu svo á um að tekjurnar bæri að reikna út eins og hagnað. Um svipað leyti og þetta gerðist voru stjórnvöld hér á landi að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna og hefði því verið eðlilegt að kveða á um skattlagningu afleiðna í þeim.

Réttlætið sigrar að lokum

Af einhverjum ástæðum var það ekki gert og fengu skattyfirvöld því svo að segja frjálsar hendur um tekjuákvörðunina. Ekki þurfti því að koma á óvart að niðurstaðan af því mati gagnaðist frekar hinu opinbera en almenningi. Árið 1999 ritaði ég grein í Tímarit lögfræðinga þar sem ég fór yfir þessi mál. Jafnframt setti ég fram þá skoðun að tekjur manna af viðskiptum með afleiður bæri að gera upp og skattleggja eins og um sölu á lausafé væri að ræða. Einungis hagnaðurinn kæmi því til skatts. Ekki veit ég hvort nokkur hefur lesið þessi skrif. Það kom mér því skemmtilega á óvart að við lögfestingu á reglum um uppgjör og skattlagningu afleiðna í árslok síðasta árs skyldi þetta einmitt vera niðurstaðan. Lögunum ber því að fagna.

Grein Ásmundar birtist í Viðskiptablaðinu 13. febrúar 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .