Útboð og skráning Heimavalla á Aðalmarkað Nasdaq Iceland markar ákveðin tímamót. Heimavellir er fyrsta félagið síðan 2007 til að selja nýtt hlutafé í almennu útboði samhliða skráningu.

Verðmæti hlutafjár sem selt hefur verið útboðum samhliða skráningum undanfarin sjö ár nemur nærri 100 milljörðum króna, en í öllum tilfellum hefur verið um að ræða sölu á áður útgefnu hlutafé. Útboðin hafa því fyrst og fremst haft þann tilgang að hleypa nýjum eigendum að félögunum og eldri eigendum út. Það hlutverk skyldi reyndar ekki vanmetið enda getur það einfaldað aðgengi fyrirtækja að áhættufjármagni á fyrri stigum ef fjárfestar eiga þess kost síðar að skrá fyrirtækið og selja hlut sinn á virkum hlutabréfamarkaði.

Vísbendingar eru um að íslenskur hlutabréfamarkaður hafi vaxandi hlutverki að gegna í fjármögnun vaxtar fyrirtækja. Nýleg yfirtaka Sýnar (þá Fjarskipta) á ákveðnum einingum 365 miðla var til að mynda að hluta fjármögnuð með hlutafé í Fjarskiptum og var umfang þeirrar fjármögnunar áþekk áætluðu umfangi fjármögnunar Heimavalla. Í kaupum Haga á Olís og fasteignafélaginu DGV ehf. hefur verið gert ráð fyrir því að hluti kaupverðs verði fjármagnaður með hlutum í Högum og er verðmæti þeirra hluta í námunda við 5 milljarða króna. Samkvæmt samningi vegna kaupa N1 á Festi verða 8,75 milljarðar króna af kaupverði greiddir með hlutum í N1. Þá nam fjármögnun Klappa grænna lausna hundruðum milljóna króna með útgáfu nýs hlutafjár í aðdraganda skráningar félagsins á First North í september síðastliðnum.

Gæði hlutabréfamarkaðar sem fjármögnunarvettvangs veltur öðru fremur á þátttöku fjárfesta. Mun fleiri fjárfestar þyrftu að koma að markaðnum en verið hefur. Einkum eru tækifæri fólgin í því að auka þátttöku erlendra fjárfesta og almennings. Hlutdeild erlendra fjárfesta í eignarhaldi er nú rúmlega 7%. Æskilegt er að hlutdeild erlendra aðila í viðskiptum verði með tíð og tíma sambærileg því sem gerist á öðrum mörkuðum Nasdaq á Norðurlöndum. Nasdaq félögin á Íslandi, Kauphöllin og Verðbréfamiðstöðin, leggja nú grunn að bættu aðgengi erlendra fjárfesta að hlutabréfamarkaðnum.

Kauphöllin hefur undanfarin misseri átt í viðræðum við erlendar fjármálastofnanir um að eiga bein og milliliðalaus viðskipti á hlutabréfamarkaði. Líkur eru á að eitt eða fleiri norræn fjármálafyrirtæki gerist aðilar að Kauphöllinni á þessu ári. Erfitt er að segja til um hversu virk þau verði í viðskiptum en líklegt er að þau fari rólega af stað og byggi síðan upp viðskipti sín með tímanum.

Þá hefur Kauphöllin unnið að því að koma íslenska hlutabréfamarkaðnum inn í vísitölur leiðandi alþjóðlegra vísitölufyrirtækja á borð við FTSE og MSCI. Áformað er að íslensk félög fari í alþjóðlegar vísitölur FTSE í haust. Lokaákvörðun verður tekin í lok september. Tíðinda er að vænta úr herbúðum MSCI um mitt ár.

Nasdaq verðbréfamiðstöð vinnur nú að innleiðingu nýs verðbréfamiðstöðvarkerfis. Samhliða þeirri innleiðingu er gert ráð fyrir að samstarf verðbréfamiðstöðva innan Nasdaq verði aukið til muna. Hvoru tveggja mun hafa verulega þýðingu fyrir íslenskan verðbréfamarkað. Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir því að verðbréfauppgjör hér á landi muni uppfylla kröfur í væntanlegu regluverki Evrópusambandsins um rekstur verðbréfamiðstöðva og fylgja alþjóðlegum stöðlum í einu og öllu. Þetta mun meðal annars einfalda aðkomu erlendra fjárfesta að viðskiptum. Í öðru lagi er stefnt að því að skráning, viðskipti og uppgjör með hlutabréf skráðra fyrirtækja geti verið í evrum, ef þau svo kjósa, og mögulega einni eða fleiri myntum hinna Norðurlandanna. Þetta getur aukið svo um munar getu skráðra útflutningsfyrirtækja að laða til sín erlent fjármagn og stuðlað að meiri þátttöku erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði en við höfum áður séð.

Samhliða auknum viðskiptum erlendra fjárfesta þyrfti að virkja það þjóðhagslega afl sem felst í virkri þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Lítil bein þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði er áhyggjuefni. Bein eignarhlutdeild almennings er nú um 4% og er langt undir því sem gerist á mörkuðum annarra landa. Kauphöllin hefur skoðað þau kerfi skattalegrar ívilnunar sem þekkjast í Svíþjóð og öðrum mörkuðum þar sem Nasdaq starfar og hafa aukið eignarhald almennings í atvinnulífinu. Á grunni þeirrar skoðunar áformar Kauphöllin að efna til samtals innan skamms við stjórnvöld og hagsmunaaðila á markaði.

Ágætlega hefur gengið að byggja upp íslenskan hlutabréfamarkað undanfarin ár. Tækifæri eru til að efla hann frekar og gera hann að öflugum vettvangi atvinnusköpunar í íslensku efnahagslífi. Bæði Nasdaq kauphöllin og Nasdaq verðbréfamiðstöðin vinna að því hörðum höndum að svo megi verða.

Höfundur er forstjóri Kauphallarinnar.

Skoðanagreinin birtist í Fjórðu iðnbyltingunni, nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og Viðskiptablaðsins. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið:

[email protected] .