*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Brynjar Örn Ólafsson
9. júlí 2018 11:04

Skipulegur afleiðumarkaður

Þrátt fyrir vöntun á skipulegum markaði hafa erlendir fjárfestar verið að sýna íslenskum afleiðum áhuga.

Myndin lýsir 90 daga flökti á hlutum Haga hf. og breytingum í virði evrópsks kaupréttar til eins mánaðar á Haga hf.
Aðsend mynd

Erlendir fjárfestar hafa takmarkaðan skilning á að ekki sé skipulegur markaður með afleiður á Íslandi. Þrátt fyrir traustar grunnstærðir eru erlendir fjárfestar með litla reynslu af íslenskum hlutafélögum ekki jafn viljugir að festa fjármagn í hlutum þeirra og að kaupa valrétti á þá.

Innlendum fagfjárfestum býðst slíkir gerningar utan skipulegs markaðar hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum. Án markaðar eru upplýsingar um kostnað valrétta og framvirkra samninga ekki samfelldar og sömuleiðis geta aðilar ekki átt viðskipti með slíka samninga á eftirmarkaði. Hið síðarnefnda er mikilvægt þar sem virði valrétta ræðst ekki eingöngu af verði undirliggjandi bréfa líkt og fjallað var um hér í október 2014 (þekkt hámarkstap í valréttum). Lesandi þekkir að mikilvægur þáttur í verðlagningu á valréttum er flökt. Án skipulegs markaðar með afleiður er möguleiki á viðskiptum með flökt kippt úr sambandi.

Myndin lýsir 90 daga flökti á hlutum Haga hf. og breytingum í virði evrópsks kaupréttar til eins mánaðar á Haga hf. Til einföldunar er öðrum breytum en flökti haldið óbreyttum. Til dæmis frá mars til apríl 2017 jókst flökt um 3 prósentustig og verð á hlutum Haga hf. hækkaði um 4% samkvæmt Kodiak excel. Virði raunverulegs kaupréttar hækkaði mest um 39% eða þegar sjö dagar voru til lokadags samnings. Ef fjárfestir hefði viljað læsa inni hagnaðinn hefði þurft til skipulegan eftirmarkað.

Innlendir sem erlendir fjárfestar hafa ekki eingöngu áhuga á flökti til að eiga viðskipti með það heldur jafnframt til að kanna viðhorf sérfróðra markaðsaðila til framtíðarflökts eða framtíðarástands. Ef átt er viðskipti með valrétti á skipulegum markaði nýtast upplýsingar þaðan um kostnað samninga við útreikning á fólgnu flökti.

Þrátt fyrir vöntun á skipulegum markaði hafa erlendir fjárfestar verið að sýna íslenskum afleiðum áhuga. Samkvæmt hagtölum Seðlabankans hefur virði afleiðusamninga þeirra á hverjum tíma verið að jafnaði um 1,3 milljarðar króna frá því í febrúar síðastliðnum. Hlutdeild erlendra fjárfesta í afleiðusamningum er lág þar sem heildarvirði samninga hefur verið um 19 millljarðar frá áramótum. Hins vegar er aukningin veruleg miðað við samninga þeirra febrúar 2014 til janúar 2018 þegar mánaðarleg staða var að jafnaði um 0,07 milljarðar núvirt.

Tölfræði Seðlabankans er áhugaverð en þar kemur meðal annars fram að mikill meirihluti samninga hefur styttri líftíma en mánuð eða 80%. Hins vegar ólíkt tölfræði norrænu kauphallanna inniheldur tölfræði Seðlabankans ekki upplýsingar um meðalkostnað framvirkra samninga eða valrétta. Þá birta þessar norrænu kauphallir upplýsingarnar niður á einstök undirliggjandi bréf en slík upplýsingagjöf myndi auka virkni íslenska markaðarins.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.