*

fimmtudagur, 17. janúar 2019
Andrés Magnússon
14. apríl 2018 13:43

Skoðanir & staðreyndir

Öll málfrelsisákvæði lúta að nákvæmlega því, að vernda vondar, rangar og óvenjulegar skoðanir, því þessar góðu, réttu og við­ teknu þurfa engrar verndar við.

Loga Einarssyni var mótmælalaust eftirlátin helber rangtúlkun.
Haraldur Guðjónsson

Um daginn bar það við á Bretlandi, að Ofcom, eftirlitsstofnun með fjölmiðlum og fjarskiptum, ávítaði útvarpsstöðina BBC 4 fyrir að hafa verið of gagnrýnislaust í viðtali í fyrrasumar við Nigel Lawson, aldurhniginn fyrrverandi fjármálaráðherra Thatchers (og föður heimilisgyðjunnar Nigellu). Hann hefur afdráttarlausar skoðanir á hnattrænni hlýnun af mannavöldum og telur þær áhyggjur séu umfram allt tilefni. Í viðtalinu viðraði hann þær skoðanir af nokkrum móð, en BBC 4 — talútvarp hinnar velmenntuðu borgarstéttar þar í landi — var sumsé átalið fyrir að hafa ekki spurt hann nægilega út úr um þær umdeildu, að ekki sé sagt röngu skoðanir; eftir að Græningjaflokkurinn hafði lagt fram kvörtun og þekktir vísindamenn á borð við Brian Cox og Jim Al-Khalili (báðir vinsælir þáttastjórnendur BBC) höfðu andæft.

Nú hefur BBC 4 einvalaliði við­ talanda á að skipa og þeir eru oft býsna aðgangsharðir. Þá skiptir það einnig máli, að BBC 4 sinnir vísindum og fræðastarfi afar vel. Í þessu viðtali var Lawson síð­ ur en svo látinn komast upp með einhvern moðreyk, en það réði sjálfsagt nokkru um viðtalið líka, að BBC sem stofnun hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa fjallað um hnattræna hlýnun af mannavöldum mjög frá einni hlið. Ofcom fannst hins vegar ekki nóg að gert og við það situr.

Nú geta menn sagt sem svo að það megi vel efast um þær kenningar allar og að enginn hefði fundið að því þó hin aldna kempa hefði sagt eitthvað ógrundvallað um veðrið á morgun, hvað þá hvernig veðrið verður eftir eina öld.

Þá þykir sumum það sennilega einnig fremur ógeðfelld afstaða, að sumir hlutir (jafnvel vísindakenningar) séu orðnir svo heilagir að það megi ekki efast um þá á opinberum vettvangi, án þess að það skuli útheimta sérstaka og tiltekna meðhöndlun fjölmiðla. Eins og einn vinur síð­ unnar orðaði það: „Það er rétttrúnaðarlykt af svona úrskurðum og sú lykt er alltaf vond.“

                      ***

Hér var á dögunum fjallað um það að í skoðanapistlum (og við­ tölum þá sömuleiðis) yrði að umbera mönnum að hafa rangar skoðanir, ekki síður en hinar réttu.

Öll málfrelsisákvæði lúta að nákvæmlega því, að vernda vondar, rangar og óvenjulegar skoðanir, því þessar góðu, réttu og við­ teknu þurfa engrar verndar við.

Hitt er annað mál, að fjölmiðlar eiga ekki aðeins að vera viðtöku- og endurvarpsstöðvar fyrir slíkt, viðtalendur eiga að vera gagnrýnir og fréttamenn geta tekið slíkar yfirlýsingar upp, grennslast fyrir um sannleiksgildið, leitað andstæðra skoðana og svo framvegis.

Ekki síst á það auðvitað við um það þegar valdamenn, fulltrúar almennings, sérfræðingar eða aðrir með sérstaka stöðu eiga í hlut.

                      ***

Gott dæmi um það hvernig fjölmiðlar geta vanrækt þá skyldu sína fékkst á öldum ljósvakans í gær. Tilefnið var það að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fékk í fyrradag svar við fyrirspurn sinni til fjármálaráðherra um tekjur og eignir landsmanna á árunum 1997-2016.

Í viðtali við fréttastofu RÚV í sagði Logi um tölurnar í svari ráðherrans: „Hér er misskipting að aukast, allur arður og eignir, sem eru að verða til, sem eru auðvitað miklar, þær eru að langstærstum hluta að fara til fámenns hóps á kostnað hinna auð­ vitað.“

Vandinn er sá, að þarna var Loga mótmælalaust eftirlátin helber rangtúlkun á þessum tölum. Í frétt á mbl.is í gær kom hins vegar hið augljósa fram: Eigið fé ríkasta 0,1% þjóðarinnar var rétt rúmlega 201 milljarður árið 2016 og hækkaði um tæplega 14 milljarða frá fyrra ári. Þetta eru um 218 fjölskyldur. Eigur þessa ríkasta hluta þjóðarinnar lækkuðu hins vegar sem hlutfall af heildareign landsmanna úr 6,7% í 6,3% og hefur hlutfallið lækkað frá árinu 2010 þegar það var 10,2%.“

Auðsælasti hluti þjóðarinnar á nú markvert lægri hlut eigin fjár í landinu en gerðist árið 2015 og miklu lægri hlut en í lok ársins 2010 (þegar Samfylkingin hafði setið í ríkisstjórn í fjögur ár!). Það er raunar rétt að staldra við árið 2010, því þá var einmitt Íslandsmetið í þessum efnum slegið. Hvorki fyrr né síðar á tímabilinu 1997–2016 hefur auðugasta 0,1% þjóðarinnar átt stærri hlut af kökunni en árið 2010, en gaman er að segja frá því að sama ár tók Logi fyrst sæti á þingi.

Litlar líkur verða að teljast á að það Íslandsmet vinstristjórnarinnar verði slegið í bráð. Sömu sögu er að segja af ríkasta 1% og ríkustu 5%.

Svör Loga bera það með sér, að hann var búinn að ákveða hver túlkun hans á svari fjármálaráð­ herra ætti að vera áður en svarið barst, hvað svo sem tölurnar gæfu til kynna. Logi er auðvitað í pólitík og hans pólitík gengur út á að tala um misskiptingu kökunnar frægu; tala um að þeir ríkustu væru að fá eitthvað á kostnað hinna, þótt allir hópar séu bersýnilega að bæta stöðu sína. Og auðvitað er hann frjáls að þeirri skoðun sinni og þeirri pólitík, sem hann á endanum þarf að eiga við kjósendur.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir hefði hins vegar átt að ganga á hann um það. Hvort svörin væru ekki skýr um hvernig í þann pottinn væri búið, hvort þróunin væri ekki einmitt á þann hátt, sem jafnaðarmenn í orði kölluðu eftir. Hugsanlega hefur hún ekki verið búin að lesa svar ráðherra til hlítar, en þá hefði hún líka átt að geyma sér að tala við Loga.

Hefði hann bara fjallað almennt um tilfinningu sína eða skoðanir mætti líta hjá því, en þarna var útgangspunktur fréttarinnar svar ráðherrans, beinharðar staðreyndir og útreikningar ráðuneytisins, sem enginn hefur borið brigður á. Það er grunnhlutverk fjölmiðla að halda valdamönnum við efnið. Líka þessum í stjórnarandstöðunni.

                      ***

Heiðar Guðjónsson stjórnarformaður Sýnar hf. hafði samband vegna skrifa um sig í síðasta dálki og hafði áhyggjur af því að þau mætti skilja sem svo að hann hafi látið aðra viðmælendur Bylgjunnar þoka fyrir sjálfum sér. Það var alls ekki ætlunin og er velvirðingar beðist hafi það farið milli mála.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.