Skuldahlutföll sveitarfélaga útskýra ekki ein og sér þróun álags þeirra ofan á ríkistryggt þrátt fyrir að það hafi farið lækkandi frá árinu 2010 samhliða lækkandi skuldahlutfalli.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber stjórn sveitarfélags m.a. að sjá til þess að skuldahlutfall A- og B-hluta í reikningsskilum sé ekki hærra en 150%. Hlutfallið er reiknað sem heildarskuldir af reglulegum tekjum og hafa sumir fjárfestar notast við hlutfallið til að flokka gæði skuldara.

Frá ársbyrjun 2010 hafa einungis fjögur sveitarfélög verið virk í útboðum á skuldabréfamarkaði. Það eru Akureyrarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Reykjavíkurborg. Borgin hefur mikla yfirburði þar sem hún hefur selt rúma 14 ma.kr. í útboðum. Þar á eftir kemur Akureyrarbær með 3 ma.kr.

Þrátt fyrir að skuldahlutfall A- og B-hluta borgarinnar hafi staðið hæst í 340% hefur álagið á henni verið á bilinu 43 til 131 punktar (pkt.) ofan á ríkistryggt í útboðum. Við útreikning á hlutfallinu er notast við samstæðureikning þar sem lánadrottnar gleyma seint 12 ma.kr. lánveitingu borgarinnar til Orkuveitu Reykjavíkur 29. mars árið 2011. Þegar hlutfallið stóð sem hæst í apríl 2010 var álagið í 52 pkt. en í síðasta útboði, 16. janúar sl., stóð það í 57 pkt. og skuldahlutfallið í 240%. Skuldahlutfall borgarinnar hefur lækkað um 100 prósentustig á síðustu þremur árum.

Myndin sýnir að samband hlutfallsins og álagsins er ekki skýrt. Mögulega skýrir seljanleiki skuldabréfa Reykjavíkurborgar hversu lágt álagið er miðað við skuldahlutfallið.  Viðskiptavakt er á umræddum flokkum, RVK 19 1 og RVK 09 1, og er samtals nafnvirði þeirra rúmir 20 ma.kr. Vissulega þarf að hafa í huga að mánuðir geta liðið á milli útboða og því getur ástand á markaði breyst mikið, sbr. mars í fyrra þegar mikil sala varð á ríkisbréfum, og álagið stóð sem hæst.

Ef sambandið milli álagsins og veltufjárhlutfalls er skoðað sést að eftir því sem hlutfallið er lægra því lægra verður álagið sem skýtur nokkuð skökku við. Nálgast má mynd af gögnunum á síðunni hi.is/~boo4.

Ekki er skýrt samband milli eiginfjárhlutfalls sveitarfélaga og álags, og mætti jafnvel ganga svo langt að segja að því lægra sem hlutfallið er því lægra álag. Mynd má nálgast á hi.is/~boo4.

Vissulega er það hentugt fyrir fjárfesta að horfa á skuldahlutfallið við ákvörðunartöku þar sem eftirlitsaðilar leggjast á sveif með þeim að fylgjast með sveitarfélögum sem fara yfir 150%. Hins  vegar þurfa fjárfestar að vera áfram vakandi fyrir öðrum efnahagsstærðum.

Grein Brynjars birtist í Viðskiptablaðinu 30. apríl 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .