Ég unni náttúrunni. Fátt veit ég betra en að ganga um ósnortna náttúru. Á þessum göngum mínum er ég reyndar oftast með veiðistöng í hönd en það er allt annað mál. Punkturinn er sá að mér er alls ekki sama um náttúru landsins. Ég vil að við sýnum henni virðingu.

Vegna þessa staldra ég við þegar umhverfismál ber á góma og þar er af nógu að taka.  Rétt vika er síðan haldinn var stór blaðamannafundur, þar sem Björk Guðmundsdóttir og Andri Snær Magnason blésu í herlúðra. Kynntu þau samtökin Gætum garðsins, sem hefur það meginmarkmið að breyta miðhálendinu í þjóðgarð. Það er göfugt markmið þó ég reyndar skilji ekki undirskriftasöfnun á heimsvísu og nákvæmlega hvaða gildi hún á að hafa. Núna hafa um 34 þúsund manns skrifað undir, eða um 0,00047% af íbúum jarðarinnar.

Samtökin Gætum garðsins mótmæla harðlega stóriðjustefnu stjórnvalda og vilja ekki fleiri virkjanir. Ég get skilið þá kröfu. Það er hins vegar ýmislegt annað sem ég skil ekki.

Samtökin  en þó sérstaklega Landvernd hafa mótmælt Kjalvegi? Vegagerðin hefur verið að laga veginn yfir Kjöl. „Laga" er grundvallarorð því það er sem sagt vegur á svæðinu. Landvernd telur að ekki megi laga ekki veginn og vill að framkvæmdin fari í umhverfismat. Hver er skynsemin í þessari pælingu? Væri ekki ráð fyrir samtök eins og Landvernd að beina spjótum sínum að einhverju þarfara.

Lagningu háspennulínu yfir Sprengisand er líka harðlega mótmælt. Ég skil alveg að fólk vilji ekki há möstur í óspilltri náttúrunni þó mér finnist orðalag Bjarkar og Andra Snæs heldur dramatískt en þau segja að línan muni "skera hálendi Íslands í tvennt".
Allir sem eitthvað hafa kynnt sér málið vita að byggðalínukerfið er gjörsamlega sprungið og iðnfyrirtæki á Norður- og Austurlandi eru mörg hver búin að koma sér upp olíukötlum til raforkuframleiðslu. Varla er það til eftirbreytni? Þurfum við ekki að hugsa í lausnum hér frekar en að vera með upphrópanir um verið sé að skera landið í tvennt?

Áhugavert er til þess að hugsa að umhverfisverndarsinnar leggjast á sveif með forsvarsmönnum stóriðjunnar og þá sérstaklega álveranna í andstöðu sinni gegn sæstreng. Ég veit ekki hvort umhverfisverndarsinnarnir átta sig á því en bara hugmyndin um sæstreng er okkur öllum í hag. Núna standa yfir viðræður Landsvirkjunar og Norðuráls um nýjan raforkusamning. Samningatæknin snýst um það að benda á næst besta kostinn. Næst besti kostur Landsvirkjunar er að selja raforku úr landi en næst besti kostur Norðuráls er að leggja álverið niður. Sæstrengurinn er þannig mikilvægt vopn í að ná sem hagstæðustu samningunum við álverin.

Annað mál sem ég fæ ekki botn í eru mjög hávær mótmæli gegn sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Skúli Mogensen hefur einhverra hluta vegna gagnrýnt byggingu verksmiðjunnar harðlega í greinum og viðtölum. Ástæðan fyrir því að ég fæ ekki botn í þetta er að verið er að reisa kísilverksmiðjur bæði í Helguvík og á Bakka við Húsavík sem menga meira en sólarkísilverksmiðjan. Þrátt fyrir það er sólarkísilverksmiðjan helsta skotmarkið. Gæti staðsetning sólarkísilverksmiðjunnar haft eitthvað að segja, það er að hún er gegnt jörðinni Hvammsvík sem Skúli á? Ef svo er þá er hreinlegast að segja það bara.

Það er nánast sama við hvern þú talar við, sem eitthvað vit hefur á stóriðju, allir eru sammála um að verksmiðja Silicor verði sú umhverfisvænasta í landinu. Þessi staðreynd endurspeglast í því að verksmiðjan þurfti ekki að fara í umhverfismat. Líklega voru það mistök hjá forsvarsmönnum Silicor að krefjast þess ekki að verksmiðjan færi í umhverfismat, þó slíkt hefði tafið verkefnið. Síðan má alveg geta þess að sólarkísilverkmiðjan framleiðir sólarkísil sem notaður er í sólarsellur. Þessar sólarsellur eru notaðar til að beisla orku sólar. Sólarorka er endurnýjanleg orkulind og þar af leiðandi umhverfisvæn en það má ekki framleiða sólarkísil í „mínum garði", nei takk!

Af umræðunni að dæma er því miður oft ekki hægt að samræma almenna skynsemi og náttúruvernd. Það er auðvelt að vera á móti en umræðan myndi svo sannarlega fara á hærra plan ef það væri líka bent á lausnir.