Nokkrar fréttir um hnignun lífríkis Mývatns birtust í Fréttablaðinu í mars. Fréttirnar vöktu mikla athygli hjá þeim sem láta sig umhverfismál varða en því miður virðast þær hafa vakið minni athygli hjá ráðamönnum í sveit og borg. Enn ein áminningin um ástandið birtist í ályktun Veiðifélags Laxár og Krákár, sem fjölmiðlar greindu frá um síðustu helgi. Þar er botni Mývatns líkt við uppblásinn eyðisand og kallað eftir aðgerðum.

Í grófum dráttum þá var frá því greint í Fréttablaðinu fyrir ríflega einum og hálfum mánuði síðan að lífríkið við Mývatn væri undir gríðarlegu álagi. Óhemju magn af svokölluðum blábakteríum hefðu mælst í vatninu síðastliðin tvö sumur. Þessar bakteríur hefðu hreinlega yfirtekið lífríki vatnsins suma daga og magnið væri tólffalt það magn sem Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) varar við. Þetta þýðir meðal annars að bleikjan í vatninu er svo gott sem horfin og kúluskíturinn, sem er friðlýst tegund, virðist horfinn. Í fyrrasumar veiddust 319 hornsíli í vatninu samanborið við 3 til 14 þúsund í sambærilegum rannsóknum síðasta aldarfjórðung. Urriðastofninn í Mývatni og Laxá er í hættu.

Það sorglega við þetta allt saman er að rekja má ástandið til mannanna verka og sinnuleysis stjórnvalda gagnvart þessari náttúruperlu, sem er í raun ótrúlegt því verndarsvæði Mývatns og Laxár er á svokölluðum rauðum lista Umhverfisstofnunar. Það að vera á þessum lista þýðir í raun að svæðið sé í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu eða að það hafi tapað því að hluta. Þessi vegna er sinnuleysi stjórnvalda gagnvart því sem er að gerast við Mývatn og Laxá óskiljanlegt.

Í ljósi þess að Mývatn og Laxá eru friðlýst með sérlögum þá er rænuleysi stjórnvalda enn lygilegra. Markmið laganna er nefnilega að stuðla að náttúruvernd í samræmi við sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins sé ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Það er einmitt það sem er að gerast. Það er verið að stefna viðstfræðilegu þoli svæðisins í hættu með því til dæmis að laga ekki skolplagnir og gera skurk í fráveitumálum. Svæðið er gríðarlega vinsælt á meðal erlendra ferðamanna og það er ekki hægt að biðja þá alla að halda í sér á meðan þeir dvelja á staðnum.

Ef Skútustaðahreppur hefur ekki bolmagn til að laga fráveitumálin þá þarf ríkið einfaldlega að veita aðstoð með einhverjum hætti og það strax. Það þarf að bregðast við ekki seinna en núna.