Mikil umræða er um áhrif 4. iðnbyltingarinnar og alþjóðavæðingarinnar á framtíð starfa og enginn vafi er á því að þessi þróun er mikil áskorun fyrir okkar félagsmenn, einkum í því ljósi að um fjórðungur vinnandi fólks á vinnumarkaði hefur ekki lokið námi á framhaldsskólastigi. Við stöndum því frammi fyrir stóru menntunar- og símenntunarverkefni til þess að undirbúa bæði launafólk og atvinnulífið fyrir þessar breytingar.

Að sumu leyti hefur áherslan í þessari umræðu hins vegar verið of tæknimiðuð í stað þess að leggja mat á það hvernig þessi nýja tækni mun hafa áhrif á uppbyggingu og gerð okkar samfélags, sem skiptir auðvitað miklu meira máli. Þetta á sérstaklega við um áhrif nýrrar tækni á samband eða tengsl einstakra launamanna við fyrirtækin, þar sem aukin áhersla er á ýmis form skammtímaráðninga í formi lausamennsku eða jafnvel í formi verktakaráðninga þar sem fyrirtæki koma sér undan því að axla ábyrgð á viðkomandi launamanni og réttindi hans því í uppnámi.

Alþýðusambandið hefur því ákveðið að setja umræðu um breytingar á stöðu launafólks á vinnumarkaði sem meginviðfangsefni sitt á árinu 2018 og sem meginviðfangsefni 43. þings sambandsins í október.

Innleiðing nýrrar tækni er í sjálfu sér ekkert ný af nálinni. Frá fyrstu iðnbyltingu hefur tækninni fleygt fram með sífellt meiri hraða og hefur skilað sér í meiri framleiðni og betri vinnuaðstöðu okkar félagsmanna og lagt grunn að bættum lífskjörum. Það er hins vegar mikilvægt að muna, að drifkraftur þessarar þróunar er viðleitni fyrirtækja til þess að lækka kostnað og auka hagnað sinn og arðsemi eigenda.

Þessi þróun er því hluti af undirliggjandi baráttu um skiptingu þeirra verðmæta sem vinnan skapar. Sú barátta er ekki ný af nálinni og líkt og áður er það hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að tryggja launafólki réttláta hlutdeild í skiptingu þessara verðmæta og missa ekki sjónar af markmiðinu.

Víða erlendis hefur staða verkalýðshreyfingarinnar veikst til muna á undanförnum áratugum og er í dag ekki svipur hjá sjón þannig að laun hafa ekki þróast í neinu samhengi við aukna framleiðni og verðmætasköpun. Afrakstur vinnunnar skilar sér fyrst og fremst til fárra með vaxandi tekjumun og misskiptingu.

Það hefur síðan neikvæð áhrif á kaupgetu þorra almennings sem aftur leiðir til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki í nærsamfélaginu hafa setið eftir, á meðan stórfyrirtækin þrýsta á stjórnvöld um aukin aðgang að erlendum mörkuðum. Samhengi alþjóðavæðingar og þróunar starfa er því víða með talsvert ólíkum hætti en við þekkjum, þar sem þeim hafa fylgt lakari lífskjör og fækkun starfa.

Á Norðurlöndunum hefur þessi þróun verið með talsvert öðrum hætti. Þátttaka í verkalýðsfélögum er mikil og verkalýðshreyfingin í betri stöðu til að tryggja launafólki réttmætan hlut í aukinni verðmætasköpun. Ef horft er til þróunar launa og framleiðni hér á landi yfir langt tímabil er miklu betra og jákvæðara samhengi milli þessara grunnþátta en víða erlendis.

Sú áskorun sem felst í 4. iðnbyltingunni, gervigreindinni og sjálfvirknivæðingunni vegna þeirra breytinga sem eru að verða á eðli ráðningasambands einstakra launamanna við fyrirtækin er hins vegar ný af nálinni og miklu alvarlegri en við höfum staðið frammi fyrir áður. Þetta getur valdið miklum breytingum á uppbyggingu okkar samfélags og grafa undan því afkomuöryggi sem við viljum að einstaka fjölskyldur búi við.

Það er jafnframt ljóst að samband verkalýðshreyfingarinnar við sína félagsmenn hvílir að stórum hluta á stöðu og hlutverki trúnaðarmanna. Segja má að fyrirtækin – vinnustaðurinn – sé ákveðin grunneining í okkar starfi. Sú breyting sem er að verða á ráðningasambandinu – þar sem einstaka launamenn hafa ekki skýra félagslega stöðu innan einstakra fyrirtækja – getur því leitt til breytinga á þessu sambandi og þar af leiðandi getu hreyfingarinnar til þess að standa vörð um hagsmuni launafólks.

Að sama skapi getur þessi þróun haft mikil áhrif á þau réttindi sem launafólk nýtur, því margt af þeim hvílir á hefðbundnu ráðningasambandi við fyrirtækin og eru tengd starfsaldri þeirra. Dæmi um þetta er veikindaréttur og orlofsréttur. Reyndar er þessi áhætta mun stærra mál hjá félögum okkar á hinum Norðurlöndunum, því vegna smæðar íslenskra fyrirtækja hefur hér á landi tíðkast að byggja slík réttindi á tilvist ,,sjóða‘‘ óháð einstökum fyrirtækjum.

Má þar nefna sjúkrasjóði, fræðslusjóði, lífeyrissjóði og starfsendurhæfingarsjóð ásamt atvinnuleysistryggingasjóði, fæðingarorlofssjóði og ábyrgðarsjóði launa við gjaldþrot fyrirtækja. Skyldum atvinnurekenda gagnvart réttindum starfsmanna sinna á þessum sviðum lýkur við greiðslu iðgjalds mánaðarlega – og það iðgjald getur verið breytilegt eftir aðstæðum á vinnumarkaði – þar sem réttindi launafólks eru gagnvart viðkomandi sjóði og óháð einstaka fyrirtækjum. Eðlilegt er fyrir verkalýðshreyfinguna að skoða í alvöru að auka vægi slíkra lausna sem andsvar við auknu rótleysi í ráðningaforminu til þess að tryggja a.m.k. þennan mikilvæga hluta réttindanna.

Skoðunargreinin birtist í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .