Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum. Svo sem lesa má á vef DV. Þessi fullyrðing virðist ekki standast skoðun með öllu, því á heimasíðu Eflingar stéttarfélags, 25. júní í sumar, var nefndur prófessor kynntur til starfa fyrir stéttarfélagið.

Þar kemur fram: „Stefán hefur störf í ágúst á skrifstofum Eflingar að Guðrúnartúni 1 og verður í hálfu starfi meðfram því sem hann stundar áfram rannsóknir og kennslu í háskólasamfélaginu. Í starfi sínu hjá Eflingu mun Stefán leiða rannsóknar- og greiningarvinnu auk þess sem hann verður formanni og stjórnar til ráðgjafar um stefnumótun í kjaramálum og á tengdum sviðum.“ Samkvæmt þessu virðist augljóst að prófessor Stefán er innsti koppur í búri Eflingar og því hreint ekki óháður öllum samtökum. Í því ljósi ber að skoða nýjustu skrif hans um um komandi kjarasamninga í haust.

Stefán skrifar pistil á vef DV sem birtist miðvikudaginn 8. ágúst þar sem hann talar um að nú um stundir sé ágætt svigrúm til launahækkana. Það er í besta falli umdeilanleg staðreynd, þegar til dæmis útflutningsgreinarnar eiga margar hverjar við nokkra erfiðleika að stríða. Ekki síst vegna sterks gengis íslensku krónunnar og kostnaðarhækkana undanfarinna ára sem rekja má til launahækkana.

Launakostnaður er stærsti útgjaldaliður flestra fyrirtækja. Í könnun sem Samtök atvinnulífsins létu gera og birtist í júní í sumar, kemur fram að stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins telja að framundan séu skýr merki um hjöðnun. Reyndar eru merki um þessa hjöðnun nú þegar farin að koma fram og þarf ekki að líta lengra en til íslensku flugfélaganna því til stuðnings. Verkefnið framundan hlýtur að vera að festa stöðugleikann í sessi, en ekki setja hann í uppnám. Á því munu allir tapa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.