Ef marka má skoðanakannanir, og nið­urstöður bandarísku forsetakosninganna á þriðjudag benda sterklega til að svo sé, fögnuðu 98% íslensku þjóðarinn­ar því þegar Barack Obama náði endurkjöri sem valdamesti maður heims. Eftir sitja hins vegar 2% Íslendinga sem margir eiga enn eftir að þerra tárin yfir tapi síns manns.

Ein leið til að jafna sig á tímabundnum sigri sósíalismans (maður má stundum ýkja aðeins) er að hverfa í arm fortíðarinn­ ar og hugga sig við að hlusta á Ronald Reagan. Fáir stjórnmálamenn voru jafnfærir ræðumenn og Reagan þegar hann var upp á sitt besta.

Árið 1964 tókust þeir Barry Goldwater og Lyndon B. Johnson á um forsetaembættið. Af ýmsum ástæðum var Goldwater töluvert á eftir Johnson í könnunum og leituðu nokkrir áhrifamiklir repúblikanar til Reagans um hvort hann væri tilbúinn að flytja sjón­ varpsræðu til stuðnings Goldwater. Reagan tók vel í þessa hugmynd, en hann hafði ásamt öðrum flutt ræðu á landsþingi repú­ blikanaflokksins fyrr á sama ári. Goldwater var hins vegar ekki jafnhrifinn af hugmynd­ inni. Honum þótti ræðan, sem hann hafði þá aðeins lesið á blaði, of tilfinningaþrungin og ekki nógu fræðileg. Þegar hann sá hins vegar upptökuna, en Reagan flutti ræðuna fyrir framan sal fullan af fólki, á Goldwater að hafa spurt „hvað í andskotanum er að þessu?“ Ræðan var sett í loftið og er oft kölluð „Rendezvous with destiny“ ræðan eftir lokaorðunum. Þetta mætti útleggja á íslensku sem „stefnumót við örlögin“.

Það er til marks um hvað heimurinn hefur breyst mikið og ekki til hins betra að árið 1964 þótti það ekki út í hött að setja í loftið þrjátíu mínútna langa auglýsingu sem var í raun ekkert annað en einn maður að tala. Nú þykja auglýsingar of langar ef þær fara mikið yfir þrjátíu sekúndur.

Ræðan bjargaði ekki framboði Goldwaters, en skemmdi hún ekki fyrir, því töluvert dró saman með þeim Goldwater og Johnson eftir að hún var flutt. Hún vakti líka töluverða athygli á Reagan sjálfum og hjálpaði honum að komast í ríkisstjórnarstólinn í Kaliforníu og síðar í Hvíta Húsið. Í grunninn er hún hins vegar einhver besta ræða sem hægrimaður hefur flutt og hægt er að horfa á með auðveldu móti. Hún er sannkölluð klassík.