Það er ekki hægt að segja annað en að flestir virðist vera á tánum í jafnréttisumræðunni og vilja að börnin sín, stelpur og strákar, fái sömu tækifæri í lífinu. Ungar stelpur hafa eldri stelpur sem fyrirmyndir og það eru svo sannarlega til margar góðar fyrirmyndir. Fimleikastelpurnar okkar, fótboltastelpurnar, crossfit-stelpurnar, hæfileikaríkar stelpur í tónlist, þær sem sækja sér menntun og svona mætti lengi telja.

Þegar fjölskyldan situr fyrir framan sjónvarpið má svo oft sjá þessar fyrirmyndir sýna listir sínar. En þegar sest er saman fyrir framan sjónvarpið og horft á eldklára krakka svara spurningum er þó annað uppi á teningnum. Þar eru aðallega klárir strákar og litlar stelpur eiga bara að skilja það. „Já elsku barn, strákar eru svo klárir, stelpur líka en bara ekki sjónvarpsklárar.“

Síðustu tvö ár hef ég verið spyrill í Gettu betur og þær stelpur sem hafa tekið þátt í keppninni á þeim tíma hafa verið frábærar fyrirmyndir annarra stelpna. Einungis ein stúlka keppti í sjónvarpshlutanum í fyrra ásamt 23 strákum. Hennar lið hafði sigrað í keppninni árið á undan.

Í lokaritgerð Önnu Pálu Sverrisdóttur kemur fram að tveir fyrrum kvenkyns keppendur mættu ekki í forpróf í sínum skólum til að byrja með en þær áttu báðar eftir að keppa með sterkum liðum í sjónvarpshluta keppninnar. Þetta þýðir að það þarf meira til að fá stelpur til að mæta í forprófin. Brandarar um mismunandi hæfni kynjanna eru þreyttir.

Það er því alveg eðlilegt að ætlast til þess að fleiri séu meðvitaðir um þetta og hvetji feimnar stelpur til að taka þátt í keppnum eins og þessum. Það má alveg ætlast til þess af skólunum að leggja sig fram við að gera forprófin í liðin svo aðgengileg að allir þori að mæta í þau. Feimni og lítið sjálfstraust stelpna eiga ekki að koma í veg fyrir að þær fái að blómstra í því sem þær eru góðar.