*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Pétur Gunnarsson
5. september 2017 14:58

Stikkfrí

Hversu langt nær öryggistilfinning Ísland vegna veru okkar í Nató?

epa

Margir Evrópubúar hafa líklega vaknað við vondan draum eftir að hafa lesið fregnir þess efnis að Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna og þar af leiðandi valdamesti maður heims, kallaði hernaðarsamtökin Nató úrelt. Trump hefur enn fremur lagt mikla áherslu á að aðrar aðildarþjóðir Nató borgi sinn skerf til samtakanna.

Samkvæmt samþykktum Nató skuldbinda aðildarríki samtakanna að eyða tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu til varnarmála til ársins 2024. Gert er ráð fyrir því að Ísland, eitt stofnríkja Nató, greiði ríflega 1,5 milljarða króna í öryggis- og varnarmál, samkvæmt fjárlögum ársins 2017. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að VLF verði um 2.500 milljarðar króna á þessu ári.

Við hér á eyjunni bláu í Atlantshafi erum ekki tekin með þegar birtar eru tölur yfir það hvað ríki eyða í varnarmál sem hlutfall af VLF. Ísland er herlaus þjóð, og það eru flestir sáttir við hér. Ég held að enginn geri í raun ráð fyrir því að Ísland komi til með að borga 2% í öryggismál, ekki einu sinni Nató. En óneitanlega vaknar sú tilfinning að Ísland sé stikkfrí þegar kemur að stóra Atlantshafsbandalaginu sem er eina trygging okkar ef ráðist er á Ísland á einn eða annan hátt. Sérstaða okkar felst ekki í varnarmálum og mun aldrei vera það. En við höfum margt annað til brunns að bera. Það er þó spurning um hversu mikið er hægt að gera fyrir 1,5 milljarða króna.

Nú hefur DonaldTrump lýst yfir áhugaleysi sínu á því að verja Evrópu, og jafnvel grafið undan tilvist samtakanna. Orð skipta máli. Ríki eins og Þýskaland, þar sem einungis um 1,2% er eytt í varnarmál, þarf líklega að fylla í það skarð sem gæti myndast í varnarmálum í Evrópu vegna áhugaleysis Bandaríkjanna og jafnvel gæti Evrópusambandið spilað stærra hlutverk.

Þó virðist ríkja umtalsvert áhugaleysi innan Evrópu til að sinna eigin vörnum og sér í lagi þegar það þarf að greiða fyrir það. Einungis fimm ríki eyða meira en tveimur prósentum af VLF í varnarmál. Trump hefur jafnvel gengið svo langt að hann vilji ekki borga fyrir varnir ríkja sem tíma því ekki að láta fé af hendi rakna í varnarmál. Ég vona bara að það eigi ekki við um okkur hér á litla Íslandi.

Stikkorð: Donald Trump Ísland Nato varnarmál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.