Samkvæmt lögum nr. 138/2013 um stimpilgjald er greitt sérstakt gjald af skjölum við eignayfirfærslu tilgreindra eigna. Þó hafa aðeins tvenns konar eignayfirfærslur í för með sér stimpilgjald. Það eru fasteignir annars vegar og skip yfir 5 brúttótonnum hins vegar. Nefnd skip eru einu atvinnutækin sem bera stimpilgjald.

Skjöl er varðar skráningu og afskráningu loftfara eru stimpilfrjáls. Ferðaþjónustan hefur vaxið ört síðastliðin ár og hefur sú aukning leitt til aukinna fjárfestinga. Þannig hafa bæði Icelandair og Wow keypt nýjar flugvélar sem hvorki hafa né munu bera stimpilgjald. Einnig má geta þess að árið 1998 var gerð breyting á þágildandi lögum um stimpilgjald með það að markmiði að skapa betri aðstæður fyrir íslenskar kaupskipaútgerðir í erlendri samkeppni. Var þá veitt undanþága frá stimpilgjaldi við skráningu eða afskráningu kaupskipa hér á landi.

Þróunin í nágrannalöndum hefur verið í þá átt að stimpilgjald er einungis lagt á skjöl er varða yfirfærslur fasteigna en ekki atvinnutækja. Í Noregi, sem er eitt helsta samkeppnisland íslensks sjávarútvegs, er til að mynda ekki að finna neinar reglur um eignaryfirfærslugjaldtöku er varðar skip. Sem dæmi má nefna viðskipti Síldarvinnslunnar með sölu á eldri Berki og kaup á nýjum Berki. Greitt stimpilgjald hér á landi vegna viðskiptanna var um 80 milljónir króna, en kaupandi skipsins í Noregi greiddi einvörðungu 100.000 krónur til að fá skjöl og veð skráð hjá norskum stjórnvöldum. Auðsýnilega skaðar hið íslenska stimpilgjald íslenskan sjávarútveg í harðri erlendri samkeppni.

Engin rök standa til þess að aðeins einni atvinnugrein sé gert að greiða stimpilgjald við eignaryfirfærslu atvinnutækja. Þar sem löggjafinn hefur þegar tekið ákvörðun um að skjöl tengd eignaryfirfærslu á loftförum, minni skipum og kaupskipum séu stimpilfrjáls, hljóta öll rök að hníga að því að afnema stimpilgjald skipa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.